26.10.1964
Neðri deild: 6. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hæstv. ráðh. hélt því fram, að það væri misskilningur minn, að í 39. gr. frv. væri að finna ákvæði, sem bönnuðu unglingum að 18 ára aldri að fara með vinnuvélar í sveit. Mér er kunnugt um, að í n. þeirri, sem undirbjó þetta frv., varð ágreiningur einmitt um þetta atriði. Ég held, að ég geti fullyrt, að í n. ríkti sá skilningur á ákvæðum 39. gr., að verið væri að setja bann við því, að ungmenni, sem væru orðin 18 ára, gætu stjórnað vinnuvélum í sveit. Og þó að það komi hvergi fram í greinargerð frv. eða hafi heyrzt á framsöguræðu hæstv. ráðh. um þetta atriði, þá held ég, að ég hafi það góðar upplýsingar um afgreiðslu þessa máls í n., sem undirbjó frv., að þar varð minni hl. og meiri hl. um þetta ákvæði. Enda kann ég þá lítið fyrir mér í að skýra lög, þó að ég eigi að heita lögfræðingur og hafi setið á sjötta ár á Alþingi, ef lesin er 1. málsgr. 39. gr. frv., án þess að fenginn verði út úr henni sá skilningur, að með samþykkt hennar óbreyttrar sé beinlínis verið að leggja bann við því, að 18 ára unglingar og yngri geti stjórnað vinnuvélum í sveit, því að ráðh. upplýsti hér áðan, eins og í upphafi 3. málsgr. segir, að rétt sé ráðh. að setja reglugerð, er taki til landsins alls eða hluta þess. Eftir ræðu hans áðan er það ekkert vafamál, að slíka reglugerð ætlar hæstv. ráðh. sér að setja, en einmitt í síðari hluta þessarar sömu 3. málsgr. 39. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá skal einnig setja ákvæði í reglugerð, er sporni við yfirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu barna og ungmenna og kveða á um hámarks vinnutíma, svo og eftir atvikum læknisskoðun til úrlausnar um það fyrir fram, að vinna sé ekki barni eða ungmenni um megn. Enn fremur skal setja ákvæði í reglugerð, er sporni við vinnu barna og ungmenna með tækjum, er sérstök slysahætta stafar af.“

Þrátt fyrir þá yfirlýsingu hæstv. ráðh. hér áðan, að þetta ákvæði bæri ekki að skilja þannig, að bann væri við því lagt, að 18 ára unglingar og yngri gætu stjórnað landbúnaðarvélum í sveit, þótt sú yfirlýsing sé mjög mikils virði og skýrandi um, hvernig skilja beri frv. og skýra, þá tel ég engu að síður í meðförum nefndar þeirrar, sem frv. fær til athugunar og afgreiðslu, að hún ætti að breyta því orðalagi, sem er á niðurlagi 3. málsgr. 39. gr. frv., þannig að um það þyrfti ekki að deila, hvernig bæri að skilja það.