11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Winston Churchill sagði einhverju sinni, að lýðræðið væri versta stjórnskipulag, sem til væri, að undanteknum öllum hinum. E.t.v. gætu þessi orð róað einhverja þá, sem hlustuðu á umr, í gærkvöld og fannst, að meira en litið hlyti að vera bogið við stjórnarfarið hér á landi, þótt ekki nema svo sem eins og 10% af fullyrðingum stjórnarandstöðunnar væri rétt. Satt að segja var því líkast sem kommúnistar og þó alveg sérstaklega framsóknarmenn væru að lýsa ástandinu í Kongó, en ekki hér uppi á Íslandi.

Við eigum vissulega við margvíslega erfiðleika að etja. En það er ýmislegt, sem við megum ekki gleyma. Aldrei hefur atvinna verið meiri í landinu, aldrei hefur þjóðin haft meira að bíta og brenna. Samt tala þessir menn um það, að nú verði Íslendingar að herða sultarólína. Aldrei höfum við eignazt fleiri fiskiskip og kaupskip, aldrei byggt fleiri verksmiðjur, aldrei lagt lengri vegi, aldrei aflað betur, aldrei framleitt meira, aldrei fjárfest meira. Samt tala stjórnarandstæðingar um, að allt sé að hrynja og stöðvast, allt atvinnulíf að lamast og allir séu kúgaðir og píndir. Aldrei hefur meira fé verið varið til almannatrygginga, aldrei meiri lán veitt til húsbygginga, aldrei meira reist af verkamannabústöðum, aldrei verið byggt meira af skólum eða meira fé verið varið til menningarmála. Aldrei hefur íslenzku þjóðinni í heild liðíð eins vel, aldrei hefur framtíð æskunnar verið bjartari. Samt koma stjórnarandstæðingar fram fyrir þjóðina og lýsa pínu og eymd, kalla þetta tímabil stöðvunar og stjórnleysis.

Nauðsynlegt er að hafa dugmikla stjórnarandstöðu, sem heldur uppi heilbrigðri gagnrýni. En ræðuflutningur framsóknarmanna í gærkvöld átti ekkert skylt við gagnrýni. Hann var nánast sjúklegt niðurrif, sem getur verið beinlínis skaðlegt fyrir þjóðina og þó alveg sérstaklega fyrir verkalýðinn. Nú eru að hefjast örlagaríkar tilraunir til samninga um vinnufrið. Þeir samningar munu ekki nást, nema atvinnurekendur fáist til að veita verkafólki nægilegar kjarabætur og atvinnuvegirnir taki þær á sig. Í þessu sambandi var ræða Eysteins Jónssonar í gærkvöld eins og hún væri pöntuð af atvinnurekendum og um leið eins og löðrungur á verkalýðshreyfinguna, því að ef ástand atvinnuveganna er eins hroðalegt og Eysteinn lýsti því, hvað þýðir þá að vera að tala um kauphækkun? Ef atvinnurekendur þurfa einhver svör gegn óskum verkalýðsfélaganna, þurfa þeir ekki annað en fletta upp í þeirri píslarsögu, sem Eysteinn las fyrir þjóðinni. Verkalýðurinn getur þakkað Eysteini fyrir hjálpina. Það virðist nú augljóst, að foringi framsóknarmanna óskar ekki eftir júnísamkomulagi eða vinnufriði.

Árið 1963 má segja, að stöðug átök hafi verið á vinnumarkaðinum. Deilur og verkföll voru af og til allt árið, kaupgjald hækkaði þrisvar sinnum og í desember kom til stórátaka. Eftir hina bitru reynslu þessa árs var eins og þjóðin vildi reyna nýjar leiðir í kjaramálum. Viðræður hófust um samninga á breiðum grundvelli og tóku ríkisvaldið og heildarsamtök verkalýðsins málið í sínar hendur. Samtölin drógust fyrst á langinn og ýmsir létu í ljós vantrú, vildu láta stjórna landinu með hörku. En vitrari menn fengu ráðið. Samtölunum var haldið áfram, unz samningar tókust í júní. Það var sem fargi væri létt af þjóðinni og þóttu þeir menn að meiri, sem höfðu lagt sig fram um að tryggja þennan frið báðum megin við samningaborðið.

Vegna júnísamkomulagsins var árið 1964 gerólíkt hinu fyrra. Nú ríkti kyrrð og friður að kalla og mun meira jafnvægi í efnahagsmálum, en áður. Þó gekk ekki allt eins og skyldi og hafa báðir aðilar sakað hinn um að hafa brugðizt samkomulaginu. Ekki hafa þær ásakanir þó verið þyngri en svo, að sýnilega vildu báðir og ætluðu sér að láta júnísamkomulagið reynast vel. Nú eru liðnir 11 mánuðir af 12. Nokkuð hefur verið talað saman, en hin alvarlegu heildarsamtöl eru fram undan. Hefur komið fram sterkur vilji fyrir nýju samkomulagi, enda þótt öllum sé ljóst, að af ýmsum sökum verður það erfiðara nú, en í fyrra. En menn eru reynslunni ríkari og ætti að vera unnt að forðast þau mistök, sem gerð hafa verið á árinu.

Í sambandi við þetta mál verðum við að hafa eina staðreynd í huga. Hún er sú, að á öld tækninnar hefur verkamaðurinn orðið dýrmætari og dýrari en nokkru sinni fyrr. Meiri kröfur eru gerðar til vinnandi manna í öllum stéttum og þeir eiga vegna hjálpar vélanna að fá meira kaup en nokkru sinni fyrr. Þetta er sú einfalda skýring á velmegun nútímans. Þau atvinnufyrirtæki, sem geta ekki fylgt þessari þróun, verða að taka tæknina meira í sína þjónustu eða bæta skipulag sitt, ella hljóta þau að heltast úr lestinni. Íslenzkir atvinnurekendur hafa flestir viðurkennt þessar staðreyndir á einn eða annað hátt í verki. En þeir hafa of mikla tilhneigingu til að greiða yfirvinnu og næturvinnu, gera samkomulag að tjaldabaki við einn og einn starfsmann, veita þeim einhver sérhlunnindi eða koma kaupi á einhvern hátt til manna eftir krókaleiðum. Þessum starfsaðferðum verður að breyta og koma kaup- og kjaramálum í eðlilegt horf með samningum, en finna þær leiðir til hagræðingar, sem þarf í hverri grein. Þannig eiga verkamenn að fá styttri vinnutíma en nú tíðkast fyrir óskert og síðar hækkað kaup.

Þegar lesnar eru skýrslur um breytingar á kauptöxtum hinna ýmsu stétta síðustu ár, kemur í ljós, að hækkanir hafa orðið mestar hjá verkakonum. Stafar þetta af lögum um launajafnrétti, sem Alþfl. knúði fram, þannig að kvennakaupið hefur hækkað í áföngum. Nú hefur ýmsum dottið í hug, hvort ekki sé unnt að beita þessari sömu aðferð á víðari grundvelli og semja um kaupbreytingar, sem gerðust í áföngum, t.d. á 2 árum. Mundu þá atvinnufyrirtækin fá nokkurn tíma til að búa sig undir hækkanirnar og koma á þeirri hagræðingu, sem nauðsynleg kann að vera. Að vísu er ljóst, að erfiðara er að beita áfangaleiðinni í heildarsamningum en fyrir eina og eina starfsgrein eins og verkakonur, en þó er þetta athugandi.

Ýmislegt hefur verið sagt í þessum útvarpsumr., sem kynni að draga úr vonum manna um nýtt júnísamkomulag. Ég vona, að þetta sé aðeins hluti af samningunum, að fulltrúar beggja aðila spenni bogann helzt til hátt í byrjun. Hitt getur enginn efazt um, að ríkisstj. hefur mikinn hug á að ná nýju samkomulagi og mun mikið á sig leggja til að það takist. Alþfl. leggur sér í lagi mikla áherzlu á lausn þessa máls, bæði innan verkalýðshreyfingarinnar og innan ríkisstj. Hefur flokkurinn lagt áherzlu á einingu þeirra afla, sem oft hafa með sundurlyndi lamað þrótt verkalýðshreyfingarinnar, en samtímis reynt að beita sér fyrir framgangi þeirra félagslegu mála á vegum stjórnarinnar, sem ætla má, að greiði fyrir samkomulagi.

Stjórnarandstæðingar tala mjög um viðreisnina og ráðast á hana og afleiðingar hennar frá 1959 til þessa dags. Ég hygg, að nánari íhugun muni leiða í ljós, að réttara sé að tala um viðreisnina frá 1959–1963. Henni tókst ekki að ná öllum þeim áföngum, sem henni voru ætlaðir, en hún gerbreytti viðhorfum og aðstæðum íslenzku þjóðarinnar. Viðreisnin bjargaði fjárhagslegu sjálfstæði Íslendinga gagnvart umheiminum, þurrkaði skuldafen, en byggði gjaldeyrissjóði og lánstraust til nýrra átaka. Viðreisnin keypti bátaflota og reisti barna- og gagnfræðaskóla um land allt. Viðreisnin margfaldaði almannatryggingar, veitti konum launajafnrétti, endurreisti verkamannabústaðakerfið. En viðreisnin gat því miður ekki haldið verðbólgunni niðri til lengdar frekar, en nokkur önnur íslenzk ríkisstj. hefur megnað í aldarfjórðung. Eftir að viðreisnartímabilinu lauk 1963, tók við millibils ár í fyrra. Einkenni þess var júnísamkomulagið, hin alvarlega tilraun til að koma málum markaðarins á nýjan grundvöll, sem gæti leitt til hagkvæmari þróunar á því sviði.

Á líðandi ári, 1965, er að koma fram ný stefna hjá ríkisstj., stefna, sem mætti kenna við nýjar leiðir. Og hver er þessi nýja stefna, sem er að mótast í höndum stjórnarinnar? Hún er í fyrsta lagi nýr friður á vinnumarkaði, byggður á batnandi kjörum og nýrri tækni. Stefnan er nýjar atvinnugreinar, t.d. alúminíumiðnaður. Hún er Vestfjarðaáætlun, um að gerbreyta lífskjörum í heilum landshluta. Hún er nýr framkvæmdasjóður fyrir dreifbýlið, öflugri en nokkru sinni fyrr. Hún er nýjar og stórauknar ellitryggingar fyrir alla landsmenn. Hún er nýir tækniskólar, nýtt iðnnám og nýir menntaskólar. Hún er íslenzkt sjónvarp. Hún er vegáætlun, hafnir, skip, ræktun, verksmiðjur. Hún er ný orkuver, hún er ný tækni, rannsóknir og vísindi. Sumt af því, sem ég nefni, eru umbótamál, sem þegar eru að verða að veruleika. Önnur hafa verið undirbúin og geta komið til framkvæmda nætu mánuði, ef ekki hefst ný borgarastyrjöld um kaup og kjör hinna vinnandi stétta.

Tvö hinna nýju áforma hafa verið rædd á Alþ. undanfarnar vikur: stórvirkjun Þjórsár og bygging alúminíumverksmiðju á vegum svissnesks félags. Ekki er um það deilt, að hefja verður nýjar virkjanir í stórum stíl, enda er rafmagnsskortur framundan, ef frekari dráttur verður á þeim framkvæmdum. Auk þess suðar í eyrum þjóðarinnar hin gamla áminning skáldsins: „Arðlaust fossar aflið þreyta inn í klettaþröng.“

Fallvötnin eru næst á eftir fiskimiðunum mesta auðlind þjóðarinnar, en jafnframt sú, sem hvað minnst hefur verið notuð. Nú hafa sérfræðingar ríkisins um árabil athugað þessi mál og varið tugum millj. í rannsóknir í helztu virkjunarstöðum. Hafa þeir staðnæmzt við Þjórsá og telja hana henta bezt til næsta áfanga. Hafa þeir lagt til, að gerð verði stórvirkjun, sem við það miðist að selja verulegan hluta af orkunni til alúminíumverksmiðju, sem erlendum aðilum verði leyft að reisa hér á landi. Það er óumdeilt, að stórt orkuver framleiðir ódýrari raforku en lítið. Með því að fá inn í landið stóran orkukaupanda, skapast aðstaða til að koma upp stóru orkuveri, sem hægt væri að greiða niður á tiltölulega skömmum tíma. Ef við reisum stöðina við Búrfell og ætlum hana eingöngu fyrir sjálfa okkur, er hætt við, að ekki rísi önnur stór orkuver um langt árabil. Við verðum það lengi að borga þessa stöð niður. Ef við á hinn bóginn leyfum alúminíumverksmiðju til að fá kaupanda að helmingi orkunnar, skapast tiltölulega fljótt fjárhagsleg aðstaða til að ráðast í nýjar stórframkvæmdir, sem gætu t.d. verið við Dettifoss. Þess vegna er sú hugmynd stjórnarandstöðunnar, að Búrfell verði virkjað án stóriðju, byggð á einstakri skammsýni og gæti t.d. vel haft þær afleiðingar, að Dettifossvirkjun yrði ekki að veruleika um langt árabil.

Nokkur ágreiningur hefur verið um vandamál varðandi Búrfellsvirkjun. Á því sviði deila verkfræðingar innbyrðis um mál, sem sérþekking þeirra ætti að leysa úr. Er algengt, að sitt sýnist hverjum sérfræðingi og verða þá leikmenn að taka ákvörðun, velja till. eins verkfræðings, en hafna öðrum. Í Búrfellsmálinu hefur ríkisstj. valið þann kost, sem raforkumálaskrifstofan mælir með, en hún hefur á að skipa fjölda ágætra verkfræðinga og hefur auk þess á sínu máli heimsþekkt erlent verkfræðifyrirtæki, sem rannsakað hefur Þjórsá. Geta stjórnarvöld landsins ekki betur gert en byggja aðgerðir sínar á slíkum tæknigrundvelli. Í þessu máli verður Íslendingum ljósara en nokkru sinni fyrr, að hér er „ei stoð að stafkarlsins auð, nei, stórfé, hér dugar ei minna.“

Og þá vaknar enn spurningin um þessa og margvíslega aðra fjárfestingu, sem þjóðin telur nauðsynlegt að ráðast í. Hvernig eigum við að komast yfir stórfé? Til þess eru þrjár leiðir. Fyrsta leiðin er að taka fé af okkar eigin þjóðartekjum og verja því í fjárfestingu. Þetta gerum við í stórum stíl. Fjárfesting á þessu ári verður um 5.000 millj. kr., yfirgnæfandi meiri hl. þess okkar eigið fé, enda tæplega þriðjungur allra þjóðarteknanna. Önnur leiðin er að taka lán erlendis, sem við ætlum sjálfir að endurgreiða og nota það til framkvæmda. Þetta höfum við einnig gert í stórum stíl. Við tökum útlent lán í hvern bát og hverja flugvél, sem við kaupum. Við tökum útlent lán í Keflavíkurveg og Ennisveg og Vestfjarðaáætlun. Og við ætlum að taka stærsta framkvæmdalánið til að virkja í sjálfri Þjórsá. Þriðja og síðasta leiðin er að fá inn í landið erlent fjármagn, þannig að útlendir aðilar reisi hér atvinnutæki og reki þau samkv. sérstökum samningum. Þetta höfum við ekki gert hingað til, enda þótt flestar aðrar þjóðir, ekki sízt smáþjóðir, sem eru að byggja upp atvinnuvegi sína, geri þetta í stórum stíl. Norðmenn hafa farið þessa leið síðan fyrir aldamót og fara enn. Mörg ríki bjóða erlendum iðnaði hvers konar hlunnindi, svo sem skattfrelsi í 10 ár og jafnvel beina styrki, ókeypis lóðir o.s.frv.

Hér á landi eru mjög skiptar skoðanir um þessa þriðju leið, að hleypa erlendum fyrirtækjum inn í landið. Sumir vilja ekki veita neinum aðila slíkan rétt, en aðrir vilja opna allar dyr upp á gátt og smala inn erlendu áhættufé, eins og það er kallað. Alþfl. hafnar báðum þessum öfgaleiðum. Flokkurinn vill ekki opna dyrnar, ekki setja almennar teglur um það, að hver geti komið, sem koma vill. Alþfl. vill hafa lántökuleiðina sem aðalreglu. Hins vegar telur flokkurinn ekki hyggilegt að útiloka með öllu þá leið að stofna til nýrra atvinnugreina með þátttöku erlendra aðila. Verður þá að rannsaka gaumgæfilega hverju sinni, hvort slík ráðstöfun mundi verða þjóðinni til góðs, hvort tæknikunnátta á nýjum sviðum mundi berast til landsins, sem erfitt væri að afla á annan hátt. Í þessu máli megum við hvorki láta stjórnast af minnimáttarkennd né gáleysi og fégræðgi. Við verðum að fara að öllu með gát og fá okkur til aðstoðar færustu menn við samninga. Hér er ekki um neina uppgjöf að ræða, allt slíkt tal er fleipur eitt. Við hljótum að hafa manndóm og þroska til að geta hagnýtt okkur erlent fjármagn á takmarkaðan hátt, eins og aðrir gera, smáir og stórir. Að sjálfsögðu kemur ekki til mála, að ný atvinnugrein, sem verður sett á stofn með erlendri aðild, fái á nokkurn hátt að ganga út yfir hina eldri atvinnuvegi. Við hljótum að stuðla áfram að hraðri uppbyggingu fiskveiða; iðnaðar og landbúnaðar og það er illt verk að stofna til fjandskapar milli þessara greina og hins nýja iðnaðar þegar í byrjun. Þá er óhjákvæmilegt, að svo miklar framkvæmdir sem nú eru fyrirhugaðar verði að falla inn í ramma nýrrar framkvæmdaáætlunar, sem ríkisstj. hefur boðað. Þjóðin verður að vita, hvað fram undan er og haga framkvæmdamálum sínum á skipulegan hátt, ekki sízt með tilliti til vinnuaflsins. Til þess þarf töluvert umfangsmeiri og ýtarlegri áætlanir, en gerðar hafa verið til þessa og væri líklega skynsamlegt að setja upp áætlunarráð, þar sem fulltrúar ríkisstj., sveitarfélaga, verkalýðs og allra helztu atvinnuvega ættu sæti og gætu borið saman ráð sín. Fordæmi að slíku samstarfi er að finna víða um lönd.

Því er haldið fram, að erlendur auðhringur mundi fljótlega tryggja sér víðtæk áhrif í landinu, kaupa upp menn og blöð og gerast sterkur aðili í stjórnmálum. Slíkir hlutir hafa gerzt í Mið- og Suður-Ameríku. Hins vegar hef ég spurt norska stjórnmálamenn, sem eru engir vinir þessara hringa, hvort þeir hafi seilzt til pólitískra félagslegra eða annarra slíkra áhrifa í Noregi. Þeir hafa ávallt svarað spurningu minni neitandi, Íslendingar eru menntuð þjóð, sem hefur sterka þjóðerniskennd. Lýðræði er hér öflugt, a.m.k. hvað við kemur hlut stjórnarandstöðu og almennrar gagnrýni. Jafnvel þeir íslenzkir stjórnmálamenn, sem Þjóðviljinn og Frjáls þjóð kalla stoltlausa landsölumenn, eru kunnir að því meðal erlendra aðila að vera sjálfstæðir, harðir í horn að taka og fastir fyrir um hagsmuni Íslendinga. Þess vegna tel ég litlar eða engar líkur á því, að félag frá hinu hlutlausa Sviss geri nokkrar tilraunir til að spilla menningu okkar eða frelsi eða það tækist, þó að þeir reyndu það.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir, hvernig við getum náð sem hagstæðustum samningum um alúminíumverksmiðjuna. Við þá samningagerð verða ekki aðeins þeir menn, sem annazt hafa þessi mál hingað til fyrir ríkisstj., heldur erlendir lögfræðingar, sem eru þaulvanir slíkum málum. Sérstaka áherzlu verður að leggja á sem rúmust endurskoðunarákvæði á samningstímanum, af því að slíkt samkomulag hefur ekki fyrr verið gert á Íslandi. Meðal vandasömustu atriða verða rafmagnsverð, tollar og skattar. Samningar um alúminíumverksmiðju eru hvergi í heiminum gerðir, nema samið sé um rafmagnsverð fyrir fram til langs tíma, alveg eins og lán til stórvirkjunar fást yfirleitt ekki, nema sýnt sé fram á, að rafmagnið seljist nægilega fljótt til að greiða lánin. Um tolla af vélum og efni verksmiðjunnar verður ekki að ræða, en það verðum við að líta á sem lið í þeirri stefnu ríkisstj, að lækka verulega tolla af vélum og öðrum stofnkostnaði okkar eigin atvinnuvega. Tollbyrði hefur verið meiri kostnaðarliður í stofnun iðnfyrirtækja hér á landi, en góðu hófi gegnir og verður að sjálfsögðu að koma á jafnrétti í þeim efnum. Skatta verður verksmiðjan í meginatriðum að greiða eins og íslenzk lög mæla fyrir um. En þó benda veigamikil rök til þess, að skynsamlegra sé að leggja fast gjald á hvert tonn af alúminíum, en nota venjulega framtalsleið. .Ég er sannfærður um, að á þann hátt mundum við fá miklu meiri skatt af verksmiðjunni en ella.

Um allt þetta mætti tala langt mál. En það er mjög óhyggilegt, ef við litum á hagsmuni þjóðarinnar, að ræða einstök samningsatriði opinberlega í smáatriðum, áður en samningum er lokið. Það er raunar óvenjulegt, að ríkisstj. skuli skýra þjóðinni svo ýtarlega frá málum eins og þessu, meðan á samningum stendur og skipa sérstaka þn. með fulltrúum stjórnarandstöðunnar til að fylgjast með þeim. Þetta hefur ríkisstj. okkar þó viljað gera. Takist samningar um alúminíumverksmiðjuna í sumar, verða þeir að sjálfsögðu lagðir fyrir Alþ. til samþykktar eða synjunar, eins og lög mæla fyrir.

Kommúnistar hafa haldið uppi miklum áróðri í þessu máli. Eins og þeirra er háttur, þegar erlendir aðilar koma við sögu, ráðast þeir á stjórnarflokkana og ákæra forustumenn þeirra um föðurlandssvik, landsölu, skort á þjóðarstolti og hvað eina af því tagi. Ég vil á einu bretti mótmæla þessum svívirðingum. Ég mótmæli því, að kommúnistar og fylgifiskar þeirra skuli þannig sí og æ reyna að stela ættjarðarástinni af leiðtogum annarra stjórnmálaflokka. Lítill minni hl. þjóðarinnar trúir því, að hlutleysi og einangrun frá umheimi sé leiðin til að varðveita frelsi og menningu Íslendinga. Þetta fólk virðist telja, að flest samskipti við aðrar þjóðir, sem kalla má því nafni, gangi glæpi næst.

Mikill meiri hl. þjóðarinnar er hins vegar á allt annarri skoðun, þeirri að þjóð okkar verði að horfast í augu við staðreyndir nútímalífs, hafa ákveðna stefnu í utanríkis- og öryggismálum sínum, en hlutleysi og einangrun séu óraunhæfar leiðir. Meiri hl. vill margvísleg, en heilbrigð samskipti við umheiminn og telur, að við stöndum í dag sem frjálsir menn, sem þurfi ekki að beygja sig í viðskiptum við neina aðra þjóð. Eitt er víst, að meðal nágrannaþjóða okkar í Evrópu og Norður-Ameríku höfum við Íslendingar orð á okkur fyrir að vera stoltastir og sjálfstæðastir allra þjóða í þessum hluta heims. Viðhorf meiri hl. í utanríkismálum, stjórnarflokkanna og stuðningsmanna þeirra, byggist á fölskvalausri föðurlandsást og íslenzku þjóðarstolti, ekki síður, en viðhorf minni hl. Allt, sem við gerum, gerum við til að auka velmegun og virðingu þjóðar okkar. Góða nótt.