18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2645)

47. mál, radarspeglar á suðurströnd landsins

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 52 flyt ég svo hljóðandi þáltill.: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar fara fram athugun á því, hvort unnt sé að auka öryggi sjófarenda við suðurströnd landsins með því að merkja hana með radarspeglum, þar sem hún er lægst. Reynist sú athugun jákvæð, verði slík radarmerki sett upp hið allra fyrsta.“

Þáltill. þessi skýrir sig sjálf. En eins og öllum er kunnugt, hefur jafnan verið leitazt við að gera hverjar þær ráðstafanir sem hugsanlegt er, að gætu orðið til þess að koma í veg fyrir slys á sjó og landi og óhætt er að fullyrða, að um fátt eða ekkert er þjóðin eins samtaka og að efla slysavarnir svo sem frekast er unnt. Þjóð, sem stundar fiskveiðar norður á hjara heims, þar sem veðrátta er hvað umhleypingasömust í heiminum og sækir sjóinn af svo miklu ofurkappi sem raun ber vitni, hefur að sjálfsögðu ekki komizt hjá því að verða fyrir því, að þessi harða sjósókn krefst fórna, krefst mannslífa og af henni hlýzt oft stórfellt eignatjón.

Það hefur löngum verið svo við sjósókn, að slysahættan er mest við ströndina. Þar er skipum og sjófarendum tíðum, enn meiri hætta búin, en úti á opnu hafi. Til þess að forða skipum frá grandi og til þess að leiðbeina þeim á siglingu hafa verið settir upp ljósvitar á ströndinni umhverfis landið. Lengst af voru þessir ljósvitar og önnur leiðarmerki á landi helzta öryggistækið, en nú hin síðustu ár hafa verið tekin í notkun ýmis önnur tæki, sem staðsett eru um borð í skipunum og koma að almennara haldi, en ljósvitar fyrir þau skip, sem þessi tæki hafa, en það á við um allan flotann nema minnstu bátana. Er hér fyrst og fremst um að ræða radartæki, sem sýna stjórnendum skipa strandlínuna og önnur kennileiti í landi. Til þess að strandlínan komi fram í radar sem greinileg og óyggjandi ljósmerki, þarf hún að rísa nokkuð yfir sjávarflöt. En þar sem fjöruborð er lágt, jafnvel langar leiðir upp frá sjónum, koma radartæki ekki að sama haldi. Þetta á að sjálfsögðu fyrst og fremst við um sandana á suðurströnd landsins, en þar hafa orðið mörg skipströnd og mannskaðar, bæði fyrr og síðar. Til þess að strandlengjan komi greinilega fram í radar á þessum slóðum sem annars staðar, þyrfti að reisa við ströndina stengur með sérstökum málmspeglum, sem kæmu fram í radar, þótt ströndin sjálf geri það ekki. Þannig mun hafa verið farið að erlendis, þar sem þörf hefur verið talin á. En hér á Íslandi hafa slíkir radarspeglar ekki verið settir upp, þótt mikill hluti suðurstrandarinnar sé lág sandfjara með miklu aðgrynni. Ég hygg, að slíkir radarspeglar gætu komið að gagni við suðurströnd landsins og átt þátt í því að forða sjóslysum og auk þess orðið til almennrar leiðbeiningar við siglingu skipa og veiðar á þessum slóðum, og ég hef þar fyrir mér m.a. umsagnir reyndra starfandi fiskiskipstjóra.

Ég tel, að það sé a.m.k. sjálfsagt, að þetta mál verði kannað til hlítar og því fjallar þáltill. þessi um það, að ríkisstj. láti nú þegar fara fram slíka athugun á notagildi radarspegla við suðurströndina, en ráðizt verði í framkvæmdir hið allra fyrsta, ef athugunin reynist jákvæð. Ég held, að slíkar framkvæmdir geti naumast verið kostnaðarsamar og væri reyndar ástæða til framkvæmda, þótt svo væri, ef athugun um gildi radarspegla reyndist á annað borð jákvæð. Ég gæti vel ímyndað mér, að slysavarnadeildir á þeim slóðum, þar sem radarspeglarnir yrðu settir upp, mundu gjarnan taka að sér að annast eftirlit með þeim og kysu ekki síður að annast störf, sem miðuðu að því að hindra slys, en að fara á vettvang, eftir að slysin hafa orðið, svo sem einkum hefur verið hlutskipti þeirra og þær hafa getið sér mikið orð fyrir.

Þáltill. þessi var borin fram í þinglok s.l. vor og náði þá ekki afgreiðslu, en ég vil geta þess, að á þingi Slysavarnafélags Íslands, sem haldið var um þær mundir, var samþykkt áskorun á hv. Alþingi að samþykkja þessa þáltill.

Ég legg til, herra forseti, að umr. verði nú frestað og till. vísað til hv. allshn.