29.04.1965
Neðri deild: 75. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

130. mál, loðdýrarækt

Frsm. minni hl. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ég skal ekki tala lengi um þetta, enda búinn að segja mína skoðun á því. Ég vil aðeins segja örfá orð út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Hann vill fá svar um þetta mál með því að samþykkja frv., taka minkana inn í landið og sjá, hvernig það gefst. En ég vil spyrja: Hefur hann ekkert svar heyrt í þeim efnum enn þá? Hefur hann ekki orðið var við neina reynslu af nákvæmlega því, sem hann er að leggja til? Þarf að spyrja um það hér á Alþingi, hvort brennd börn séu hætt að forðast eldinn?

Ég veit það vel, að hann er svo gæfusamur að vera í þeim landshluta, sem hefur minnst af minkaplágunni að segja enn þá og ég verð að vona, að skilningsleysi hans á því, hvernig þetta mál hefur verið í fortíðinni, stafi af því, að hann hafi ekki kynnzt því. Hann kallar það vindhögg að tala um skaðsemi villiminksins. Ég ætla að biðja Austfirðinga að fara vestur í eyjar á Breiðafirði og segja við bændur þar við Breiðafjörðinn, að það sé vindhögg.

Þessi sami hv. þm. talar um það, að þeir, sem mótmæla þessu frv., geri það vegna tilfinninga, það sé tilfinningamál og það liggur í orðum hans, svo að ekki verður misskilið, að þess vegna eigi ekki að taka mark á því. Nú er mér það minnisstætt, að fyrir fáum vikum flutti þessi sami þm. ræðu um landbúnaðarmál og hann talaði um búskap okkar og viðhorf til landbúnaðarins sem einn af þeim, sem taka þátt í lífsbaráttunni á þeim vettvangi. Og það leyndist hér engum, sem heyrði það, að maðurinn talaði af mikilli tilfinningu. Þetta var honum tilfinninga-, hjartans- og áhugamál, sem hann var að fara með. Eigum við hinir að segja, að það sé ekkert að marka það, sem hann segir, af því að honum sé það tilfinningamál að gera ýmislegt fyrir landbúnaðinn? Nei, það er ekki hægt að bera þetta fram hér á Alþingi, af því að tilfinningar eru líka staðreyndir og stundum þær staðreyndir, sem mesta þýðingu hafa í mannlegu lífi.

Annars ætlaði ég aðeins að skýra frá því, sem þegar kom fram hjá síðasta ræðumanni, að landbn. hefur tekið til greina þær skoðanir, sem hér hafa komið fram í umr. um, að þinginu beri að leita umsagnar náttúruverndarráðs. Nefndin hefur komið saman og óskað eftir þessari umsögn.

2. umr. er venjulega höfuðumræða um mál og eftir hana taka menn höfuðaðstöðu sína. Þess vegna vil ég, úr því að landbn. hefur séð ástæðu til að óska eftir þessari umsögn, leggja eindregið til, að þessu máli verði ekki lokið fyrr, en þessi umsögn liggur fyrir. Þar að auki er þetta ekki venjuleg umsögn um mál, því að það hefur verið bent á það hér í umræðunum, að skv. íslenzkum lögum getur þetta mál ekki náð fram að ganga, án þess að náttúruverndarráð segi til um það.

Það er afar hæpið af Alþingi að samþykkja frv., sem kann að vera þess eðlis, að það standist ekki, nema við vitum, að náttúruverndarráð mæli með því.

Málið liggur því þannig fyrir, að mér finnst vera óviðeigandi annað, en bíða enn nokkra daga, — það eru aðeins örfáir dagar síðan nefndin skrifaði þessum aðilum, — og láta þessar umsagnir liggja fyrir, áður en þess er óskað, að menn taki höfuðafstöðu til málsins.