08.12.1964
Neðri deild: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (2459)

73. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og hv. flm. rakti hér í framsöguræðu sinni, hefur það lengi verið baráttumál opinberra starfsmanna að fá samningsrétt til jafns við aðrar stéttir. Og ekki sízt hefur þetta orðið baráttumál opinberra starfsmanna hér síðan sá háttur komst á í Noregi, að opinberir starfsmenn þar hafa nokkurn veginn fullan samningsrétt á við aðrar stéttir þar í landi eða á nokkuð svipuðum grundvelli og lagt er til í því frv., sem hér liggur fyrir.

Seinustu árin hafa opinberir starfsmenn eða þeirra samtök borið fram endurnýjaðar kröfur um það að fá slíkan fullan samningsrétt. Þetta leiddi hins vegar til þess, að það voru teknir upp samningar við ríkisvaldið eða ríkisstj. um þessi mál fyrir 3–4 árum og niðurstaða þeirra samninga var sú, að það náðist bráðabirgðasamkomulag milli þessara aðila, sem felst í l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá 17. apríl 1962. Samkv. þessum l. er opinberum starfsmönnum veittur takmarkaður samningsréttur. Þau gengu að nokkru leyti til móts við þeirra óskir, en þó hvergi nærri fullnægjandi og þess vegna var það rækilega áréttað af forvígismönnum þeirra, þegar frá þessu samkomulagi var gengið, að þetta væri bráðabirgðasamkomulag af hálfu samtakanna og færi framhaldið að sjálfsögðu eftir því, hvernig þessi lög reyndust í framkvæmd. En aðalatriði þessara laga, eins og kunnugt er, er að fyrst skuli reyndir samningar milli fulltrúa opinberra starfsmanna og ríkisstj., en ef þeir nást ekki, skuli sérstakur dómstóll, sem nefndur er kjaradómur, úrskurða laun opinberra starfsmanna. Það fór nú svo, þegar kom til fyrstu samninga um launamálin milli fulltrúa opinberra starfsmanna og ríkisstj., að það náðist ekki samkomulag milli þessara aðila og málið gekk þess vegna til kjaradóms, sem felldi fyrsta úrskurð sinn sumarið 1963 eða 1. júlí 1963, rétt eftir kosningarnar, sem þá fóru fram. Þó að ýmsir opinberir starfsmenn hefðu talsvert við þann úrskurð að athuga, hygg ég, að almennt hafi verið litið þannig á, að í honum fælist veruleg bót frá því, sem verið hafði og að með þeim úrskurði fengju opinberir starfsmenn leiðréttingu, sem þeir hefðu lengi haft þörf fyrir og samkv. þeim úrskurði nálguðust þeirra kjör nokkuð það að vera sambærileg við það, sem aðrar stéttir hefðu fengið. En í l. er svo ákveðið, að þegar kjaradómur fellir slíkan úrskurð, skuli hann gilda til tveggja ára, en hins vegar er beint í l. gert ráð fyrir því, að ef verða hækkanir á almennu kaupgjaldi í landinu á þessu tveggja ára tímabili, þá skuli opinberir starfsmenn fá hliðstæðar hækkanir á sínu kaupi.

Nú gerðist það, eftir að umræddur úrskurður var felldur um kaup opinberra starfsmanna sumarið 1963, að þá um haustið urðu mjög verulegar almennar kauphækkanir í landinu eða um áramótin seinustu, eins og kunnugt er og samkv. því áttu opinberir starfsmenn fullan rétt á því samkv. l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna að fá hækkanir á sínu kaupi í samræmi við þær kauphækkanir, sem orðið höfðu hjá öðrum stéttum, síðan kjaradómur felldi úrskurð sinn 1. júlí 1963. Opinberir starfsmenn fóru fram á það við ríkisstj. að fá þessa leiðréttingu, án þess að til úrskurðar kjaradóms þyrfti að koma, en það fékkst ekki og þess vegna gekk málið til kjaradóms, sem felldi sinn úrskurð 1. apríl s.l. og á þann veg, að hann var mjög til vonbrigða opinberum starfsmönnum og ég vil segja meira, en til vonbrigða, ég vil segja, að með þessum síðari úrskurði kjaradóms sé raunverulega kippt grundvelli undan því samkomulagi milli opinberra starfsmanna og ríkisstj., sem l. um kjarasamninga byggjast á, því að það liggur í augum uppi, ef menn lesa l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að sá úrskurður, sem kjaradómurinn felldi á s.l. vori um kröfur opinberra starfsmanna, er rangur og fær ekki staðizt samkv. lögum. Og eftir að meiri hl. kjaradóms er farinn að haga sér á slíkan hátt, er að sjálfsögðu ekki hægt fyrir opinbera starfsmenn raunverulega að telja það samkomulag öllu lengur í gildi, sem gert var við ríkisstj. og felst í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og þeir hljóta þess vegna að gera kröfu til þess að fá aðra og réttlátari skipan á þessu máli.

Að það sé ekki neinn sleggjudómur, sem ég segi um úrskurð kjaradóms, meiri hl. kjaradóms, á s.l. vori, vil ég m.a. rökstyðja með því að vitna til eins færasta lögfræðingsins, sem á sæti hér á Alþingi, hæstv. forsrh. Þessi mál bar nokkuð á góma á s.l. hausti hér á Alþingi, þegar rætt var um almenn launamál þá og meðal þeirra, sem tóku til máls í þessum umr., var hæstv. forsrh. og hann lét þá m.a. falla eftirfarandi ummæli, sem hefur nokkrum sinnum verið vitnað til síðar, m.a. í plöggum, sem opinberir starfsmenn hafa látið frá sér fara. Hæstv. forsrh. fórust þá orð á þessa leið:

„Nú segja stjórnarandstæðingar, að hækka þurfi almennt kaupgjald til samræmis við hækkanir til opinberra starfsmanna. Þá er tvennu gleymt: Í fyrsta lagi, að samkv. 20. gr. kjaradómslaganna ber kjaradómi að miða ákvörðun sína við annað kaupgjald í landinu. Í öðru lagi — og það sker úr, að opinberir starfsmenn eiga samkv. 7. gr. sömu laga rétt á hlutfallslegum hækkunum til sín, ef almennt kaupgjald í landinu hækkar verulega.“

Þessi skilningur hæstv. forsrh. á l. er vissulega réttur. Eftir að hæstv. forsrh. lét þessi ummæli falla hér á hv. Alþingi, gerðist það, að kaupgjald almennt í landinu hækkaði um 15% og samkv. kjaradómsl. og útskýringu hæstv. forsrh., sem er alveg rétt, áttu opinberir starfsmenn rétt á þessari hækkun. Þess vegna er það, að þegar meiri hl. kjaradóms felldi þann úrskurð á s.l. vori, að kjör opinberra starfsmanna skyldu standa óbreytt, þá átti sá úrskurður enga stoð í lögum. Hann var fullkomlega rangur og með því var raunverulega rofið það bráðabirgðasamkomulag, sem opinberir starfsmenn og ríkisvaldið höfðu gert á sínum tíma og l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna byggjast á.

Það er í eðlilegu framhaldi af þessu, að opinberir starfsmenn hljóta að endurnýja sínar fyrri kröfur um að fá fullan samningsrétt, þegar það er reynt, að grundvöllurinn er horfinn undan þessu bráðabirgðasamkomulagi, sem gert var við ríkisvaldið fyrir 2–3 árum. En sá grundvöllur hefur vissulega horfið með áðurnefndum úrskurði meiri hl. kjaradóms. Nú er líka þannig komið með hag opinberra starfsmanna, að þeir eru orðnir langt á eftir öðrum stéttum. Það er ekki aðeins, að það sé þetta 15% bil á milli þeirra og annarra stétta, sem skapaðist við hina almennu launahækkun á s.l. vetri og opinberir starfsmenn hafa enn ekki fengið, heldur hafa orðið nokkrar kauphækkanir hjá ýmsum stéttum á þessu ári, sem opinberir starfsmenn hafa ekki fengið neitt tilsvarandi, enda er það vitað mál, að kjör margra þeirra opinberu starfsmanna, sem taka laun samkv. lægri launaflokkunum, eru langt fyrir neðan það, sem eðlilegt verður talið og þar við bætist um þessa starfsmenn, að þeir hafa að ýmsu leyti örðugri aðstöðu til að afla sér aukatekna, en ýmsar aðrar stéttir í landinu. Það verður líka alltaf meira og meira áberandi í hinum opinbera rekstri, að þar skortir starfsfólk. Við þekkjum vel, hvernig ástatt er í skólum landsins, hve mjög skortir á hæfa starfskrafta þar. Slíkt hið sama gildir um margar stofnanir aðrar, og mér er t.d. sagt, að það gangi mjög erfiðlega að fá menn til lögreglustarfa, vegna þess að laun lögregluþjóna eru orðin lakari, en menn geta fengið við mörg önnur sambærileg störf í landinu.

Opinberir starfsmenn hafa sem sagt dregizt aftur úr vegna hins ranga úrskurðar, sem meiri hl. kjaradóms felldi á s.l. vori. Við þetta bætist einnig það, að það hefur mjög orðið til að þrengja hlut opinberra starfsmanna, að hinar gífurlegu skattaálögur, sem hafa verið lagðar á, á þessu ári, hafa orðið til þess, að verulegur hluti þeirrar hækkunar, sem þeir fengu, hefur ekki runnið til þeirra, heldur runnið beint til ríkisins aftur í gegnum hinar þungu skattaálögur. Opinberir starfsmenn eða samtök þeirra fóru fram á það að fá nokkra leiðréttingu á þessum málum og um skeið leit þannig út, að hæstv. ríkisstj. ætlaði að taka því með nokkrum skilningi, því að hún bauðst til að eiga viðræður við þá og fulltrúa frá öðrum launþegasamtökum einnig, en niðurstaða þeirra viðræðna er nú orðin sú, að ekkert jákvætt hefur fengizt frá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Það reyndist sem sagt, þegar til kom, að hún vildi engan afslátt veita eða engar lagfæringar gera vegna þeirra þungu skattaálaga, sem hafa verið lagðar á, á þessu ári og hafa bitnað með alveg sérstökum þunga á opinberum starfsmönnum.

Allt þetta veldur að sjálfsögðu því, að opinberir starfsmenn verða nú að hefjast handa um nýjar leiðir í kjarabaráttunni. Þeir geta ekki lengur treyst á lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá 1962 og hafa ekki annað að gera, en herða baráttuna fyrir því að fá fullan samningsrétt. Og ég held, að þegar sú saga er athuguð, sem ég hef nú rifjað upp, þá sé erfitt að mæla á móti því, að veita opinberum starfsmönnum þeirra rétt. Þeir hafa viljað reyna þarna meðalveg í samvinnu við ríkisvaldið, þar sem er kjaradómsleiðin, en henni hefur raunverulega verið lokað af meiri hl, kjaradóms. Ég verð líka að segja það, að ég á erfitt með að skilja þá mótstöðu, sem er gegn því að veita opinberum starfsmönnum samningsrétt. Ég sé ekki, að það sé nokkur ástæða til þess að vantreysta þeim meira í þessum efnum, en öðrum stéttum, þannig að þeir muni halda verr á þessum rétti og ósanngjarnlegar, en aðrar stéttir. Ég vildi miklu frekar halda því fram vegna ýmissar aðstöðu opinberra starfsmanna og þeirrar menntunar, sem þeir hafa aflað sér, að þá væru þeir miklu líklegri til þess ,en margir aðrir, án þess að ég vilji gefa þeim nokkrar rangar sakir, að halda vel og réttilega á fullum samningsrétti. En það er að sjálfsögðu rétt, sem kemur líka fram í þessu frv., að ef opinberum starfsmönnum yrði veittur fullur samningsréttur, eins og t.d. í Noregi, þá eru gerðir sérstakir samningar um vissar stofnanir, eins og spítala og aðrar slíkar, sem nauðsynlegt er að haldi áfram störfum og verkföll nái ekki til. Og ég efa það ekki, að það mundi ekki standa á opinberum starfsmönnum að semja um þessi atriði á þann hátt, að vel megi við það una.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en ég tek fullkomlega undir það og álít það algert réttlætismál, að opinberir starfsmenn verði látnir njóta sömu réttinda í þessum efnum og aðrar stéttir.