09.04.1965
Efri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

178. mál, eyðing svartbaks

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Svartbakur — eða veiðibjalla öðru nafni — hefur lengi verið illa séður í varplöndum, og ýmiss konar annan usla er einnig talið og er víst, að hann gerir, t.d. í veiðivötnum og veiðiám. Stundum tekur hann lömb og ýmiss konar aðra fugla en þá, sem varpfuglar geta talizt. Einkum er það æðarfuglinn, sem hefur orðið fyrir barðinu á svartbak og hafa æðarvarpaeigendur jafnan lagt mikla stund á það að halda þessum fugli það í skefjum, að honum fjölgi ekki svo mikið, að æðarvörpunum stafi mjög mikil hætta af. Áður fyrr lögðu varpeigendur sjálfir fé til höfuðs þessum fugli og stundum allverulegar upphæðir, en hin síðustu ár eða frá 1936 hafa gilt sérstök lög um eyðingu svartbaks og hið opinbera og sýslufélögin hafa í sameiningu staðið straum að kostnaði við að eyða honum.

Þau lög, sem nú gilda, eru rúmlega 30 ára gömul með breytingum 1941, 1951 og 1962. Almennt er talið, að þessi lög séu gagnslaus. Þar er einungis um skotlaun að ræða, sem eru svo lág, að enginn finnur hvöt til þess að stunda svartbaksveiðar fyrir þau. Og sú sorglega útkoma er nú augljós öllum mönnum, að svartbak hefur fjölgað í landinu langt fram yfir það, sem menn vita til, að hafi verið áður. Það kveður svo rammt að þessu, að í flestum æðarvörpum liggur þessi vargur svo í unganum, að mikill hluti hans fer í svartbak, um leið og æðarkollurnar leggja frá hreiðrinu með ungana til vatns. Það berast kvartanir frá varpeigendum um allt land út af þessu og æðardúnshlunnindi eða tekjur af æðardún hafa farið minnkandi ár frá ári.

Búnaðarþing hefur rætt þetta mál oftar en einu sinni og gert um það ályktanir og almennt er þess vænzt og krafizt af varpeigendum, að eitthvað sé gert til þess að fækka þessum fugli, sem um munar. En um leiðir til þess eru menn mikið ósammála. En víst er, að nýjar leiðir verður að fara, ef eitthvað á að gera, sem til gagns horfi.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af Búnaðarfélagi Íslands og hefur veiðistjóri, þ.e.a.s. sá maður, sem fer með eyðingu refa og minka, aðallega unnið að því að semja frv. og gera þær till., sem í frv. felast. Það, eins og ég sagði áðan, hafa borizt bæði til mín persónulega og margra fleiri þm. sterkar áskoranir frá varpeigendum víða um land, að samin verði löggjöf, sem áorki því að fækka þessum fugli verulega. Og það, sem í þessu frv. felst, er í fyrsta lagi það, að reyndar verði alveg nýjar aðferðir til þess að eyða svartbak. Í fyrsta lagi gerir frv. ráð fyrir því, að svartbaksveiðar verði fengnar í hendur sama manni og sér um minkaveiðar og refaveiðar og öll umsjón með svartbaksveiðum verði undir hans stjórn. Ég álít, að þetta sé sú eina leið, sem hægt sé að vænta einhvers af um það, að þessi mál verði tekin þeim tökum, sem taka þarf, að fela framkvæmdir vissum manni. Það má að sjálfsögðu um það deila, hvort það eigi að vera þessi maður, þ.e.a.s. sami maður og hefur minkaveiðarnar með höndum, en að mínu álíti er það mjög heppilegt, því að það getur í mörgum tilfellum farið saman, að sömu menn annist um refaveiðar, minkaveiðar og svartbaksveiðar og sú reynsla, sem er af því að framkvæma refa- og minkaveiðar á þann hátt, sem núgildandi lög gera ráð fyrir og hefur verið í gildi nú í nokkur ár, — sú reynsla er þannig, að hún spáir góðu um það að hafa sömu hætti um svartbaksveiðar og um minka- veiðar og refaveiðar. Og sá maður, sem fer með þessi störf nú, hefur verið mjög ötull í starfi og nýtur almenns trausts.

Ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér stuttan kafla úr grg., sem veiðistjórinn hefur skrifað með uppkasti því að frv., sem hér liggur fyrir og vænti ég þess, að þau orð, sem þar eru, skýri nokkuð, hvað í frv. felst, en ég tel ekki ástæðu til að rekja greinar þess lið fyrir lið, enda við því að búast, að það taki einhverjum breytingum í þn. og við nánari athugun og þegar búið er að bera það undir fleiri menn, sem skyn bera helzt á þessa hluti. En veiðistjórinn segir:

„Undanfarin ár hef ég nokkuð kynnt mér eyðingu svartbaks og þær aðferðir, sem líklegastar eru til að fækka stofni hans í landinu. Að vísu eru í gildi lög um eyðingu svartbaks frá 1936, en þau lög hafa reynzt alveg gagnslaus og jafnvel verri en engin. Að mínum dómi er langlíklegasta leiðin til fækkunar svartbaks, að sérstakir menn verði ráðnir til starfa í lengri eða skemmri tíma eftir ástæðum. Menn þessir þurfa að vera vel útbúnir að öllum tækjum og kunna að notfæra sér þau meðul, sem til greina koma við eyðingu hans og annarra varga. Eyðingaraðgerðir framkvæma hinir ráðnu menn á þeim stöðum, þar sem mergð fuglanna er mest og í varpstöðvum þeirra sjálfra og að sjálfsögðu í varplöndum æðarfugls og sé þá sérstök áherzla lögð á að verja þau fyrir ágengni hans og annarra varga.“

Eins og ég tók fram í upphafi, blasir það við, að ef ekkert er að gert í þessu máli, muni æðarvörp svo til þurrkast út, en æðarvörp hafa jafnan verið talin mikil hlunnindi þeirra, sem eiga og svo mikilsverð, að það er talsverður liður í framleiðslu þjóðarbúsins, ef æðardúnsframleiðsla hverfur. Og ef svartbak fækkaði frá því, sem er, svo að hann væri í hæfilegu hlutfalli við aðrar fuglategundir í landinu, má hiklaust búast við því, að stóraukning á æðardúnsframleiðslu yrði á næstu árum.

Um kostnað, sem af svona ráðstöfunum kynni að leiða, er erfitt að segja fyrir fram, en eftir þeirri áætlun, sem veiðistjóri gerir í sinni grg., er hann ekki tilfinnanlegur, en hann gerir ráð fyrir, að mikið mætti að gera í þessu efni með um það bil 1/2 millj. kr. framlagi árlega úr ríkissjóði. Ég legg ekki dóm á það, hvort þetta sé nærri lagi, en ég ætla, að sú upphæð, sem hann nefnir, sé þó helzt til of lág. En engar stórupphæðir mun þurfa fram að leggja, til þess að þarna gæti mikil breyting á orðið. Og ég endurtek það, að á þessu máli er ákaflega sterkur áhugi meðal allra þeirra manna, sem æðarvörp eiga og stunda, og engu síður hjá fjöldamörgum öðrum, sem telja æðarvarp og fuglalíf mjög mikils virði, þótt ekki sé litið á hagsmunina eina, heldur einnig þá fegurð og unað, sem fjölbreytt fuglalíf veitir fjölda manna. Ég hygg, að hver einasti varpeigandi í landinu telji útilokað að daufheyrast við þessu máli til lengdar af hinu opinbera, ef á annað borð á að leggja einhverja stund á það að viðhalda æðarvörpum og ég vil segja fleiri fuglategundir í vörpum, því að svartbakurinn leggst einnig á andfugl, þ.e.a.s. ungann, fyrir utan það sem hann leggst á egg og ýmsa fleiri fugla á landi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál hér á þessu stigi, en vænti þess, að það verði vandlega athugað og leitað að leiðum til þess að bæta úr þessu vandræðaástandi, sem skapazt hefur, síðan þessum fugli fjölgaði. Það þýðir ekki að fara út í það að ræða um, hvernig á fjölgun hans standi. Ég býst við, að það séu margar ástæður til, enda ekki aðalatriðið hér. En aðalatriðið er að reyna að leita að ráðum til að draga úr þeim skaða, sem þessi vargur veldur.

Að svo mæltu legg ég til, þar sem hlunnindi bæði í ám og vötnum og vörpum eru til landbúnaðar talin, að þessu frv. verði vísað til landbn.