29.10.1964
Efri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í C-deild Alþingistíðinda. (2602)

38. mál, samvinnubúskapur

Arnór Sigurjónsson:

Það er reyndar tæplega rétt af mér að taka þátt í þessum umr. núna, vegna þess að það fór fram hjá mér í gær, að þessu var þá útbýtt meðal þm. og ég hef nú varla lesið þetta frv. En ég vil samt taka það fram, kannske mest vegna þess, að ég býst ekki við að eiga neinn þátt í afgreiðslu þess, að ég álít, að það eigi að taka þessu frv. vinsamlega og athuga það nokkuð vel. Mér sýnist í fljótu bragði hér ekki vera stefnt að neinni byltingu á neinn hátt í okkar landbúnaði, en það er þó ýmislegt í því, sem er vert að taka til athugunar.

Ég ætla að ganga út frá einu sjónarmiði í þessu, sem ég vil um það segja og það er nú kannske frekar orðhengilsháttur heldur en annað. Menn tala töluvert mikið um einyrkjabúskap hér á Íslandi. Þetta er frá mínu sjónarmiði ekki rétt nema í örfáum tilfellum. Sá búskapur, sem hér er rekinn, á í raun og veru að heita fjölskyldubúskapur og er kallaður svo víðast hvar annars staðar og er samkynja og landbúnaður er rekinn hér um bil alls staðar, þar sem landbúnaður er rekinn. Það var vitnað til Norðmanna hér áðan, að þeir væru að ýmsu leyti á undan okkur í þessum málum. Það finnst mér mjög vafasamt. En að þessu hafa þeir gert sér málin ljósari, en við höfum gert. Þeir telja sinn búskap, sem er þó að ýmsu leyti oft nær því að vera einyrkjabúskapur, en okkar búskapur, fjölskyldubúskap og þeir vilja varðveita hann. Þeir segjast að vísu vera mestu sósíalistar á Norðurlöndum, en samt er það svo, ég sat þing þeirra 1961 í Þrándheimi og þar lögðu þeir áherzlu á þetta: okkar búskapur er fjölskyldubúskapur og við ætlumst til, að hann verði það í framtíðinni, eins og hann er núna. Sem fjölskyldubúskapur hefur hann alltaf sérstaka kosti, sem er mjög erfitt að ná í öðrum atvinnurekstri. En hér er hann sem fjölskyldubúskapur eins og stendur í talsvert miklum erfiðleikum og það er vegna þess, hve breytingar á öllum okkar högum og nærri sérstaklega í landbúnaði eru örar og miklar. Reyndar er það svo, að eins og stendur, er búskapurinn hjá mjög mörgum einyrkjabúskapur á vissum tímabilum. Það er fyrst, þegar búskapur er í byrjun og maður og kona byrja búskap, eiga þá kannske aðeins ung börn í heimili sínu og ekkert annað, þá leggst öll vinnan á tvo einstaklinga og við skulum kalla það einyrkjabúskap og horfa fram hjá hinu, sem er dálítið algengt hér hjá okkur eins og stendur, að bú er rekið aðeins af einni konu eða einum karlmanni. Þessa eru miklu fleiri dæmi nú, en heilbrigt mætti telja. Það eru líklega upp undir 100 dæmi á landinu. Kannske eru þau fleiri, ég hef ekki svo vandlega talið þau saman, þrátt fyrir það þó að ég geri búnaðarskýrslur á hverju ári. En við fjölskyldubúskap er fyrsta tímabilið oftast erfiðast og einnig það síðasta. Þetta stafar af því m.a., að við höfum gert hér bæði fjárhagslega og ég get sagt pólitíska skyssu undanfarið, að við höfum bæði tryggingagjöld og fjölskyldubætur lægri í sveitum en annars staðar. Á þessu er að verða breyting og ég vona, að hún verði mjög til batnaðar. Annars er það líka, eins og sakir standa núna og hafa reyndar staðið nokkuð lengi, að landbúnaðurinn hefur verið að mannfjölda að dragast saman og hefur alið upp fjölda fólks handa öðrum atvinnuvegum. Þetta hefur leitt til þess, að þó að fjölskyldan stækki, þá hefur ekki heimilið stækkað að sama skapi. Þetta hefur orðið geysileg blóðtaka og kostnaður fyrir landbúnaðinn á undanförnum árum, bæði fjárhagslega og félagslega og vafalaust líka menningarlega.

Hér er í þessu frv. eiginlega ekki verið að gera við — nema að litlu leyti — þessum vandræðum. En það er eitt, sem hérna er reynt að stefna að, eftir því sem ég skil frv. Það er, að ef svo fer, að fjölskyldan helzt, þegar jörðin stækkar við umbætur, þá séu einhver lög um það, hvernig með verður farið. Þetta hefur gerzt á einstaka stöðum hér á landi, það er dálítið meira af félagsbúskap hér, en menn gera sér almennt ljóst. Það eru til eins konar samvinnubú, vantar ekkert annað, en formleg lög, sem í raun og veru þyrftu að vera fyrir slík bú. Ég nefni tvö bú, sem mér eru að talsvert miklu leyti kunn og eru töluvert í áttina til þess, sem flm. hér gera ráð fyrir. Ég held, að mér sé óhætt að nefna þessi bú, — ég hefði ekki gert það, ef ekki væri prentaraverkfall, ég kæri mig ekkert um, að það sé haft eftir mér í blöðum, en ég held, að það sé alveg óhætt að tala um það núna.

Annað búið, sem hefur reynzt mjög vel, er Holt í Stokkseyrarhreppi. Þar eru eiginlega að verða fimm bú, sem vinna alveg saman og þetta er mjög farsælt bú, að ég held, að öllu leyti. Það vantar þarna ekkert, til þess að það sé samvinnubú. Þarna eru fullorðnir synir, sem búa enn með föður sínum og skipta afrakstrinum. Það er áreiðanlega miklu betra, að menn geti haft eins konar lagabókstaf til að styðja sig við eða form til að fara eftir, þegar svona bú eru sett upp. Og mér finnst í raun og veru vera mjög lítið annað, sem í þessu frv. felst við fyrstu sýn.

Hitt búið er Möðruvallabú í Eyjafirði. Ég hef fylgzt með því alveg sérstaklega og það er bú, sem fór eiginlega mjög vel af stað og saga þess. er þess virði að athuga, þegar þetta mál er rætt. Ég þekki þetta bú líka dálítið frá fyrri tíð. Ég kom þarna að Möðruvöllum 1947 að vorlagi. Þá var ungur bóndi rétt búinn að taka við, Jóhann Valdimarsson. Ég kom til þess að skoða stórt nýtt fjós, sem hann hafði rétt lokið við. Þetta var í lok sauðburðar. Þarna voru, ef ég man rétt, 56 gripir í fjósi. Fjósið var afbragðs vel frágengið á þeim tíma, e.t.v. bezt gerða fjós á landinu. En það var ekki jafnánægjulegt að koma þarna, því að bæði voru kýrnar óhreinar og hjónin, sem voru ein þarna á þessu stóra búi, yfir sig þreytt. Og það leið ekki á löngu, þangað til þau yfirgáfu býlið og jörðina og ég tek það fram jafnframt, þetta er sú jörð á landinu, sem ég hefði helzt viljað búa á af þeim, sem ég hef skoðað og þekkt. Þarna var það jörðin, sem hafði í raun og veru yfirbugað hjónin. Þau höfðu reist sér hurðarás um öxl og bóndinn gamli, faðir bóndans, var farinn af þeirri ástæðu, sem hann sagði mér: hann var orðinn of gamall til þess að fylgjast með öðrum við verkin. Það er metnaður, sem ég skil vel hjá hverjum bónda, en getur orðið við aldur töluvert erfiður. Svo kemur þarna bóndi austan úr Bárðardal með nokkuð mörg börn og stofnar í raun og veru samvinnubú. Það er skipt eftir föstum reglum milli bóndans og barna hans, en um það eru engin skráð lög sett, enda engin til. En það verð ég að segja, kannske er það fyrir lagaleysið, að þarna gerðist einmitt atburður á s.1. vori, sem er dálítið viðkvæmt að segja frá. Bóndinn fór, gamli bóndinn, jafnaldri minn að vísu eða nokkurn veginn það, vegna þess að synir hans sögðu honum: Annaðhvort ferð þú eða við förum. — Ég geri ráð fyrir, að þarna hafi verið skilið með fullum heilindum og skipt upp búi, svo að verið hafi alveg jafngott og samkv. lögum. En ég álít það mjög leiðinlegt, að gamli bóndinn skyldi fara frá Möðruvöllum að starfi við Gefjunn og eins og hver annar verkamaður eftir þetta. En við slíku eins og þessu er ekki hægt að gera. Það er ekki hægt að gera við svona hlutum í lögum.

En þá kemur annað til greina, það, að upp í þetta fyrirkomulag, að bú stækki þannig, að margir séu aðilar að, þurfum við að vinna okkur á nokkuð löngum tíma. Þetta finnst mér ég skilja betur, vegna þess að einu sinni var ég skólastjóri norður á Laugum og þá reyndi ég það, að nágrannarnir í Bárðardal og Mývatnssveit voru eins og tvær ólíkar þjóðir. Mývetningar, sem búa félagsbúi í raun og veru á hverjum bæ, voru einhverjir beztu heimilismenn, sem maður fékk í skóla. Ég kvarta ekkert undan Bárðdælingum, en þeir höfðu allt annan hugsunarhátt og þann hugsunarhátt, sem ekki mundi duga í venjulegu samvinnubúi hér á Íslandi.

Svo vil ég enn benda á það í sambandi við samvinnubúskap, að okkar land, ekki aðeins okkar þjóð, heldur líka okkar land er ekki fallið vel til samyrkjubúskapar í stórum stíl. Okkar aðstaða er öll þannig, að við þurfum í raun og veru að hafa fremur lítil bú á stórum jörðum. Og það er ekki hægt að koma við, a.m.k. alls ekki við sauðfjárbúskap, erfitt við kúabúskap, að hafa mjög margt fólk að stórum búum við slík skilyrði. Þar sem samyrkjubúskapur hefur tekizt bezt, eins og í Ísrael, er hann fyrst og fremst byggður á jarðrækt og hlýtur að vera það. Það er hægt að koma honum við með kúabúskap, en mjög erfitt með sauðfjárbúskap. Hins vegar geri ég ráð fyrir, að á sauðfjárbúskapnum verði mikil breyting í framtíðinni og þess vegna verði hann ekki eins landfrekur, ekki eins kröfuharður um, að við rekum hann í strjálbýli við það, sem hér var áðan kallaður einyrkjabúskapur, en ég vil kalla fjölskyldubúskap. Við verðum eftir ýmsum leiðum að sjá okkar fjölskyldubúskap farborða. Ég held, að það hljóti að verða yfirleitt bezta formið á rekstri landbúnaðar enn um langa tíð, vona það a.m.k., vegna þess að hann hefur kosti, sem við fáum varla í öðrum atvinnuvegum og það skapar þó alltaf fjölbreytni í þjóðlífi að hafa lífsformin dálítið mörg.

Ég held, að ég segi nú ekki meira um þetta, nema ég endurtek það, sem ég byrjaði á: Ég vil, að þessu sé tekið vel. Ég álít, að það sé ekkert atriði, hvort málinu verður lokið á þessu þingi eða ekki. Lögum er alltaf hægt að breyta og þau hægt að bæta. En ég held nú samt, að það sé ekki tími kominn til þess enn að ganga frá þessum málum fyrir langa framtíð með lögum.