08.05.1965
Sameinað þing: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

Aluminíumverksmiðja

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. lengi með athugasemdum við ræðu hæstv. iðnaðarmrh., enda gaf hún ekki tilefni til þess.

Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að ríkisstj. hefur dálítið ólíka afstöðu til eignarhalds Íslands eða eignarhluta Íslands í verksmiðjunni og eignarhluta Íslands í hafnarmannvirkjum verksmiðjunnar. Nú er þetta tvennt alveg násamtengt, Þetta er eitt og sama fyrirtækið. Ráðh. lýsti því yfir, að hann hefði ekki áhuga á því, að Íslendingar ættu neinn hluta í verksmiðjunni, en hins vegar þætti honum við litlir karlar, ef við vildum ekki eiga höfnina sjálfir. Mér finnst þessi afstaða dálítið í ósamræmi hjá hæstv. ríkisstj. og ekki mikil ástæða til að eiga frekar þann hluta af þessu fyrirtæki, sem heitir höfn, en einhvern annan hluta.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég mundi geta upplýst það, hvenær iðnmrh. Noregs hefði veitt þingi þar upplýsingar um málið. Og það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, það var nokkuð seint, sem hann gerði það og þó aðalatriðið ekki það, að hann veitti ekki ákveðnar upplýsingar í þinginu, heldur var talið, að hann hefði leynt þingið nokkrum mikilvægum atriðum. Og í þeim samningum, sem Trygve Lie gerir seinna, þegar hann fær þessa fyrri samninga endurskoðaða, þá er einn liður úr fyrri samningunum algerlega felldur úr gildi og sá liður var nokkuð þýðingarmikill, því að hann varðaði greiðslu verksmiðjunnar til Svisslendinganna fyrir tæknihjálp og umboðslaun og annað þess háttar og ákveðið, að það skyldu teknir upp nýir samningar um þennan lið. Ráðh. féll því auðvitað ekki eingöngu á því að hafa skýrt þinginu seint og illa frá málinu, heldur einnig og ekki síður fyrir það að hafa gert slæma samninga.

Einnig skildi hæstv. ráðh. orð mín þannig um gjaldeyrisviðskipti verksmiðjunnar við norska banka, að ég hefði sagt eða látið í það skína, að alúminíumverksmiðjan sjálf eignaðist það, sem eftir yrði í norskum bönkum af gjaldeyri, þegar búið væri að taka inn gjaldeyri fyrir alla söluvöru og greiða kostnað erlendra aðila. Þetta er misskilningur. Það, sem eftir verður, eru nettótekjur norsku þjóðarinnar fyrir rafmagn, fyrir vinnulaun, skatta og annað það, sem norska ríkið lætur í té, svo að verksmiðjan sjálf eða hinir erlendu aðilar að verksmiðjunni eignast engar innstæður í Noregi í sambandi við þennan hátt á gjaldeyrisviðskiptum þar.

Hæstv. ráðh. vefengdi ekki þær upplýsingar, sem ég hafði gefið hér um ákveðinn mismun á ýmsum þáttum þeirra samninga, sem Norðmenn hafa gert í þessu efni og því sem má ætla, að hér yrði gert, ef byggt yrði á þeirri skýrslu, sem nú liggur fyrir. M.a. er eitt það, að Norðmenn gera ráð fyrir á 10 árum nettó-gjaldeyristekjum, sem nema um 4.800 millj. ísl. kr., en þó að með mikilli vinsemd væri litið á áætlanir, sem felast í skýrslu hæstv. ríkisstj. um málið hér, þá mundum við á jafnlöngum tíma ugglaust ekki hafa yfir 2.000 þús. millj. og aldrei yfir helming þess, sem Norðmenn hafa í hreinar gjaldeyristekjur af sinni verksmiðju.