16.11.1964
Efri deild: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

16. mál, orlof

Björn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. sagði, að athugun sú, sem hefði farið fram í félmrn., hefði leitt í ljós þann mismun, sem hann gat um hér í sinni frumræðu. Ég kalla ekki, að þær upplýsingar séu sérlega snemma á ferðinni, því að þegar ég flutti frv. mitt í fyrra, lágu þessar upplýsingar allar fyrir og þær er allar að finna í þeirri grg., sem ég gerði þá fyrir málinu, þó að hæstv. rn. sé ekki fyrr á ferðinni með upplýsingarnar en svo, að einstakir þm. geti auðveldlega aflað sér þeirra, áður en það fær upplýsingarnar í hendur.

Viðvíkjandi því að öðru leyti, sem hæstv. ráðh. sagði, vil ég taka það skýrt fram, að ég er út af fyrir sig ekki að gagnrýna það, þó að ekki séu fleiri efnisatriði eða atriði, sem gangi í hagfelldari átt fyrir verkalýðshreyfinguna en gert er í þessu frv., — þó að þau sé ekki að finna í þessu frv. Ég get alveg skilið það og tel það að sumu leyti ekki óeðlilegt, að þetta frv. sé afgreitt svona og ekki öðruvísi. En ég vil hins vegar eindregið mótmæla þeim skilningi, sem kom hér fram í ræðu hæstv. ráðh., að samkomulagið í vor hafi bundið Alþingi og ríkisstj. um það, að á samningstímanum mætti ekki gera frekari breyt. á orlofslögunum í þá átt, sem verkalýðshreyfingin hefur barizt fyrir. Ég held, að þurfi a.m.k. gleggri augu en mín til að sjá það, að í þessu samkomulagi felist nokkur slik skuldbinding, en þannig mátti a.m.k. skilja ræðu hæstv. ráðh. Ég held, að Alþingi sé að þessu leyti algerlega óbundið gagnvart atvinnurekendum og það geti samþ. hverjar þær breyt. á orlofslögunum þrátt fyrir þetta samkomulag, sem því dytti í hug að væru sanngjarnar og eðlilegar. Ég veit auðvitað ekki um það, hvort ríkisstj. kann að hafa gefið atvinnurekendum eitthvert loforð á bak við um það, að hún skyldi ekki láta lögfesta nein frekari réttindi til handa verkalýðshreyfingunni í þessum efnum eða öðrum. Um það veit ég ekkert.

En ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvenær og hvernig er hægt að koma fram hér á Alþingi breytingum til verulegra bóta á orlofslöggjöfinni, ef þær mega aldrei vera öðruvísi en um hefur verið samið milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar? Væntanlega þegar þessu samningstímabili lýkur í vor, þá koma nýir samningar í gildi og binda málið áfram á þann hátt, sem þar verður samið um, og ég get ekki séð, að það sé yfirleitt á færi löggjafarvaldsins að eiga nokkurt frumkvæði í þessum efnum, ef hlutirnir eiga að ganga fyrir sig á þennan hátt. Ég vil sem sagt, ef engir baksamningar hafa verið gerðir um þetta mál milli ríkisstj. og atvinnurekenda, eindregið mótmæla því, að löggjafarvaldið hafi verið bundið með þessum samningum um það, að það mætti ekki samþykkja neinar frekari réttarbætur til handa verkalýðshreyfingunni.