05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2328 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

Stóriðjunefnd

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. tók það fram í sinni seinni ræðu, að hér væri ekki brotinn á okkur Alþb.-mönnum réttur, vegna þess að hér væri um stjórnskipaða n., en ekki þingkosna að ræða. Víst er þetta rétt. Þó er það áreiðanlega miklu þinglegri aðferð, að hér hefði verið kjörin n. af þinginu, eins og Framsfl. virðist hafa lagt áherzlu á, enda flytjandi að slíku máli sem þingmáli. En ég er alveg sannfærður um það, að ef það hefði gerzt, að Sjálfstfl. hefði einn þingflokka verið skilinn eftir utan við stjórnskipaða nefnd, þá hefðu skapsmunir núv. hæstv. forsrh. sagt til sín, ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu og verið traðkað þannig á mannréttindum hans og hans flokks. Það þarf enginn að segja mér annað. Og það er alveg víst, að ef Framsfl. hefði verið svona aðferðum beittur og Alþb. smeygt inn í stjórnskipaða nefnd, en hann einn tekinn út úr og sviptur aðstöðu til að fylgjast með stórmáli, þá hefði Framsfl. líka sagt til sín réttilega.

Það eru engin rök í þessu máli að halda því fram, að þeir, sem séu andvígir þessu máli, eigi ekki að koma nálægt því. Það eru engin rök, alveg ósæmilegt að bera þau fram. Því var lýst hér áðan einmitt af hæstv. forsrh. sjálfum. Það gerist í hverri þn., að menn geta orðið ósammála. Menn eiga rétt á því að flytja sín rök, túlka sína skoðun og þegar ekki er hægt að brúa sjónarmiðin og komast að sameiginlegri niðurstöðu, þá klofna n. og þá kemur fram meirihluta- og minnihlutaálit og þjóðin á heimtingu á því, að skoðun meiri hl. og minni hl. komi fram og þá ekki sízt í stærstu málunum. Og það gæti varðað þjóðina allmiklu að fá að vita um það, hverjar væru hinar ýmsu skoðanir þm. í svona stóru og þýðingarmiklu máli.

En sé nú lítið fram hjá þessari rökleysu og staðnæmzt við hitt, að það er búið að taka þingflokk góðan og gildan til starfa í þessari n. án skilyrða um afstöðu hans, að því er formaður Framsfl. hefur upplýst, en það er hamrað á því, að hinn þingflokkurinn, Alþb., hann fái ekki að taka þátt í nefndarstörfunum, nema hann lýsi því yfir, að hann verði endanlega með málinu og það standi í vegi, — eru þetta þingleg vinnubrögð? Er hægt að kenna þetta við lýðræði kannske? Er heppilegt að hafa orðið lýðræði á vörunum, um leið og þetta er gert? Nei, það held ég sé ekki.

Þingflokkur Alþb. fjallaði um málið vegna orðsendingar hæstv. iðnmrh., þegar þingflokkurinn fékk að vita, að það stæði til að setja slíka n. á laggir. Það var afstaða þingflokks Alþb. að vilja taka þátt í þessari n. og það var tekið skýrt fram í umr. þar, að það yrði auðvitað að vera áskilið, að fulltrúar Alþb. hefðu óbundnar hendur um afstöðu sína og tækju auðvitað málefnalega afstöðu til allra málsatvika í nefndarstarfinu.

Að lokum skal ég svo aðeins leysa hæstv. forsrh. úr þeim vanda að gera upp á milli þess í sínum huga, hvorn sé mest að marka, hv. 3. þm. Reykv. (EOl), hv. 5. þm. Austf. (LJós) eða mig og geri ég þó enga kröfu til þess sjálfur að fást við það vandamál, hvern sé mest að marka í röðum Sjálfstfl., ég leiði það alveg hjá mér og hef ekki verið að brjóta heilann um það. En hér liggur það skýrt fyrir, formaður þingflokks Alþb., Lúðvik Jósefsson, 5. þm. Austf., hefur hér lýst því yfir, að þingflokkur Alþb. hefur ekki tekið afstöðu til þessa máls og í þessu tilfelli er það því rétt, sem ég áðan sagði, að þingflokkurinn tekur afstöðu til þessa máls, þegar málsatvik liggja fyrir og vill fá að byggja skoðun sína, endanlega skoðun, á afstöðunni til hinna einstöku málsatriða með því að þekkja þau, fylgjast með þeim, starfa að þeim.

Ég held, að við höfum ekki verið að fara með neina ósvífni, málflytjendur Alþb., þegar við höfum lýst því hér yfir úr ræðustól þingsins, að við teljum brotinn rétt á okkar þingflokki. Við teljum á honum traðkað, við teljum honum misboðið, þegar sagt er: Þið fáið að frétta af störfunum í nefndinni, — teljum honum misboðið með því og þess vegna berum við fram, ekki aðeins ósk um það, við leyfum okkur að leggja fram kröfu um það, að þingflokkur Alþb. sé ekki sniðgenginn í þessu nefndarstarfi og að málið verði tekið til endurskoðunar. Hæstv. forsrh. má taka það sem hótun, ef hann vill, en það er eindregin og skýlaus krafa okkar, ekki í neinum bænaskrárstíl.