08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fór um það nokkrum orðum við 1. umr. þessa máls, að mér sýndist svo, að þessi hv. d. ætti þess helzt til lítinn kost að fjalla um þetta margþætta og yfirgripsmikla mál svo sem skyldi og afgreiðsla menntmn. á því gæti ekki verið slík sem æskilegt væri, þegar um stór og viðamikil mál er að ræða eins og þetta er. Ég skal nú ekki bæta miklu við það, sem ég sagði þar um, en vil aðeins ítreka það, að þetta hefur vitanlega komið á daginn. Þetta er mjög óviðunandi, að mál eins og þetta, sem legið hefur 3 þing fyrir hv. Nd., vaknar loks til lífsins, ef svo má segja, þegar mjög skammt er eftir af þingtíma og hér verður, ef það á að ná fram að ganga, að afgreiða það með algerum hraða á þeim tíma, sem má kalla hina síðustu og verstu daga Alþ., eins og vinnubrögðum er háttað nú.

Ég flyt við þetta frv. aðeins eina brtt. og hefði þó e.t.v. verið ástæða til að flytja fleiri. Ég stend hins vegar að brtt. þeim, sem n. flytur í heild, og hefur hv. frsm, n. gert grein fyrir þeim.

Ég ætla aðeins að fara örfáum orðum um þá brtt., sem ég flyt við frv. Ég hef áður, oftar en einu sinni, bæði í sameinuðu Alþ. og hér í þessari hv. d., rætt um það mál, sem brtt. mín fjallar um, nauðsyn þess að koma hér á fót sérstakri tæknistofnun í þágu sjávarútvegsins. Till, mín er sú, að á eftir 18. gr. frv., þar sem fjallað hefur verið um Hafrannsóknastofnun, komi ný gr. þess efnis, að eitt af verkefnum Hafrannsóknastofnunar fyrst um sinn skuli vera það að hafa með höndum tilraunir með ný veiðarfæri og veiðiaðferðir og rannsóknir þar að lútandi, svo og rannsóknir á hagkvæmustu gerðum fiskiskipa, miðað við íslenzkar aðstæður, enn fremur að hafa með höndum upplýsingastarfsemi um þessi efni, og ég legg til, að þetta verkefni verði fyrst um sinn falið sérstakri deild innan Hafrannsóknastofnunarinnar. Síðan legg ég til, að ráðh. verði heimilt á árinu 1967 eða þá síðar að gera þessa deild að sérstakri og sjálfstæðri stofnun, Tæknistofnun sjávarútvegsins og hún hafi þá fyrrgreind verkefni og verði þá nánar kveðið á með reglugerð um ýmisleg atriði varðandi þessa stofnun, svo sem ráðgjafarnefnd hennar.

Ég er sannfærður um, að hér er um mikið nauðsynjaverk að ræða, að leggja grundvöll að slíkri tæknistofnun. Að vísu hafa verið tekin inn í þetta frv. í hv. Nd. nokkur þau atriði, sem mín till. fjallar um, en eins og frv. er nú, er ráð fyrir því gert, að Hafrannsóknastofnunin hafi þau verkefni með höndum, án þess að þar sé um að ræða sérstaka d., sem sinni þessum nauðsynjaverkefnum. Ég er sannfærður um, að hitt er miklu hentugra og líklegra til árangurs, að þegar verði lagður grundvöllur að því, að þetta verði sjálfstæð stofnun. En meðan þetta mál er að þróast upp í það, gæti ég hugsað mér, að hentugt væri, að tæknistofnunin eða tæknirannsóknirnar verði í höndum sérstakrar deildar innan Hafrannsóknastofnunarinnar.

Það er enginn efi á því, að þörfin á þessari starfsemi, þörfin á því, að sérmenntaðir menn í þessum greinum taki þau mál, sem þarna er um að ræða, föstum tökum, þörfin á því, að verulegu fé sé varið til þessara margþættu og nauðsynlegu rannsókna, er mikil. Ég er ekki í neinum efa um það, að slík tæknistofnun í þágu sjávarútvegsins mundi skila þjóðarbúinu miklum verðmætum á skömmum tíma og hver sem verða örlög þessarar till. minnar, er ég þess viss að það líður ekki langur tími, þangað til slík stofnun sem hér um ræðir hlýtur að komast á fót.