03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (2721)

77. mál, kvikmyndasýningar í sveitum

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 4. þm. Austf. að flytja þá till. til þál. á þskj. 102, sem hér er til umr., um kvikmyndasýningar í sveitum. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram í samráði við sveitarstjórnir athugun á því, hvernig hagkvæmast sé að skipuleggja kvikmyndasýningar í sveitum landsins.“

Ef menn gefa því gætur, hvers konar skemmtanir eru efst á baugi hjá þjóðinni, kemur fljótt í ljós, að kvikmyndasýningar eru þar yfirgnæfandi að því leyti, að kvikmyndahúsin sækir miklu meiri fjöldi manna en aðrar almennar samkomur. Þetta er annars vegar vegna þess, að kvikmyndasýningar eru ódýrar skemmtanir borið saman við aðrar, en að hinu leytinu eru þær bæði fróðlegar og skemmtilegar og mjög fjölbreytilegar og sé kvikmyndaeftirlit sæmilega rækt, verður ekki séð, að af kvikmyndasýningum stafi nokkur veruleg hætta, hvorki fyrir unga né gamla. Að vísu hafa kvikmyndir mjög misjafnt gildi, bæði til fróðleiks og skemmtunar, en hins vegar er úrvalið allmikið. Það er því auðskilið mál, vegna hvers kvikmyndahús eru mikið sótt.

En kvikmyndahús verða ekki starfrækt nema í þéttbýli. Fjárhagsleg afkoma þeirra byggist fyrst og fremst á því, að fjöldi sýningargesta fari ekki niður fyrir ákveðið lágmark. Af þessum ástæðum eru sveitirnar útilokaðar frá því, að þar verði starfrækt kvikmyndahús og af þessu leiðir svo, að fólk í sveitum verður að sækja til næsta kauptúns eða kaupstaðar, ef það vill sækja kvikmyndahús. En þessu verður þó ekki við komið nema í næsta nágrenni bæjanna vegna vegalengda og þó varla þar heldur, því að sveitarstörfin rekast á sýningartíma kvikmyndahúsanna. Unga fólkið í sveitunum reynir að vísu að ná til þessara skemmtana af og til, þar sem þess er kostur, en eldra fólkið reynir yfirleitt ekkert til þess. Það má því segja, að þessi grein skemmtanalífsins fari fram hjá íbúum sveitanna.

Kvikmyndir hafa sitt aðdráttarafl, eins og ég drap hér á og þetta aðdráttarafi verkar í þá átt með mörgu öðru að draga fólkið úr dreifbýlinu til þéttbýlisins. Þeir, sem una því illa, að sveitirnar tæmist af starfhæfasta fólkinu, hljóta því að styðja hverja raunhæfa tilraun til að jafna aðstöðumuninn milli dreifbýlis og þéttbýlis á þessu sviði.

Það er öllum kunnugt, að kvikmyndir hafa lengi verið sýndar utan kvikmyndahúsa. Þetta hefur verið gert við margvísleg tækifæri. Kvikmyndir hafa verið sýndar í félagheimilum og öðrum samkomuhúsum, en þær hafa einnig verið sýndar á heimilum, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Þegar þess er gætt, að sýningar kvikmynda á heimilum hafa gefið góðan árangur, er eðlilegt, að sú spurning vakni, hvort ekki megi skipuleggja slíkar sýningar og flytja þannig inn í dreifbýlið mikilsverðan þátt skemmtanalífsins, sem það hefur farið á mis við fram að þessu. Það má hugsa sér þetta í framkvæmd í stórum dráttum þannig, að byggðarlag, t.d. ein sveit eða fleiri sveitarfélög saman, eignist sína sýningarvél með tilheyrandi tækjum, einhver maður, sem er búsettur í byggðarlaginu, kynni sér meðferð kvikmynda og annist sýningar. Sýningarstaðir verði fyrir fram ákveðnir og sýningartímar, en kvikmyndir verði að sjálfsögðu leigðar. Og þar sem hið opinbera á verulegt safn kvikmynda, t.d. fræðslumálastjórnin, þjóðleikhúsið, skólarnir o. fl., gætu þessir aðilar orðið til mikils stuðnings þessu máli. Félagsheimili ættu að geta komið í góðar þarfir við kvikmyndasýningar, en þar sem ekki er um þau að ræða eða of langt er fyrir fólk að sækja sýningar þangað, koma til greina sýningar á heimilum. Víða í sveitum eru nú komin svo góð húsakynni, að ekki er verulegum vandkvæðum bundið að sýna þar kvikmyndir. Auðvitað yrði þar ekki um stóran hóp sýningargesta að ræða, húsnæði setur þar sín takmörk. En ekki efast ég um, að fljótlega yrðu endurbætur gerðar á íbúðarhúsum í sveitum, sem bezt þættu til þess fallin að sýna þar kvikmyndir, svo að ekki þyrfti að stranda á húsnæði fyrir þann fámenna hóp, sem mundi sækja slíkar sýningar.

Ég hef orðið þess var, að menn álíta að ekki geti þær kvikmyndir orðið með tali og tónum, sem sýna ætti í heimahúsum. Ég hef þess vegna leitað mér upplýsinga um þetta hjá kunnáttumanni í þessum efnum. Ég leitaði til Karls Guðmundssonar sýningarstjóra í Háskólabíó og lagði fyrir hann eftirfarandi spurningu: Eru einhver vandkvæði á því að sýna kvikmynd með tónum og tali í heimahúsum, hvort sem er um mjófilmu eða breiðfilmu að ræða? Og svar hans var á þessa leið: „Á þessu eru engin sérstök vandkvæði. Ég tel þó æskilegra, að filmurnar hefðu segultón, svo að hægt væri að tala á íslenzku skýringar inn á myndina, ef það þætti nauðsynlegt. Breiðfilmukvikmyndir eru hins vegar dýrari og einnig sýningarvélar fyrir þær.“ Þá hef ég rætt þetta mál við Stefán Júlíusson forstöðumann fræðslumyndasafns ríkisins og beðið hann um álit hans á þessu máli. Hann svaraði mér með svo hljóðandi bréfi:

„Vegna fyrirspurnar yðar, herra alþm., varðandi þáltill. ykkar Páls Þorsteinssonar um kvikmyndasýningar í sveitum, er mér ljúft og skylt að taka fram eftirfarandi atriði:

Á síðustu árum hefur talsvert verið sýnt af stuttum fræðslukvikmyndum, íslenzkum og erlendum, í sveitum landsins. Um þetta vitna útlánaskrár fræðslumyndasafnsins. Öðru máli gegnir um sýningar á löngum, leiknum kvikmyndum. Þar hefur ekki verið um auðugan garð að gresja í dreifbýlinu fram að þessu. Geri ég ráð fyrir, að þið alþm. hafið haft slíkar sýningar í huga, þegar þið báruð fram till. ykkar. Að mínum dómi væri auðveldast og hagfelldast að hafa sýningar á 16 mm filmum fyrir þá áhorfendur, sem nú fara á mis við kvikmyndasýningar, bæði með tilliti til fjölda áhorfenda og allra aðstæðna. 16 mm sýningarvélar eru víða til í sveitum og þorpum, ýmist í eigu skóla eða félagasamtaka og mundi það létta undir með framkvæmd í byrjun. Slíkar vélar eru ódýrari í innkaupi, en breiðfilmuvélar og því viðráðanlegri fyrir smáhópa. Þær eru líka léttari í vöfum og meðfærilegri í flutningi og notkun í litlum húsakynnum. Allar helztu kvikmyndir, sem sýndar eru í kvikmyndahúsum bæjanna, eru til í 16 mm útgáfu. Fræðslumyndasafnið hefur á undanförnum árum haft þetta mál til athugunar, en framkvæmdir hafa enn sem komið er strandað á fjárskorti. Leiga á löngum, leiknum 16 mm kvikmyndum er allhá. Þó má gera ráð fyrir, að safnið geri ofurlitla tilraun með þessa starfsemi á næsta ári. Hafa kvikmyndafélög í Evrópu og Ameríku boðið safninu til leigu hundruð úrvalskvikmynda, ef það sæi sér fært að taka upp þessa starfsemi fyrir dreifbýlið. Ég tel því hiklaust, að koma mætti á allreglubundnum kvikmyndasýningum í öllum sveitum landsins, ef fyrir hendi væri fé til að tryggja leigu á nokkrum tugum kvikmynda, meðan aðgangseyrir innheimtist og komið yrði á skipulagi um framkvæmdir heima í héruðum.

Reykjavík, 30. nóv. 1964.

Stefán Júlíusson

forstöðumaður fræðslumyndasafns ríkisins.“

Ég vek athygli á því, að þegar forstöðumaðurinn talar um tilraun í þessum efnum á næsta ári, á hann við árið 1965, því að bréfið er skrifað á fyrra ári.

Samkv. þessum umsögnum tveggja kunnáttumanna í kvikmyndasýningum má ætla, að tæknileg vandamál þurfi ekki að hindra það, að komið verði á skipulögðum kvikmyndasýningum í sveitum. Hin fjárhagslega hlið þessa máls er í meiri óvissu enn sem komið er. Þá hlið málsins þarf að athuga rækilega, eins og lagt er til í þessari till. Mikið veltur á því, hvaða undirtektir og áhuga mál þetta fær í dreifbýlinu, svo og hvaða stuðnings má vænta frá hinu opinbera, ríki, sveitarfélögum og einnig félagssamtökum og einstaklingum. En takist að leysa þetta mál á viðunandi hátt, tel ég vafalaust, að það mundi stórbæta félagslíf sveitanna og þar er sannarlega ekki vanþörf á.

Ég tel ekki nauðsynlegt að fjölyrða frekar um þessa till. að þessu sinni, en legg til, herra forseti, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til hv. allshn.