05.11.1964
Efri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (2607)

42. mál, gróðurvernd og landgræðsla

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hér er hreyft mikilsverðu máli, sem í raun og veru er eitt af stórmálum Íslands, eins og hv. þm., frsm. málsins, hefur þegar gert ýtarlega grein fyrir. Þegar talað er um ræktunarmál, eru þau jafnan skrifuð á kostnað bændastéttar landsins. Skiptir þar ekki máli, hvort um einstaka þætti ræktunar er að ræða eða jarðrækt, sem kostar mikið fjármagn og skilar arði einungis eftir mjög langan tíma.

Frv. þetta er í raun og veru tvíþætt. Það er um það að vernda gróðurfar landsins, eins og það er nú og í öðru lagi um að græða upp ógróið land. En hvor tveggja þessi atriði eru mjög mikilsverð og talsvert kostnaðarsöm. Það má að sjálfsögðu nokkuð um það deila, hvernig afla beri fjár til þessara hluta. En eðlilegast virðist, þar sem um framtíðarmálefni er að ræða og allkostnaðarsöm, að það sé þjóðin öll, sem kostar þetta að mestu eða öllu leyti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. gat um það, og það stendur enn fremur í grg. frv., að hann ætlist til þess, að í þessu tilfelli sé lagður 15% skattur á innfluttan fóðurbæti. Ég veit ekki nákvæmlega, hvað innfluttur fóðurbætir kann að vera há upphæð, en mér skilst nokkurn veginn, eftir því sem fram er tekið í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða, að innfluttur fóðurbætir geti að verðgildi numið sem næst 100 millj. kr. (Gripið fram í: Það er meira, 116 millj.) Það má vel vera. Og 15% skattur á það er allmikil upphæð. Enda þótt bændur kynnu síðar að fá þetta inn í verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða, þá yrðu þeir a.m.k. að afla þessa fjár og leggja það fram, þegar þeir keyptu þessa vöru. Ég ætla ekki að líkja saman, hvernig ástandið er hér á landi og t.d. í Noregi, að því er varðar innfluttan fóðurbæti. Enda þótt í Noregi kunni að fyrirfinnast landssvæði, sem að mörgu leyti líkjast okkar landi, þá vitum við það, að aðalkornræktarsvæði Noregs er suður- og vesturhluti Noregs, en ekki sá hlutinn, sem líkastur er Íslandi, svo að það gegnir öðru máli, þótt Norðmenn hafi gripið til þess að vernda sína eigin ræktun á þann hátt að tolla verulega innfluttan fóðurbæti, þar sem þeir geta alltaf verið sjálfum sér nógir í þeim efnum. En við vitum það, að þótt við getum ræktað korn hér á landi, þá gefst það misjafnlega. Ég get fallizt á það, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að við höfum gert of litið fyrir kornræktina, það er alveg rétt. En ég held, að við höfum það ekki í okkar valdi að gera það mikið fyrir íslenzka kornrækt að veðurfari í landinu óbreyttu, að það verði okkur jafnöruggur lífgjafi, vil ég segja, eins og kornræktin hefur jafnan reynzt Norðmönnum, þannig að þar er ólíku saman að jafna. Svo skilst mér á hv. þm. eða hann tæpir a.m.k. á því í grg., að hann ætli ekki að láta staðar numið með þessi 15% ofan á fóðurbæti landsmanna, heldur leggja önnur 15% þar ofan á varðandi önnur mál, sem hann á eftir að leggja fyrir hv. Alþingi, þannig að ég held, að hér verði um allmikla skattlagningu að ræða á eina stétt landsins, sem ég held að verði ákaflega þung í skauti fyrir bændastéttina að rísa undir, enda þótt með sanni megi segja, að einhver hluti komi til endurgreiðslu af þessu fjármagni. En það kostar a.m.k. geysilega mikið fé í fyrstu og mundi verulega þurfa að rýmka um rekstrarfé landbúnaðarins vegna þess.

Ég er þeirrar skoðunar, að þegar um þetta stórmál er að ræða, gróðurvernd og landgræðslu, verði aldrei hægt að gera stórátök í þeim efnum, ef þjóðin öll sameinast ekki um að rísa fjárhagslega undir því, sem þetta kann að kosta. Ég er líka sammála hv. flm. um það, að þetta kostar mikla fjármuni og átök og um það fjármagn, sem til þessa þarf að afla, verður þjóðin sjálf að rísa undir sameiginlega, en ekki einstakar stéttir, enda þótt sönnur megi færa á það, að síðar meir, kunni bændastéttin að njóta meira góðs af þessu, en aðrar stéttir þjóðfélagsins.