06.04.1965
Neðri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

138. mál, læknaskipunarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 11. landsk. (MB) talaði fyrir meiri hl. heilbr.- og félmn. og andmælti þeirri till., sem ég flyt um aðstoð við sjúklinga í læknislausum héruðum vegna kostnaðar af sjúkraflutningi og læknisvitjun. Rökin, sem hann færði gegn till., voru þau, að þetta gæti skapað misræmi að því leyti, að það gæti kostað líka mikið að vitja læknis og flytja sjúkling í héruðum, sem ekki væru læknislaus. Auðvitað viðurkenni ég, að það getur kostað mikið líka í þeim héruðum. En öll skipun læknishéraðanna í landinu er þannig gerð, að það verði viðráðanlegt fyrir fólk að vitja læknis, svo að það fer varla á milli mála, að þegar eitt hérað dettur út úr, þannig að læknir er þar enginn, verða aðstæðurnar þar verri en annars staðar. Ef þær yrðu ekki verri við það, væri eitthvað áfátt við læknaskipunina í heild. En ef hv. meiri hl. heilbr - og félmn. hefur haft einhvern áhuga á því að koma þarna til móts við þetta fólk, af hverju gerir hann þá ekki till. um að breyta till. í það horf, sem hann telur réttast? Nei, nm. gerðu bókstaflega ekki neitt annað, en að lýsa sig á móti till. Það var það eina hvað þetta snertir.

Hv. þm. minnti á, að á síðasta þingi var samþykkt við afgreiðslu fjárl. að veita nokkurn styrk einu læknishéraði, Djúpavíkurhéraði, vegna þess að það var læknislaust. Þetta sannar einmitt mitt mál, að þarna þurfti aðstoð, einmitt þar sem er læknislaust. Þeir sömu menn, sem eru andvígir þessari till. minni nú, voru þarna að sanna það, að þarna er einmitt þörf á að hlaupa undir bagga.

Hæstv. forsrh. andmælti þessari till. minni. Ég skal ekki segja, hvort hann er andvígur hugsuninni í henni, ég býst nú kannske ekki við því, en hann telur hana stórgallaða að þessu leyti, sem hv. 11. landsk. nefndi og hæstv. ráðh. nefndi sem dæmi kafla úr bréfi, sem hv. 5. þm. Vestf. (HV) var að lesa frá Breiðfirðingi. Það átti að sýna það, hvað mín till. var gölluð. M.ö.o.: þegar maður vestan af Breiðafirði kemur með þá hugmynd, að allur Breiðafjörður skuli vera eitt læknishérað, frá Öndverðarnesi inn fyrir Hvammsfjarðar- og Gilsfjarðarbotna og út á Siglunes, þá sjái menn, hvort ekki sé hún gölluð, till. mín. Aldrei hefur mér dottið í hug að koma með slíka hugmynd hér. Ekki hef ég orðið þess var, að nokkrum einasta þm. hafi dottið þetta í hug. Enginn stafur er um þetta í frv. Enginn stafur er um þetta í núgildandi lögum. Hvernig getur þetta verið rökstuðningur gegn till. minni, læknishérað yfir allan Breiðafjörð frá Siglunesi í Öndverðarnes, sem aldrei hefur heyrzt nefnt á Alþ. fyrr? Nei, þarna held ég, að hæstv. forsrh. hafi alvarlega skjátlazt í röksemdafærslunni og er ég alveg hissa á honum. Honum hefur einhvern tíma tekizt betur, en núna.