30.04.1965
Efri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2004 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

195. mál, eftirlaun ráðherra

Flm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta um eftirlaun ráðherra er samið af n., sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka, en í n. áttu sæti 4. þm. Norðurl. (EI) og 2. þm. Austf. (HÁ) auk okkar flm. þessa frv.

Jafnframt samningu þessa frv., sem hér er til umr., samdi n. einnig frv. það, sem einnig hefur verið útbýtt, um lífeyrissjóð alþingismanna, en þegar lögin um þingfararkaup alþingismanna voru hér til umr. fyrir um það bil einu og hálfu ári, var þessi þáttur laganna um lífeyrissjóð og eftirlaun látinn bíða þar til nú. Umrædd tvö frv. eru því nánast framhald þeirrar endurskoðunar, sem þá átti sér stað.

N. hafði í störfum sínum samráð við tryggingafræðinga, en að því loknu var málið lagt fyrir þingflokkana alla og rætt þar og hefur hlotið samþykki þeirra allra.

Meginbreytingin, sem í frv. þessu felst, er, að gert er ráð fyrir, að nú verði stofnaður lífeyrissjóður eða eftirlaunasjóður ráðherra, sem er hliðstæður og alger hliðstæða við lífeyrissjóð alþingismanna og að þessir sjóðir báðir verði sérstakar deildir í hinum almenna lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Áður var enginn sérstakur eftirlaunasjóður ráðherra og er þetta frv. því nýmæli, en eins og frv. gerir ráð fyrir, er lagt til, að hann verði nú stofnaður.

Í báðum umræddum frv. er gert ráð fyrir, að halli kunni að verða á sjóðunum, svo sem nokkur reynsla er af um lífeyrissjóð alþingismanna, þ.e. að iðgjöld endist ekki til greiðslu eftirlauna. En þá er svo fyrir mælt, sbr. 8. gr. frv., og er samhljóða ákvæði í því frv., sem liggur fyrir hv. Nd. um lífeyrissjóð alþingismanna, að hallinn verði greiddur úr ríkissjóði.

Ég tel ekki þörf á því, jafngóðar skýringar og eru við einstakar greinar frv., að fara efnislega út í það freka, og samkvæmt undirbúningi málsins öllum væri e.t.v. ekki þörf á því, að málinu væri vísað hér til n., því að nánast er frv. flutt af n., þó að við vegna deildaskiptingar á Alþingi höfum skipt með okkur verkum þannig að flytja frv. sitt í hvorri deild nú, til þess að þau næðu sem fyrst fram að ganga. Ég tel þó rétt, til þess að, að því verði ekki fundið síðar meir, að málið hafi ekki fengið þinglega meðferð, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn., en óska þess jafnframt, að hún hraði afgreiðslu þess, til þess að það geti hlotið endanlegt samþykki Alþingis, enda ætti ekki, svo sem ég áðan greindi, að þurfa að vera sérstaklega mikil vinna við afgreiðslu málsins þar.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjhn.