05.11.1964
Efri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

42. mál, gróðurvernd og landgræðsla

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á framsöguræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. og fannst þetta góð ræða, þó að hann endaði hana með smávegis rangfærslu, sem ég get vel fyrirgefið honum. En það var aðeins eitt atriði þessa frv., sem ég vildi gera hér sérstaklega að umtalsefni og það er þessi 15% tollur á innfluttan fóðurbæti. Það er auðvitað ekki skynsamleg efnahagsstefna að flytja inn tollfrjálsan fóðurbæti til þess fyrst og fremst að auka mjólkurframleiðsluna í landinu, en þurfa síðan að flytja út þær afurðir, sem framleiddar eru vegna þessarar aukningar og greiða á þær allt að 300% uppbætur. Að því leyti álít ég, að það geti verið mjög athyglisverð leið, sem lögð er til í þessu frv., að leggja toll á innfluttan fóðurbæti. Hins vegar er ég ekki sammála hv. frsm. um það, að þessi tollur eigi að fara inn í búvörugrundvöllinn og greiðast af neytendunum, því að ef svo væri, þá gæti hann m.a. misst marks, vegna þess að þá er ekki víst, að bændurnir hefðu svo mikinn áhuga á því að spara fóðurbætiskaupin. En auk þess finnst mér það ekki sanngjarnt, að þetta sé greitt af neytendum. Mér fyndist önnur leið vera athyglisverð og það er, að þessi 15% tollur væri settur í sérstakan sjóð og þeim sjóði yrði síðan varið til þess að styrkja sauðfjárbúskapinn í landinu eða efla hann, af því að það er þjóðhagslega miklu skynsamlegra að efla sauðfjárbúskapinn heldur en kúabúskapinn.