29.03.1965
Sameinað þing: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2690)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Vegáætlun sú, sem hér liggur nú fyrir til umr., er sú fyrsta, sem ætlunin er að afgreiða með þeim hætti, að nú er gert ráð fyrir áætlun um vegaframkvæmdir fyrir næstu 4 ár. En eins og kunnugt er, var einmitt gert ráð fyrir því í hinum nýju vegal., að framvegis yrði að því stefnt, að gerð yrði áætlun um vega- og brúargerðir til fjögurra ára í senn og þannig tekið upp nýtt framkvæmdaplan í þessum efnum frá því, sem áður hafði verið. Nú stöndum við hér frammi fyrir því, að till. liggja fyrir um fyrstu fjögurra ára áætlunina í þessum efnum, því að vegáætlunin, sem samþ. var fyrir s.l. ár, þó að hún væri miðuð við ákvæði vegal., var aðeins fyrir það ár út af fyrir sig, árið 1964. En nú liggur sem sagt hér fyrir þáltill., sem felur í sér till. um allar framkvæmdir í vega- og brúamálum á næstu 4 árum. Hér á að vera gert ráð fyrir öllum framkvæmdum, sem unnið verður að, hvort sem að þeim verður unnið fyrir fé beint úr vegasjóði eða fyrir fé, sem aflað er með sérstökum lánum. Það er því mín skoðun, að hér sé nú verið að marka nýja stefnu, ný vinnubrögð í sambandi við þessi þýðingarmiklu mál, vegagerðarmálin í landinu. Það er því ekki óeðlilegt, að nokkuð sé um það rætt, hvernig þessi áætlun er úr garði gerð, hverju má búast við í vegagerðarmálum á næstu 4 árum.

Eins og kunnugt er, varð hér fyrir rúmu ári samkomulag milli allra flokka á Alþ. um það að leggja til, að tekjur vegasjóðs yrðu auknar allverulega eða um 100 millj. kr. á ári, eins og þá var áætlað, með verulegri hækkun á benzínskatti. Nokkrar umr. urðu hér þá um þessa ráðstöfun og það kom mjög greinilega fram hér hjá mörgum þm., að út frá því var gengið, að þessar auknu tekjur, sem nú átti að afla til vegagerðarmála, það yrði að búa tryggilega um það, að þessar auknu tekjur færu að öllu leyti til aukinna vegaframkvæmda í landinu, til aukinna framkvæmda í vegagerðarmálum, en að á engan hátt yrði dregið úr því, sem ríkissjóður almennt legði til þessara mála, frá því, sem áður hafði verið, ekki aðeins beint í krónum talið, heldur einnig hlutfallslega, miðað við aðrar fjárveitingar frá hálfu ríkisins. Hæstv. samgmrh. sagði í sambandi við þær umr., sem um það atriði fóru hér fram, að hann teldi enga ástæðu til þess að draga það í efa, að þannig yrði á þessum málum haldið, að ríkið drægi ekki að sér höndina á neinn hátt og það væri í rauninni alveg óþarfa tortryggni að halda nokkru slíku fram. Ég hins vegar lagði á það allmikla áherzlu, að ráðh. vildi vera svolítið skýrari um það, sem hann sagði um þessi mál, heldur en hann fékkst í rauninni til, að hann vildi gefa alveg ótvíræðar yfirlýsingar um, að um það yrði séð, að ríkið legði a.m.k. fram samsvarandi fé eftirleiðis, en drægi ekki að sér höndina í þessum efnum, þó að þessi nýi tekjustofn kæmi til með þessum sérstaka hætti. Samkomulag fékkst ekki um það, þegar var verið að afgreiða þessi mál, að binda þessi atriði alveg skýrlega í l. sjálfum. En hins vegar voru gefnar þessar yfirlýsingar, sem ég minntist á m.a. af hæstv. ráðh., að ástæðulaust væri að efast um það, að ríkið mundi leggja fram a. m. k, jafnmikið og það hefði gert fram að þessu. Menn höfðu því fulla ástæðu til þess að búast við því, að nú yrði þannig haldið á framkvæmdum í þessum efnum, að það mætti búast við framkvæmdaaukningu í vegagerðarmálum, sem næmi a.m.k. 100 millj. kr. á fyrsta ári og síðan að sjálfsögðu vaxandi upphæð. Ekki vil ég halda fram, að á fyrsta árinu, árinu 1964, hafi ekki orðið um talsverða aukningu á fjármagni að ræða til vegagerðarmála og að þessi upphæð hafi komið að mestöllu leyti til skila. En nú sýnist mér, að það sé augljóst, að það eigi að byrja í rauninni að ganga á þetta gerða samkomulag, sem þarna var gert. Nú eru uppi yfirlýsingar um það, að ríkissjóður ætli á þessu ári 1965, ekki að leggja fram jafnmargar krónur og ríkissjóður lagði fram til vegagerðarmálanna á s.l. ári, heldur eigi að skera þessa upphæð niður um 20%. Á þennan hátt er í rauninni verið að draga á óbeinan hátt til ríkisins þann tekjustofn, sem hér var samkomulag um að leggja á umferðina í landinu, til þess að hægt væri að auka framkvæmdirnar í vegagerðarmálum sem þessari upphæð næmi a.m.k. Ég álít líka, að sú áætlun, sem hér liggur fyrir, beri þess arna alveg glögg merki. Og ég vil segja það, að heldur þykir mér óglæsilegt, ef sú á að verða raunin á þegar gerð er áætlun til næstu 4 ára í þessum efnum, að við eigum að búast við því, að framkvæmdir i vegagerðarmálum eigi beinlínis að ganga saman frá ári til árs, eins og gert er ráð fyrir í þessari áætlun. Ég skal hér nefna aðeins nokkrar tölur til þess að skýra mál mitt nokkru betur.

Það, sem skiptir mestu máli, þegar vegagerðarmál eru rædd hér á Alþingi, er að athuga um nýbyggingarfé, sem veitt er til beinna nýrra vegaframkvæmda í landinu. Hingað til hefur venjulega verið gengið út frá því, að það yrði að standa undir vegaviðhaldi í landinu, eftir því sem þörf væri fyrir það á hverjum tíma og fjárveitingar hafa að jafnaði farið hækkandi til slíkra mála. Á vegáætluninni fyrir árið 1964 var gert ráð fyrir því, að til nýrra þjóðbrauta yrði varið 24.7 millj, kr. En hvað er nú gert ráð fyrir að verja miklu til nýbyggingar þjóðbrauta á yfirstandandi ári, 1965? Ekki 24.7 millj. kr., heldur 22.7 millj. kr. Það er beinlínis gert ráð fyrir minna fé, þó að vitanlega verði tvímælalaust um dýrari framkvæmdir að ræða á árinu 1965, heldur en var um að ræða 1964. En það er ekki nóg með það. Á árinu 1966 er gert ráð fyrir enn þá minni fjárveitingu til þess að leggja nýjar þjóðbrautir. Þá á fjárveitingin að lækka niður í 19.4 millj. kr., árið 1967 á upphæðin að verða 20.2 millj. kr. og árið 1968 23.6 millj. kr., eða eftir 4 ár, árið 1968, á að verja heldur lægri upphæð en varið var í þessu skyni árið 1964. Nú kemur mér ekki til hugar að búast við því, að hæstv: samgmrh. detti í hug, að framkvæmdakostnaðurinn við vegagerð eftir 4 ár hér frá, árið 1968, verði eitthvað lægri, en hann er nú eða hann var árið 1964. Hæstv. ráðh. veit auðvitað, að það má telja alveg öruggt, að framkvæmdakostnaðurinn verður miklum mun meiri. Það kostar þá meira að leggja hvern km. heldur en kostar nú. En eigi að síður er hér sett upp 4 ára áætlun, sem gerir ráð fyrir jafnt og þétt minnkandi framkvæmdum í þessum efnum. Hið sama er að segja um nýlagningu landsbrauta. Til nýlagningar landsbrauta var varið árið 1964 27.1 millj., en árið 1965 er að vísu gert ráð fyrir 27.5 millj. kr., örlítið hærri upphæð, en árið 1966 hrapar upphæðin aftur niður í 24.5 millj. kr. og árið 1967 niður í 24.6 millj., og 1968 hrapar hún niður í 23.9 millj. kr., en var ráðgerð 1964 27.1 millj. Þetta er ekki glæsileg áætlun, sem hér er á ferðinni. Og sama er að segja um framkvæmdir í brúarbyggingarmálum. Þar er beinlínis gert ráð fyrir því, að fjármagnið fari minnkandi í krónutali.

Hver er ástæðan til þess arna? Vitanlega er það glöggt mál, að hér er verið að gera ráð fyrir því í þessari áætlun, að ríkissjóður dragi að sér höndina í fjárveitingamálum til vegagerðar í landinu. Það er verið að gera ráð fyrir því í þessari áætlun, að framlag ríkissjóðs í öll þessi ár, 4 ár, standi alltaf óbreytt að krónutölu og reyndar, eftir því sem við höfum heyrt, gert ráð fyrir því að minnka framlagið um 20% nú á þessu ári, en féð, sem gengur til nýbygginga á þjóðbrautum og landsbrautum og til nýbygginga við brúarbyggingar, verður sífellt minna og minna, einnig í krónutali, vegna þess að auðvitað er gert ráð fyrir því, að meira og meira af því fé, sem í vegasjóði kann að verða, þarf að ganga í vegaviðhaldið í landinu og í stjórn vegamála og annan undirbúningskostnað. Ríkissjóður ætlar ekki einu sinni að taka á sig í þessum efnum með því að leggja fram meira fé til þess að halda við vegakerfinu í landinu eða til þess að annast yfirstjórn vegamála í landinu. Það þarf beinlínis að klípa þær fjárhæðir, sem þarf til þessara mála, umfram það, sem áður var, af nýbyggingarfénu.

Ég verð að lýsa því yfir, að ég undrast, að hæstv. samgmrh. skuli treysta sér til þess að leggja fram slíka áætlun sem þessa. Ég undrast það mjög og mér sýnist, að það beri alveg ótvíræðan vott um það, að annaðhvort sé nú dreginn úr honum allur máttur í sambandi við fjárhagsafkomu ríkissjóðs, þannig að hann treysti sér ekki að halda á þessu máli eins og á að halda á því, eða þá hitt, að hann hefur ekki nægan skilning á því, hvaða þarfir kalla á í þessum efnum, þar sem alveg er augljóst mál, að það þarf óhjákvæmilega að leggja til vegagerðarmála á komandi árum sífellt meira og meira fé.

Það eru allar kringumstæður í landinu, sem benda til þess, að þetta sé alveg óhjákvæmilegt. Notkun vegakerfisins fer stórvaxandi á allan hátt. Notkunartími hinna einstöku vega lengist stórum frá því, sem áður var og vitanlega þýðir það, að ekki aðeins aukinn bílafjöldi í landinu, heldur vitanlega vaxandi mannfjöldi í landinu frá ári til árs og stórvaxandi framleiðsla kalla á það, að það verður að veita miklum mun meira fjármagn einmitt til vegagerðarmála í landinu heldur en verið hefur. Það er lítið ráð í þessum efnum, þó að á það sé bent, að það séu jafnvel vandræði fyrir dyrum í sambandi við vegaviðhaldið í landinu, þar sem sífellt stærri og stærri bílar séu settir út á þjóðvegina og þeir aki þar um með of þung hlöss og þeir spilli allt of veikum vegum. Ég efast ekkert um það, að þessi frásögn út af fyrir sig er rétt. En þetta ástand verður ekki læknað með því, sem vikið er að, þegar frá þessu er skýrt, að það sé skortur á þjóðvegalögreglu, það vanti menn til þess að sjá um, að hægt sé að halda þunga ökutækjanna hér í skefjum. Það verður ekki læknað á þann hátt. Það þyrfti nokkuð marga menn til þess að ætla að ráða við það í þessum efnum.

Menn gera það hreint ekki að gamni sínu að hafa gripið til flutninga með bifreiðum á þann hátt, sem gert hefur verið nú á síðustu árum. Það er beinlínis óhjákvæmileg þörf, sem hefur knúið menn til þess að fara inn á þessa braut og jafnvel þó að það yrði gert að hækka nokkuð þungaskattinn frá því, sem nú er, þá mundi samt ekki draga úr þessari umferð og þá mundu samt sem áður hlössin á bílunum ekki minnka. Við þekkjum það t.d. mætavel í mínum landsfjórðungi, á Austurlandi, að það er vitanlega algerlega óhjákvæmilegt að grípa til þessara flutninga, eins og gert hefur verið. Þar hefur atvinnulíf gerbreytzt á stuttum tíma og kallað á margfalda flutninga við það, sem áður var. Og það eru engar aðrar leiðir til þess að leysa þennan vanda. Það verður að reyna að skrönglast yfir þá vegi, sem fyrir eru og heita þó vegir, þó að þeir hafi aldrei verið fulllagðir margir hverjir. En þetta vitanlega allt saman kallar á það, ekki aðeins gagnvart Austurlandi, heldur er það einnig með aðra landshluta alveg eins, að ástandið í landinu kallar á stórkostlega aukið fé til vegagerðarmála í landinu.

Og þegar þessi mál standa svona, eins og ég hef gert hér að umtalsefni, þá segi ég: Það er alveg furðulegt, að það skuli fyrirfinnast nokkur samgmrh. á Íslandi, sem leyfir sér að leggja fram áætlun um framkvæmdir í vegagerðarmálum fyrir næsta 4 ára tímabil, ekki aðeins fyrir eitt ár, heldur fyrir 4 ára tímabil og gera ráð fyrir því, að svona verði haldið á málunum, Það er furðulegt. Það er vitanlega enginn vafi á því, að það verður að gera ráð fyrir því, að í þessi mál verði að eyða miklum mun meira fé, en hingað til hefur verið gert. Það gat vitanlega komið til mála, að eitthvert stutt tímabil yrði bjargað á þann hátt, að það yrðu tekin bráðabirgðalán í þessu skyni og reynt að leysa úr brýnustu þörfinni. En mér sýnist, að eins og þessi áætlun hér lítur út, þá sé síður en svo, að þar komi fram mikill skilningur í þeim efnum. Það er að vísu gert ráð fyrir því í þessari áætlun, að það geti komið til nokkurrar lántöku á næstu 4 árum til þess að ýta nokkuð áfram vissum vegagerðarmálum. En þá er sú áætlun að mínum dómi býsna einkennileg líka. Samkv. áætluninni er gert ráð fyrir því, að tekin verði lán á næstu fjórum árum til byggingar á nokkrum hraðbrautum út frá Reykjavík. Á þessu 4 ára tímabili er gert ráð fyrir því, að lán verði tekin samtals að upphæð 274 millj. kr. til byggingar á þessum tilteknu hraðbrautum, sem liggja hér út frá Reykjavík. Út af fyrir sig er ekkert nema gott um það að segja að ráðast í þessar framkvæmdir, þó að hér sé tvímælalaust um þær framkvæmdir að ræða, þar sem vegirnir eru langbeztir á Íslandi, þar sem gert er ráð fyrir því að byggja upp að nýju langsamlega beztu vegina, sem til eru í öllu landinu, að frátöldum þeim Keflavíkurvegi, sem nýlega hefur verið steyptur.

En hvernig lítur þá dæmið út gagnvart öðrum landshlutum, þar sem vegirnir eru, eins og vegamálastjóri hefur verið að lýsa hér í sinni áætlun, þannig, að þeir þola ekki þá venjulegu umferð, sem um þá fer? Hvernig er þá gert ráð fyrir því að mæta óskum þeirra varðandi lántökur til vegaframkvæmda á þessu 4 ára tímabili? Þar er gert ráð fyrir því, að áfram verði haldið við að gera svonefndan Strákaveg, sem mikil og fögur loforð höfðu verið gefin um á sínum tíma, og það er gert ráð fyrir því, að lán verði tekið til þeirra framkvæmda og þeim vegi verði lokið á tveimur árum. Í þennan Siglufjarðarveg er gert ráð fyrir að taka lán upp á 24 millj. kr. á þessum tveimur árum. Þá er gert ráð fyrir að ljúka svonefndum Múlavegi frá Ólafsfirði og gert er ráð fyrir lántöku í hann upp á 4 millj. kr. Síðan er gert ráð fyrir því, að á Austurlandi geti komið til greina með lántöku í tvær vegagerðir á þessum 4 árum, samtals upp á 15 millj. kr., þ.e.a.s. veginn frá Möðrudal og austur á Jökuldal, gert er ráð fyrir, að í hann megi taka lán upp á 6 millj. kr., sem er ekki nema lítill hluti af þeim kostnaði, sem þarna yrði óhjákvæmilega um að ræða og síðan er gert ráð fyrir lántökuheimild í veg út við Vattarnes, þ.e.a.s. á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, og það er gert ráð fyrir lántökuheimild í þennan veg upp á 9 millj. kr. Síðan er gert ráð fyrir því, að taka megi lán í Heydalsveg samtals upp á 3.5 millj. kr. Og þetta er allt og sumt á næstu 4 árum.

Ég fyrir mitt leyti lít svo á að út af fyrir sig sé sú lántökuheimild, sem gert er ráð fyrir á þessum 4 árum í sambandi við aðalvegaæðarnar hér út frá Reykjavík, eða eins og ég sagði einmitt til þess að umbyggja og lagfæra þá vegina, sem eru tvímælalaust þeir beztu í landinu nú, en þurfa vissulega að batna. Ég veit, að það er mikil umferð um þá. Þar er gert ráð fyrir lántökuheimild upp á 274 millj. Og svo sjáum við á þeim tölum, sem ég nefndi, hverju er gert ráð fyrir annars staðar á landinu. Það er nálega ekki neitt, því að sú litla fjárhæð, sem t.d. er gert ráð fyrir að geti komið til mála að taka að láni í sambandi við vegagerðarmál á Austurlandi, er alveg sáralítil miðað við þá miklu þörf, sem þar er fyrir hendi. Vegagerðarmál á Austurlandi snúa þannig við, að enn þá er í rauninni ólagður vegur til Austurlandsins frá Möðrudal og alveg austur á Hérað. Sá vegur, sem í daglegu tali er kallaður þar vegur, er aðeins ruddur vegur og í rauninni engum almennilegum farartækjum boðlegur. Þarna er þó um aðalleið að ræða milli landshluta, sem við þm. Austurlandskjördæmis höfum lagt mjög mikla áherzlu á bæði við vegamálaráðherra og vegamálastjóra, að yrði að leysa á næstu árum, en heimild fæst ekki einu sinni til þess, að það megi gera ráð fyrir á næstu 4 ára áætlun neinni teljandi lántöku til að ýta þessum nauðsynlega vegi nokkuð áfram.

Þá vil ég einnig nefna það í sambandi við vegagerðarmál okkar fyrir austan, að allmikill undirbúningur hefur átt sér stað um það að bæta vegasambandið við Neskaupstað, fjölmennasta kaupstaðinn á Austurlandi, sem er einangraður frá öðrum stöðum marga mánuði á hverjum vetri. Miklar athuganir hafa þarna farið fram og allt bendir til þess, að það sé mjög auðvelt að gera jarðgöng, sem mundu gerbreyta samgöngumöguleikum þarna á milli. Og það hefur tvímælalaust komið fram frá heimamönnum, að þeir mundu vilja leggja sig fram um það að veita lánsfé til þessara framkvæmda. Allt virðist því benda til þess, að það sé auðvelt að gera verkið, brýn nauðsyn er á að ráðast í það og lántökumöguleikar mundu sjálfsagt vera fyrir hendi.

En hvernig er svo brugðið við af þeim, sem ráða þessum málum? Það er brugðið við á þann hátt, að það má ekki einu sinni gera ráð fyrir lántökuheimild. Það má ekki einu sinni taka lán, þó að heimamenn bjóði fram fé í þessu skyni. Þetta kalla ég harla lítinn skilning hjá þeim, sem með þessi mál fara. Og mér er vel kunnugt um það, að miklu fleiri kjördæmi landsins en það, sem ég hef hér minnzt sérstaklega á, eru vitanlega mjög illa stödd í þessum efnum.

Ég tel því, að þessi áætlun, sem hér liggur fyrir, bæði varðandi bein fjárframlög úr vegasjóði og eins viðvíkjandi heimildum til lántöku, beri harla lítinn vott um það, að vegamálaráðherrann skilji, hvernig ástatt er í raun og veru í þessum efnum, því að varla vil ég ætla honum það, að hann sé svo hlutdrægur milli landshluta, að hann vilji halda sumum landshlutum gersamlega aftur úr í þessum efnum, sem þurfa á brýnni fyrirgreiðslu að halda, á sama tíma sem hann virðist þó sjá möguleika til þess að útvega lán til að betrumbæta þá vegi í landinu, sem eru tvímælalaust beztir.

Ég gæti að sjálfsögðu nefnt ýmsar aðrar framkvæmdir á Austurlandi, sem okkur þm. Austurlandskjördæmis þykir alveg furðulegt að sjá að ekki skuli vera gert ráð fyrir, að það væri þá tekið lán til þess að ýta þeim framkvæmdum áfram. Það hefur verið unnið að því á undanförnum árum að reyna að koma Vopnafjarðarhéraði í vegasamband austur á Hérað, austur á Jökuldal, en fjárveitingar hafa vitanlega verið af skornum skammti. En til þess að reyna að koma þessu vegasambandi á er alveg óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir nokkurri lántökuheimild, og ég efast ekkert um, að það hefði verið möguleiki á því að útvega hér lán, jafnvel þó að ríkisstj. hefði ekki treyst sér til þess að gera það sjálf. En það er þvert nei við því hjá hæstv. samgmrh., að það megi gera ráð fyrir lántökuheimild í þessum efnum.

Ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að þeir, sem með samgöngumál landsins hafa að gera, verði að taka sig á í þessum efnum, þeir verði að gera sér eilítið betur grein fyrir því, hvernig er ástatt um samgöngumálin í landinu, áður en þeir koma fram með slíkar tillögur til fjögurra ára eins og hér liggja fyrir. Ég álít fyrir mitt leyti, að það sé ekki hægt að sýna slíka fjögurra ára áætlun sem þessa, ég álít, að hún sé hneyksli, algert hneyksli.

Það er svo aðeins sem rétt eitt dæmi að nefna í leiðinni, að það eru vitanlega fleiri þættir samgöngumálanna, sem mikið hafa að segja, heldur en aðeins vegagerðir og brúargerðir, sem hér eru nú til umr. Flugsamgöngurnar hafa vitanlega mjög mikið að segja líka, ekki sízt fyrir okkur, sem eigum lengst að til Reykjavíkur að leita. En um sama leyti sem verið er að gera tillögur um slíka áætlun sem þessa, þá fáum við þann boðskap, að ríkisstj. skeri nú stórkostlega niður framlög, sem áætluð höfðu verið í sambandi við flugsamgöngur í landinu á síðustu fjárl. Þar var gert ráð fyrir 15 millj. kr. lántökuheimild. Hún hefur verið skorin niður, eftir því sem forstöðumenn flugmálanna hafa tjáð mér, um 1/3, ofan í 10 millj. og auk þess voru svo bein fjárframlög upp á 15 millj. kr. skv. fjárl. og þau eiga að skerast niður um 20%. Þær framkvæmdir, sem voru ráðgerðar t.d. á Austurlandi til þess að bæta þar nokkuð úr, eru bara allar skornar niður með tölu, hver einasta ein, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá skrifstofu flugmálastjóra. Það átti að byggja flugstöð á Egilsstöðum fyrir farþega þar, en hún hafði brunnið á s.l. ári. Slík áætlun er bara alveg sett til hliðar. Það er verið að byggja flugskýli í Neskaupstað og búið þar að semja um ákveðnar greiðslur og það er bara frá þeim hlaupið í miðjum klíðum.

Mér sýnist sem sagt, að ráðh. samgöngumála þurfi að átta sig nokkuð á því, hvað er að gerast í þessum efnum og mér þykir það mjög hart að þurfa að standa frammi fyrir því, ef hann ætlar að halda sér við slíkar tillögur og þær, sem hér liggja fyrir, og þær, sem fram hafa komið m.a. í sambandi við flugsamgöngur. Þá þykir mér illa vera á málunum haldið. Ég hef að vísu heyrt þá afsökun hjá þeim, sem standa að þessari áætlun, að hún sé að vísu gerð til fjögurra ára, en menn búist við því, að það verði ekkert að marka áætlunina fyrir seinni tvö árin, hún verði endurskoðuð á þessu tímabili og þá verði kannske hlaupið frá öllu saman. En þannig álít ég, að sé ekki hægt að halda á þessum málum. Það er vitanlega verið að gera hér sennilega áætlun fyrir framkvæmdir á næsta fjögurra ára tímabili og það á að gera ráð fyrir því að leysa þau verkefni, sem óhjákvæmilegt er að leysa, með einum eða öðrum hætti. Og samgmrh. landsins getur ekki verið þekktur fyrir það, þó að hann þekki betur til málanna hér í kringum Reykjavík, að hann afsaki sínar tillögugerðir með því, að hann þekki ekkert til málanna í heilum kjördæmum í þessum efnum. En hann getur ekki staðið að slíkum till. sem þessum og neitað um þær helmildir, sem beðið hefur verið um, t.d. af hálfu okkar Austfirðinga, nema aðeins vegna þess, að hann þekkir ekki til mála. Þau mál verður hann að kynna sér betur og þá trúi ég ekki, að hann geri ekki aðrar till. en þær, sem hér liggja fyrir.

Ég vildi láta þessar aths. mínar koma hér fram strax í sambandi við þessa áætlun. Ég lýsi óánægju minni yfir gerð áætlunarinnar og tel alveg óhjákvæmilegt að breyta henni i grundvallaratriðum. Það verður að gera ráð fyrir meira fjármagni til vegagerðarmála á þessari áætlun, en nú er gert ráð fyrir og það verður að sinna mun meir vegagerðarmálum víða úti á landi, en ráðgert er samkv. þessari áætlun. Slíkar till. sem þessar fá ekki staðizt í reynd.