08.05.1965
Neðri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til þess, að allmiklar umr. yrðu hér um það mál, sem nú er á dagskrá, um breytingar á gildandi skattalögum. En eins og allir hv. þm. vita, þá er nú svo komið starfstíma Álþingis, að í rauninni gefst enginn tími til þess að taka á slíku stórmáli sem hér er til meðferðar eins og ástæða væri til. Tími til þingstarfa er senn búinn og ég mun því ekki leggja út í það að hefja hér upp miklar umr. nú við 1. umr. þessa máls um þetta frv.

Frv. gerir í rauninni ráð fyrir sáralitlum breytingum á gildandi skattalögum. Í rauninni er hér um minni háttar tilfærslu eða aðlögun að ræða á l, í samræmi við breytt verðlag, sem nú er orðið, en um teljandi breytingu að öðru leyti er ekki að ræða. Það er skoðun okkar Alþb.-manna, að það þyrfti að taka til rækilegrar endurskoðunar alla löggjöfina um skattheimtu ríkisins, eins og hún er orðin nú. Þyrfti þá sérstaklega að athuga skattheimtu þá, sem er í formi söluskatts, tolla, tekju- og eignarskatts og svo einnig innheimtu bæjar- og sveitarfélaga á útsvörum. Þessi skattheimta öll er þess eðlis, að hana þyrfti að ræða alla sameiginlega.

Það er öllum ljóst, að það hefur verið markandi stefna hjá hæstv. ríkisstj. á undanförnum árum að auka skattheimtuna í formi óbeinna skatta, þ.e.a.s. fyrst og fremst söluskatts og draga í rauninni úr skattgreiðslum félaga og fyrirtækja.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að skattgreiðslur félaga og fyrirtækja verði áfram með sama hætti og þær hafa verið.

Eins og oft hefur hér verið á minnzt, lýsti núv. ríkisstj. því yfir í ársbyrjun 1960, að hennar stefna væri sú, að ekki yrði greiddur tekjuskattur af almennum launatekjum. Þessu var lýst yfir, um leið og verið var að hækka til mikilla muna söluskattinn á almennum varningi í landinu. Á þessu ári 1960, lækkaði tekjuskatturinn talsvert. Skv. ríkisreikningi þá var tekjuskatturinn á árinu 1960 97 millj. kr., en á fjárl. þeim, sem nýlega hafa verið samþ. fyrir yfirstandandi ár, er gert ráð fyrir því, að tekjuskatturinn verði 375 millj. kr. og enginn vafi er á því, að ef fer að venju, þá verður þessi skattinnheimta í formi tekju- og eignarskatts nokkuð yfir 400 millj. kr. á móti 97 millj. kr. árið 1960. Þessar tölur tala sínu máli um það, hvernig farið hefur með þetta fyrirheit hæstv, ríkisstj. um það að gera allar almennar launatekjur skattfrjálsar.

En önnur skattheimta, eins og ég minntist á, hefur þó hækkað enn þá meir, einmitt sú skattheimtan, sem hvílir tiltölulega þyngst á almennum launatekjum. Söluskatturinn var árið 1960 102 millj. kr. skv. ríkisreikningi, en nú er hann ráðgerður á árinu 1965 923 millj. kr., eða þar er um níföldun að ræða. En á sama tíma hafa sem sagt skattgreiðslur félaga og fyrirtækja beinlínis minnkað. Það er því enginn vafi á því, að það væri mikil þörf á því að taka til rækilegrar endurskoðunar gildandi lagaákvæði bæði um beina og óbeina skattheimtu hins opinbera.

Við Alþýðubandalagsmenn höfum hér gert till. í þá átt á undanförnum árum. Við höfum við afgreiðslu þessa máls í Ed. flutt einnig tillögur í þá átt, að dregið verði nokkuð úr hinni beinu skattheimtu af almennum launatekjum, en jafnframt yrðu skattar nokkuð hækkaðir á félögum og fyrirtækjum. Við munum að sjálfsögðu gera það einnig við afgreiðslu málsins hér í d., en auðvitað er ekki aðstaða til þess nú að koma fram með till., sem gætu markað grundvallarbreytingar í skattinnheimtunni. Til þess að slíkt verði gert, þyrfti í rauninni að fara fram athugun á þessum málum í mþn.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta mál nú hér við 1. umr. Möguleikar til framhaldsumræðna gefast einhverjir, þegar málið kemur úr nefnd.