12.04.1965
Efri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

138. mál, læknaskipunarlög

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta frv, að sinni. É því er að finna allmörg nýmæli og ég skal strax taka það fram, að ég tel þau öll vera til bóta. Mig langar þó til þess að taka eitt nýmæli fram yfir annað í þessu frv., nýmæli, sem ég tel vera merkast af þeim nýmælum, sem um er að ræða, en það er í 4. gr. frv. Þar er svo ákveðið, að sameina megi tvö læknishéruð, ef sérstaklega stendur , og ráða tvo lækna til starfa í hinu sameinaða héraði. Þar er enn fremur kveðið svo á, að sameina megi fleiri læknishéruð í eitt og ráða jafnmarga lækna til samstarfs í hinu nýja héraði. Þetta, sem hér er heimilað, tel ég vera það, sem koma skal og koma þarf í læknaskipunarmálum landsins. Þróunin þarf að verða sú á komandi árum, að héruðin stækki, litlum héruðum sé steypt saman í eitt stórt og í héruðin ráðinn hópur lækna með mismunandi sérkunnáttu, læknar, sem síðan vinni saman í þessu stóra héraði. Þetta tel ég vera þá þróun, sem æskileg er, fyrst og fremst til þess að fá lækna til starfa í héruðin. Það er kunnugt, enda á það bent í grg. með þessu frv., að læknar óska þess að þurfa ekki að standa einir í starfi, þeir óska eftir að vinna í félagi við starfsbræður og þetta er eðlilegt. Sumpart er það eðlilegt vegna þess, að þá er hægt að koma við vaktþjónustu um nætur og helgidaga og í öðru lagi er það oft svo, að einn læknirinn bætir annan upp og læknum þykir gott; sérstaklega í erfiðum tilfellum, að geta borið ráð sín saman.

Í hv. Nd. varð allmikill úlfa þytur einmitt út af ákvæðum í frv., sem snerta þetta atriði, sem ég nú hef gert að umtalsefni. Það var gert ráð fyrir að sameina nokkur læknishéruð öðrum, gera eitt læknishérað úr tveim. Þetta mætti hinni hörðustu andstöðu hjá vissum hv. þm. Ég þarf ekki að taka það fram, að þær breytingar í þessu efni, sem gerðar voru í hv. Nd., tel ég til hins verra, því að hér er verið að streitast á móti þróun, sem þarf að verða í þessum málum. Fyrsta sporið, sem stíga skyldi í þessu efni, mætti þessari andstöðu, svo mikilli andstöðu, að sjálf hæstv. ríkisstj. guggnaði og tók sínar tillögur í þessu efni til baka.

Ég stend aðallega upp til þess að benda á þetta og um leið til þess að áfellast hæstv. ríkisstj. og þá ekki sízt hæstv. heilbrmrh. fyrir að hafa látið snúa sér í þessum málum, en eins og kunnugt er, beitti hæstv. heilbrmrh. sér jafnvel fyrir því með tillögugerð, að frá þessu yrði horfið. Ég tel þetta nokkuð mikils virði, hvernig byrjað er í þessu efni, því að hvernig verður framhaldið? Verður ekki, hvert skipti sem á að gripa til þessarar heimildar að sameina tvö eða fleiri læknishéruð í eitt, verður þá ekki sama uppi á teningnum og þá einmitt bent til þess fordæmis, sem nú hefur verið skapað í hv. Nd.?