13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

177. mál, menntaskólar

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. menntmrh. og hæstv. ríkisstj. í heild fyrir flutning þessa frv. um stofnun nýrra menntaskóla. Veit ég, að aðrir hv. þm. Vestf. munu taka undir þær þakkir.

Með þessu spori hefur verið tekið á þessum þýðingar miklu málum af stórhug og framsýni. Hinir nýju menntaskólar munu stuðla að nauðsynlegri fjölgun menntamanna og vaxandi hagnýtingu vísinda og tækni á hinum ýmsu sviðum íslenzks þjóðlífs. Vísindin eru í dag ekki aðeins hyrningarsteinn heilbrigðisþjónustu og heilsugæzlu, heldur aflgjafi hvers konar athafnalífs og verklegrar og andlegrar þróunar. Nýir, fullkomnir og myndarlegir skólar gegna þess vegna þýðingarmiklu framtíðarhlutverki í hinu íslenzka þjóðfélagi.

Það er mjög þýðingarmikið, að nýir menntaskólar eiga skv. þessu frv. að rísa og starfa í hinum ýmsu landshlutum. Ég er þess fullviss, að menntaskóli á Vestfjörðum muni verða þar merk menningarmiðstöð til ómetanlegs gagns fyrir þennan landshluta og þjóðina í heild. Ég tel það sérstaklega þýðingarmikið, að skólinn á að verða heimavistarskóli. Það mun eiga sinn þátt í því að stuðla að því, að skólinn verður sóttur af fólki víðs vegar frá af landinu.

Tvær aths. vildi ég leyfa mér að gera við frv. Í fyrsta lagi, að betur færi á því að það væri beinlínis tekið fram í frv., að Menntaskólinn á Vestfjörðum skuli reistur á Ísafirði. Enginn annar staður hefur komið til greina í þessu efni og því rétt að ákveða hann þegar með þessum lögum. Í öðru lagi virðist óþarft og óeðlilegt að taka það sérstaklega fram um menntaskólana á Vestfjörðum og Austfjörðum, að þá skuli stofna, þegar fé sé veitt til þeirra á fjárl. Ég leyfi mér að beina því til hv. menntmn., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún geri fyrrgreindar breytingar á frv.

Ég leyfi mér svo að endurtaka þakkir mínar til hæstv. ríkisstj. fyrir flutning þessa merka menningarmáls. Með því er stigið stórt og gæfusamlegt spor í skóla– og menningarmálum Íslendinga.