12.11.1964
Neðri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2409)

44. mál, menntaskóli Vestfirðinga

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vildi ég leyfa mér að láta fylgja þessu frv., sem ég er meðflm. að, við þessa 1. umr. þess í hv. þingdeild.

Um það verður ekki deilt, að í nútíma þjóðfélagi er góð menntun eitt af frumskilyrðum farsældar og lífshamingju. Þess vegna er þýðingarmikið, að aðstaða þegnanna til að afla sér hennar sé sem bezt og jöfnust, hvar sem þeir búa í landi sínu. Sú staðreynd verður ekki sniðgengin, að enn þá er aðstaða Íslendinga í þessum efnum mjög misjöfn. Hér í höfuðborginni eru t.d. þrír skólar, sem hafa rétt til þess að brautskrá stúdenta, en hvorki á Vestfjörðum né Austurlandi, hafa enn veríð stofnaðir slíkir skólar. Enn fremur eru stúdentaskólar á Laugarvatni og Akureyri.

Nú er það almennt talið, að of þröngt sé orðið í þeim menntaskólum, sem fyrir eru í landinu og nauðsyn beri til þess, að fleiri stúdentar útskrifist árlega. Leyfi ég mér um þetta atriði að vísa til merkrar ræðu, er Þórarinn Björnsson skólameistari á Akureyri flutti við setningu menntaskólans þar á s.l. hausti. Tilfinnanlegur skortur er á ýmsum háskólamenntuðum mönnum hér á landi, svo sem læknum og verkfræðingum. Auk þess gengur þróunin í þá átt, að stúdentsmenntun er í vaxandi mæli að verða sú almenna menntun, sem unglingum er talin æskileg og gagnleg. Stúdentar þurfa ekki endilega að ganga langskólaveginn, eins og það hefur verið kallað. Þeir geta orðið nýtir og dugandi bændur, skipstjórnarmenn eða iðnaðarmenn og verzlunarmenn.

Þegar á þetta er litið og nauðsyn þess að stækka og fjölga menntaskólunum er viðurkennd, hlýtur það að verða talið skynsamlegt og sanngjarnt að dreifa þessum menntastofnunum milli hinna ýmsu landshluta. Það getur ekki verið heppilegt að safna flestum eða öllum æðri menntastofnunum þjóðarinnar saman í höfuðborginni, auk þess sem það er fjarri því að vera réttlátt. Stofnun Menntaskólans á Akureyri fyrir 37 árum var merkilegt spor í menningarmálum landsmanna. Stofnun menntaskóla í sveit var einnig merkur atburður, þótt ég hafi að vísu alltaf talið, að hann hefði átt að rísa í Skálholti, en ekki á Laugarvatni. Um nytsemi þessara tveggja menntaskóla utan höfuðborgarinnar eru menn nú almennt sammála. Flestir munu einnig sammála um það, að aðstöðu til stúdentsmenntunar þurfi að bæta með fjölgun og stækkun menntaskólanna.

Þegar þessa er gætt, þykir mér auðsýnt, að frv. það, sem hér liggur fyrir um menntaskóla Vestfirðinga á Ísafirði, eigi fullan rétt á sér og sé raunar hið mesta nauðsynja- og sanngirnismál. Til viðbótar þeim rökum, sem flutt hafa verið fyrir þessu máli, vil ég leggja áherzlu á þetta :

Nýr menntaskóli á Vestfjörðum er ekki aðeins í þágu þeirra tæplega 11 þús. íbúa, sem byggja þennan landshluta. Hann er í þágu þjóðarinnar í heild. Á sama hátt og mikill meiri hl. þeirra unglinga, sem nú sækja héraðsskólana á Vestfjörðum, er úr öðrum landshlutum, eins mundi fjöldi æskufólks víðs vegar að af landinu sækja menntaskóla á Ísafirði. Vestfirzkur menntaskóli greiddi ekki aðeins göngu margra vestfirzkra ungmenna til mennta og héldi þeim um leið heima í átthögum sínum, heldur yrði hann mikilsverð menningarmiðstöð á sama hátt og Menntaskólinn á Akureyri hefur verið höfuðstað Norðurlands og nálægum héruðum.

Eins og hér hefur komið fram, er vísir að menntaskóla þegar orðinn til á Ísafirði. Próf frá framhaldsdeild þeirri, sem þar hefur starfað um árabil, eru nú viðurkennd af menntaskólunum í Reykjavík, á Akureyri og á Laugarvatni. Þessi vísir þarf hið fyrsta að verða að fullkomnum menntaskóla. Þess vegna er þetta frv. flutt. Allir þm. Vestfjarða standa að flutningi þess, einnig þeir, sem sæti eiga í hv. Ed. Það er því von mín, að þessu frv. verði vel tekið og það hljóti lagagildi á þessu þingi.