27.04.1965
Neðri deild: 73. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (2584)

175. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Í grg., sem fylgir þessu frv., er að því vikið, að nauðsynlegt sé, að Íslendingar skipuleggi betur, en nú er, fiskveiðarnar innan fiskveiðilandhelginnar. Að því er einnig vikið í frv., að tvær meginástæður hafi legið til grundvallar útfærslu okkar fiskveiðimarka á undanförnum árum, sem sé sú, sem snýr að friðunarmálum almennt og hin aftur, sem snýr að því að tryggja Íslendingum meiri og betri aðstöðu til þess að stunda fiskveiðar hér við strendur landsins. Hvort tveggja þetta er rétt. Það er enginn vafi á því, að þetta voru meginsjónarmið, sem lágu til grundvallar baráttunni í okkar landhelgismálum á undanförnum árum. Og hitt er líka rétt, að það er orðin brýn nauðsyn á því að setja fastari og hagkvæmari reglur um hagnýtingu fiskimiðanna í íslenzku fiskveiðilandhelginni. En ég er hins vegar mjög ósammála flm. frv. um það, hvernig eigi að vinna að því að koma á betri hagnýtingu fiskimiðanna, en nú er og mér sýnist einnig, að það frv., sem hann flytur hér, sé í litlu samræmi við þann megintilgang, sem vakti fyrir mönnum með útfærslu landhelginnar, þegar hún hefur verið framkvæmd á undanförnum árum.

Ég vil þá fyrst víkja með örfáum orðum að þeim meginatriðum, sem lágu til grundvallar stækkun okkar fiskveiðilandhelgi. Það er enginn vafi á því, að þótt allmikið hafi unnizt til friðunar á uppeldissvæðum fiskstofnanna hér við landið með hinni auknu útfærslu, fer mjög fjarri, að við getum verið ánægðir með það, sem náðst hefur í þeim efnum. Það er enginn vafi á því, að við þurfum að vinna miklu betur að þessum friðunarmálum, en við höfum unnið. Þó að svæðið innan 12 mílna markanna sé að vísu mjög þýðingarmikið, fer fjarri því, að það sé nægilega stórt í ýmsum tilfellum til að veita nægilega friðun fyrir ungfiskinn hér við landið. Því er það, að ég held, að það verði að fara mjög gætilega í það að draga á nokkurn hátt úr þeirri friðun, sem hefur náðst fram. Ég skal að vísu fúslega játa, að það dugir ekki að ganga hér í neitt allsherjarbindindi og aðeins friða. Vissulega er þessi friðun gerð með það í huga, að meiri fiskur verði hér á miðunum við landið og að við fáum aðstöðu til þess sjálfir að afla meira, en við hefðum annars aflað. Og því þurfum við auðvitað jafnhliða skynsamlegum friðunarráðstöfunum að haga öllum okkar veiðireglum þannig, að uppskera okkar á hverjum tíma verði sem allra mest. En að ætla að taka á þessum málum þannig nú, að við brjótum þá grundvallarreglu, sem hefur verið í gildi langan tíma, að heimila ekki botnvörpuveiðar innan 4 mílna markanna, það held ég að sé ekki rétt. Ég held, að það væri að ganga allt of mikið á allra þýðingarmestu friðunina að heimila ráðh. að gefa út undanþáguleyfi til almennrar botnvörpuveiði innan 4 mílna markanna.

Það hefur verið svo um nokkuð langan tíma, að sjútvmrh. hefur getað veitt nokkrar veiðiundanþágur innan fiskveiðimarkanna á svæðinu á milli 12 mílna og 4 mílna. En það hefur ekki þótt rétt að láta sjútvmrh. hafa vald til þess að heimila botnvörpuveiðar innan 4 mílna markanna. En á því leikur auðvitað enginn vafi, að svæðið næst landinu er allra viðkvæmast í þessum efnum. Við vitum, að það hafa staðið allharðar deilur um það, hvort ekki ætti að heimila Íslendingum meiri not, en nú hafa verið heimiluð eða með öðrum veiðarfærum á svæðinu milli 12 mílna og 4 mílna og á því svæði er um mjög verulegt bann að ræða gagnvart botnvörpuveiðum og það er mikill þrýstingur á það, m.a. á sjútvmrh. á hverjum tíma, að hann gefi eftir frá settum reglum í þessum efnum, noti sín undanþáguákvæði og heimili frekari botnvörpuveiðar á þessu svæði, en nú eru leyfðar. Ráðh. hefur ekki látið undan þessum kröfum enn eða ekki viljað fallast á þær og sýnist mér þá heldur undarlega tekið á málinu að leggja til, að ráðh. fái heimild til þess að heimila öllum þeim, sem stunda fiskveiðar með botnvörpu, að veiða innan 4 mílna markanna. Að þessu leyti til sýnist mér, að flm. frv. brjóti meginregluna, sem við höfum þó stuðzt við í sókn okkar á undanförnum árum í landhelgismálinu varðandi friðunarmálin, vegna þess að ég tel, að hið takmarkaða svæði frá ströndum landsins og út í 4 mílur, verði þó að vera friðað fyrir stórtækustu veiðarfærunum, sem enginn vafi er á að eru einmitt botnvarpan og hún er hættulegust einmitt fyrir smáfiskinn.

En þá kem ég aftur að hinu atriðinu, sem snýr að því, hvernig við hagnýtum okkar fiskimið innan landhelginnar og hvort ekki muni vera þörf á því, að við hagnýtum þau á annan hátt, en við höfum gert og eitthvað betur. Ég er flm. frv. sammála um, að það er orðin brýn nauðsyn á því að skipa þeim málum á annan hátt, en við höfum gert og eitthvað betur. Ég tel, að ástandið á fiskimiðunum í kringum landið sé nú að verða óþolandi með þeim reglum, sem nú er unnið eftir. Það hafa verið að gerast miklar breytingar í þessum efnum á síðustu árum. Ný veiðarfæri hafa komið til og ný stóraukin tækni á ýmsum sviðum og allt annar og meiri fiskiskipafloti, en sótti á miðin áður. Þetta allt hefur kallað á það, að við þyrftum að skipa þessum veiðum, sem fara fram einmitt innan fiskveiðilandhelginnar, á annan hátt en við gerðum áður fyrr. Ég er því flm. frv. sammála um, að Íslendingar þurfa að skipuleggja betur fiskveiðarnar, innan fiskveiðilandhelginnar, sér til hagshóta, en þeir gera nú. Nú er ástandið þannig, eins og við vitum, að það munu vera 150–200 stórir fiskibátar, sem stunda hér veiðar með nýju veiðarfæri á aðalvetrarvertíðinni, með þorskanót. Þetta er mjög stórtækt veiðarfæri, eins og það er notað nú, því að það er ekki aðeins, að þetta veiðarfæri komi hér nýtt til sögunnar, heldur hefur það á þeim stutta tíma, sem það hefur verið notað, verið að taka stórfelldum breytingum einnig í framkvæmdinni. Og það er enginn vafi á því, að það er afar erfitt að halda uppi eðlilegri hagnýtingu á fiskimiðunum, með því að komnir eru nú til skjalanna 150–200 stórir og vel út búnir fiskibátar, sem veiða með þorskanót á sömu fiskimiðunum og fyrir eru nokkur hundruð báta, sem veiða nú í þorskanet eða nokkrir tugir báta, sem eiga að stunda sömu fiskimið og veiða þar með línu eða jafnvel öðrum veiðarfærum.

Það er orðið nauðsynlegt að mínum dómi að setja reglur um það, hvernig á að skipta veiðisvæðunum niður á hin einstöku tímabil, á milli einstakra veiðarfæra. Þetta hafa flestar aðrar fiskveiðiþjóðir þurft að gera og gert að meira eða minna leyti. En við höfum sáralítið gert að þessu til þessa. Vegna þessa álit ég, að það sé orðið mjög brýnt nauðsynjamál, að skipuð væri t.d. nefnd sérfróðra manna til að gera fyrstu till. um það, hvernig við gætum hagnýtt fiskimiðin betur, en við gerum nú, einmitt út frá þessu sjónarmiði. Það er líka rétt, að það vandamál hefur komið upp nú hin síðari ár, að talsverður hluti af okkar fiskibátaflota, bátarnir frá 40–100 rúmlestir að stærð, sem flm. frv. minntist hér sérstaklega á, þessir háttar hafa lent í nokkrum erfiðleikum í sínum rekstri. Þeir falla ekki eins vel inn í það rekstrarform, sem nú er orðið algengast og þeir gerðu áður. Og það er enginn vafi á því, að það þarf að greiða úr vandamálum þessara báta og það er eflaust hægt að gera það án þess, að þurfi að grípa til slíkra reglna sem lagt er til í þessu frv.

Ég tel, að það, sem brýnast sé að gera í þessum efnum nú, sé að vinna að því að skipuleggja veiðarnar innan fiskveiðilandhelginnar betur en nú hefur verið gert og það eigi að afmarka veiðisvæði fyrir hin einstöku veiðarfæri á hverjum tíma fyrir sig. Ég tel því eðlilegast, að það væri skipuð n. sérfróðra manna til að gera till. um þetta og síðan yrðu settar meginreglur um það, hvernig að þessari framkvæmd skuli staðið. En ég tel mjög varhugavert að veita ráðherra slíkar heimildir sem lagt er til í þessu frv. Ég teldi það afar óþægilegt fyrir sjútvmrh. að hafa slíka heimild í þvílíku vandamáli eins og hér er um að ræða og ég tel það blátt áfram stórhættulegt að hleypa stórum hópi af togurum eða togbátum jafnvel inn fyrir 4 mílna mörkin, inn í landhelgina, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. eða heimila togveiðar innan landhelginnar stórum hópi skipa á takmörkuðu veiðisvæði.

Ég álít því, að það komi ekki til nokkurra mála, að Alþ. geti fallizt á að samþ. það frv., sem hér er til umr. Ég held líka, að það væri miklu eðlilegra að leysa þann vanda, sem er ástæðan til þess, að frv. er flutt, það séu aðrar leiðir, sem eigi að fara til að leysa þann vanda, sem ég hef hér minnzt á, en að veita ráðh. slíka heimild sem lagt er til í frv.

Ég er líka hræddur um, að hv. flm. þessa frv. mundi finna sig í nokkrum vanda staddan, ef sjútvmrh., hver svo sem hann kann að vera á ýmsum tímum, beitti þeirri heimild, sem er verið að leggja til að hann fái með þessu frv., á þann hátt, eins og er engin launung á, að það eru til fiskifræðingar, sem aðhyllast það, að togbátar og togarar fengju að veiða innan fiskveiðilandhelginnar á aðalveiðisvæðum netabátaflotans, t.d. í Vestmannaeyjum, sem verið hafa um langan tíma. Ég er hræddur um, að þá mundi flm. þessa frv. telja, að illa hefði málum skipazt, ef framkvæmdin yrði á þá lund. En þannig er því nú varið, að ef mikið og víðtækt vald er sett í hendur einum manni, þá getur vitanlega borið til ýmiss um það, hvernig á slíku valdi er haldið. Ég held því, að flm. frv. hafi tekið rangt á því vandamáli, sem hann vill leysa, og hann eigi í rauninni að hverfa frá því að reyna að koma fram þessu frv., en ætti að taka undir þá till., sem ég hef sett hér fram munnlega að gera till. um, hvernig eigi að hagnýta á sem beztan hátt fiskimiðin innan landhelginnar fyrir okkar fiskiskipaflota. Það er sjálfsagt að reyna að setja þar nýjar reglur, til þess að við fáum hagnýtt okkar mið á sem beztan hátt. En við eigum ekki að gera það á þann hátt að ætla að heimila bæði stórum og litlum skipum togveiðar innan 4 mílna markanna, eins og lagt er til í þessu frv. Slíkt er með öllu rangt.