22.10.1964
Neðri deild: 5. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2205)

12. mál, vaxtalækkun

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. segir, að ég hafi gert of mikið úr því, sem hann sagði í sambandi við þýðingu vaxtanna fyrir sjávarútveginn. Það gerði ég ekki, því að hæstv. ráðh. var með málflutningi sínum að gefa í skyn, að vextirnir hefðu nálega enga þýðingu fyrir sjávarútveginn. Um tölur hans skal ég ekkert segja, en það veit ég, að þær gefa af þessu ranga mynd og ég sýndi fram á, að áhrif vaxtanna fyrir sjávarútveginn sem grundvallaratvinnuveg eru margfalt meiri, en ráðh. vildi gefa í skyn, m.a. gegnum kaupgjaldíð og aðra kostnaðarliði. Tölur þær, sem hann nefndi í því sambandi, gefa ekki af því neina mynd og eru eingöngu fluttar til þess að gefa ranga mynd af áhrifunum einmitt fyrir sjávarútveginn. Þar að auki er auðvitað beinn fjármagnskostnaður sjávarútvegsins margfaldur á við það, sem greitt er beint af lánum, því að frystihúsin reikna sér t.d. vexti af því fé, sem í frystiiðnaðinum liggur.

Hæstv. ráðh. sagði, að áhrif vaxtanna væru að sjálfsögðu mikil, fyrst og fremst á sparifjármyndun og á fjárfestinguna. Mér virðist hann enn þá vera við sama heygarðshornið, að það eigi fyrst og fremst að hafa áhrif á fjárfestinguna í landinu með vaxtapólitíkinni. En ég segi: Við getum alls ekki ákveðið framkvæmdastigið með vaxta- eða peningamálapólitíkinni einni saman. Þarna ber okkur hæstv. ráðh. og mér mjög mikið á milli. Við getum þetta ekki, því að með því að reyna það lendum við úti í slíkum öfgum í lánasamdrætti og hæð vaxtanna, að það verður stórhættulegt fyrir þjóðarbúskapinn, eins og dæmi undanfarinna ára sanna. En um þetta er ágreiningur og þetta er mín skoðun.

Þá sagði hæstv. ráðh., að útlánum hefði verið stillt í hóf miðað við það, sem áður var og játaði nú, að útlánasamdráttur hefði orðið. Ég vek athygli manna á því, að í öðru orðinu vill hann ekki viðurkenna þetta, en nú allt í einu sagði ráðh., að það hefði orðið útlánasamdráttur miðað við það, sem áður var. Hann hefði verið nauðsynlegur og góður, sagði hæstv. ráðh.

Ég vek enn athygli á því, að enda þótt þessari útlánapólitík hafi verið beitt og þessari vaxtapólitík, hefur orðið miklu meiri dýrtíðarvöxtur, en áður áttí sér stað og stórkostleg verðbólga í landinu, enn meiri dýrtíðarvöxtur, en átti sér stað, meðan sú útlánastefna var rekin, sem við viljum fylgja, sem þetta frv. flytjum.

Ég greip fram í fyrir hæstv. ráðh. og spurði : Hvers vegna hefur þá verðbólgan vaxið svona stórkostlega, fyrst þeir tóku upp þessar aðferðir í lána- og vaxtamálunum, sem þeir töldu óyggjandi og menn áttu að leggja það á sig að verða fyrir þeim búsifjum, sem af þeim stöfuðu, til þess að koma verðbólgunni fyrir kattarnef? Ráðh. svaraði og sagði: Það er vegna víxlhækkana á kaupgjaldi og verðlagi. Ég segi: Þetta er ekki rétt, því að það er hægt að sanna, að einmitt á þessum tíma, þessum 5 árum, sem núv. stjórnarstefna hefur verið framkvæmd, hafa kauphækkanir ævinlega verið æðilangt á eftir verðlagshækkunum og það hefur átt sér stað samdráttur á kaupmætti dagkaupsins, svo að þarna getur ekki legið orsök verðbólgunnar. Orsök verðbólgunnar er allt önnur og hef ég ekki ástæðu til að fara út í það í þessari stuttu aths. En hún hefur oft verið rædd hér og verður rædd.