04.05.1965
Neðri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

151. mál, sala landspildna úr Garðatorfunni og þriggja jarða

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir til 2. umr., er um heimild til sölu á þremur jarðeignum. Þetta var lagt fyrir Alþ. í þremur frv., en við athugun á þeim í hv. n. varð það að niðurstöðu að sameina þau í eitt í frv., undir frv. um sölu landspildu úr Garðatorfu. N. sendi öll þessi mál til umsagnar, svo sem venja er til, bæði til jarðeignadeildar og landnámsstjóra og það bárust umsagnir um öll þessi mál frá báðum þessum aðilum og voru þær allar jákvæðar. Að því er varðar jörðina Vindheima í Neskaupstað, kom fram athugasemd frá 3 mönnum, sem hafa haft jörðina til nota í Norðfirði, þar sem þeir bentu á, að þeir kynnu að eiga rétt samkv. ábúðarlögum til kaupa eða forkaupsrétt. Þó að n. mæli með, að þessi heimild verði veitt, þá er ekki tekin nein afstaða til þess réttar, sem þessir menn kunna að eiga að öðrum lögum. Ég tel rétt að taka þetta fram hér við þessa umr. En að því er snertir þriðju jörðina, sem er eyðijörð, Eiríksstaðir í Beruneshreppi, þá liggur fyrir, að hreppsnefnd mælir með, að jörðin verði seld þeim ábúendum, sem tilgreindir eru og enn fremur liggja fyrir meðmæli frá héraðsráðunautum á Austurlandi. Sem sagt: Ég fjölyrði ekki meira um málið, en nefndin varð einhuga um, að það væri einfaldari afgreiðsla, þar sem enginn ágreiningur var um þessi þrjú mál, að sameina þau í eitt, og er þess vegna flutt brtt, sú, sem hér fylgir, við frv. um sölu á landspildu úr Garðatorfunni.