29.04.1965
Neðri deild: 75. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (2520)

130. mál, loðdýrarækt

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. ásamt 4. þm. Reykn. (JSk), sem hljóðar svo, það er breyt. á bráðabirgðaákvæði, að ákvæði til bráðabirgða orðist svo:

„Ríkisstjórnin skal, áður en leyfi er veitt til minkaeldis, senda hæfan mann til Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar til að kynna sér allt, sem við kemur minkaeldi og minkarækt. Að fenginni jákvæðri grg. frá þeim manni, þannig að sterkar líkur bendi til, að minkaeldi hér á landi muni reynast arðbær atvinnuvegur, er landbrh. heimilt að veita leyfi til að reisa og reka allt að 20 minkabú.“

Ég álít, að það eigi að vera undirstöðuatriði fyrir öllu, sem menn ráðast í, að kynna sér það rækilega fyrst. Nú hef ég heyrt ávæning af því, að þeir, sem ætla að reisa minkabú, ætli að fá erlenda menn til að leiðbeina sér í byrjun. En það liggur ekkert fyrir um það, að það sé tryggt, að þessir menn hafi fullkomið yfirlit yfir þetta, við þekkjum það ekki. En við vitum, að sjálfs er höndin hollust og þess vegna held ég, að Íslendingar ættu að senda mann til að kynna sér allt rækilega viðvíkjandi minkarækt, áður en ráðizt er í þetta. Í fyrsta lagi þarf að kynna sér fjárhagshliðina. Það er ekki nóg að vita, að hægt sé að selja skinn fyrir eitthvert verð og það geti verið nokkuð margar og jafnvel hundruð milljóna, sem vissar þjóðir selja minkaskinn fyrir. Það þarf að athuga, hvernig sá atvinnurekstur ber sig og það þarf að athuga þær verðsveiflur, sem hafa verið — við skulum segja undanfarna áratugi — á þessari vöru. Í öðru lagi þarf að athuga gerð minkagarða, því að það er ekki sama, hvernig þeir eru byggðir og hvort ekki er hægt að tryggja það, að litlar líkur séu til, að minkar þurfi að sleppa út. Í þriðja lagi þarf að athuga val dýra, því að það skiptir miklu máli, að við höfum góðar dýrategundir. Í fjórða lagi þarf að athuga fóðrun og hirðingu dýranna, því að það er ekki sama, hvernig það er gert, undir því er arðurinn kominn. Allt þetta þarf að athuga. Ég held því, að það sé ekki ástæðulaust, að einhver Íslendingur væri sendur út til að kynna sér öll þessi atriði og jafnvel fleiri atriði en þetta, og það væri eðlilegast, að sá maður, sem ætti að hafa umsjón með minkarækt og minkaeldi hér á landi, færi þessa ferð og ef það á að vera veiðistjóri, væri eðlilegt og sjálfsagt, að hann kynnti sér þetta rækilega fyrst, til þess að hann væri hæfari til að leiðbeina þeim, sem við þetta fást.

Það voru fluttir hér inn silfurrefir og þeir, sem fluttu þá fyrst inn og seldu lífdýrin, græddu á þeim. Meiri og minni mistök urðu við refaeldið í byrjun, bæði með val dýranna og eins meðferð þeirra, af því að þeir, sem við þetta fengust, höfðu ekki nægilega þekkingu til þess. Ég rak refagarð í mörg ár og varð raunar ekki fyrir stórum áföllum, en það átti ég því að þakka, að ég spurði þá, sem reynsluna höfðu og kynnti mér það, áður en ég réðst í það. Og ég er sannfærður um, að þó að menn haldi, að þetta sé auðveldur hlutur, er margs að gæta viðvíkjandi þessu.

Ég geri ráð fyrir, að ég greiði atkv. með þessu frv., hvort sem þessi till. verður samþykkt eða ekki og vitanlega gæti ráðh. látið framkvæma þessi atriði, án þess að það væri samþykkt hér á þinginu. En það er a.m.k. ekki okkar að þakka, ef það er gert, ef þessi till. er felld. Þessi till. ætti ekki að tefja neitt að ráði, því að minkar verða ekki fluttir inn, þó að frv. fari í gegn, fyrr en í fyrsta lagi í haust eða jafnvel síðar, því að það þarf að útvega ýmislegt og byggja garðana og margt fleira að gera. Það eru litlar líkur til, að dýrin verði flutt inn í ár, hvort sem þessi grein er samþykkt eða ekki, en ef hún er samþykkt, þá er tryggt, að eitthvað verður gert í því að rannsaka málið, áður en lagt er í þetta. Við vitum, að karakúlféð var flutt inn og það var enginn, sem hafði kynnt sér þetta mál rækilega áður og við höfðum ómetanlegt tjón af þeim innflutningi og við ættum að vera búnir að læra það að ráðast aldrei í neinar nýjungar án þess að kynna okkur það rækilega áður.

Minkar voru hér áður, en þá virtust minkabúin ekki gefa neitt sérstaklega mikinn pening og refagarðarnir hættu að bera sig. Þegar stríðið kom og tekjurnar miðuðust eingöngu við seld skinn til annarra landa, þá hættu þeir að bera sig og allir lögðu niður refarækt.

Ég dreg í efa, að það sé hægt að hafa eitthvað upp úr minkarækt, en þetta þarf allt að kynna sér rækilega. Hinu býst ég við, að það verði miklu minna, en þessar brúttótölur gefa vonir um, því að menn athuga ekki nóg kostnaðinn. Það er eins og með útgerðina, að þó að skipið afli fyrir allmikið fé, eru nettótekjurnar oft minni en engar.

Við höfum enn fremur tekið fram í þessum bráðabirgðaákvæðum, að það sé heimild til þess að reka 20 minkabú. Ef það eru aðeins 5 bú, fá ekki nærri allir leyfi, sem biðja um þau. En það er alveg ljóst, að þeir, sem fyrst reisa búin, hafa mesta möguleikana til þess að græða, þannig að mönnum verður á þann hátt mismunað. Þeir, sem selja minka til lífs fyrsta árið, munu græða á því meira, en þeir gera, sem fara að framleiða skinnin eingöngu til að selja þau til pelsagerðar, þannig að ég held, að það verði dálítið erfitt fyrir ráðh. í framkvæmd, ef hann má aðeins leyfa að reisa 5 minkabú. Það er ekki ástæða til þess að kaupa svo mörg dýr, að garðarnir nái fullri stærð á 1., 2. eða 3. ári, því að menn geta fjölgað dýrunum, en ég sé ekki ástæðu til þess að takmarka eða binda töluna eingöngu við 5. Þar með væri þeim gefin einokunaraðstaða, þessum 5 aðilum, að selja lífdýr og á þann hátt yrði talsvert mikill munur á milli héraða. En það er nú mikið talað um í þessu sambandi, að þetta eigi að vera til þess að gera verðmætari fiskúrgang, sem hægt yrði að nota til minkafóðurs, að einhverju leyti, að minnsta kosti og þá yrði það mismunur milli héraða, það eru aðeins fá héruð, sem gætu fengið leyfi með því að hafa 5 bú. Ég sé ekki, að það sé auðvelt að gera þann greinarmun á héruðum. Þess vegna leggjum við til, að þessum brbákv. verði breytt og ég fyrir mitt leyti mun og raunar hvort sem er greiða atkvæði með þessu frv., því að ég vil ekki bregða fæti fyrir það. Ef þetta getur haft fjárhagslega þýðingu fyrir atvinnuvegina, þá er ekki rétt að vera á móti því, en við eigum að rannsaka þetta mál rækilega, áður en í þetta er ráðizt og það frá öllum hliðum.