18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

106. mál, söluskattur

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, aðeins segja nokkur orð út af því, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. beindi til mín út af stöðu sjávarútvegsins í sambandi við þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera. Hv. þm. lét það álit sitt í ljós, að fiskiðnaðurinn verði að standa undir kauphækkunum og byggja afkomu sína á söluverði afurðanna á erlendum markaði. Þetta er mikið rétt og ekkert nýtt, sem þarna kemur fram, frá því, sem áður var þekkt um sjávarútveginn yfirleitt í landinu. Hann verður að bjargast við það, sem hann getur selt sinn afla á erlendum markaði, nema til komi, eins og stundum hefur orðið að grípa til, uppbætur úr ríkissjóði eða tilfærsla á tekjum innanlands. Það er svo með þennan aðalatvinnuveg þjóðarinnar, að hann á aðeins um tvennt að ræða, ef hann á að bjargast, ef tilkostnaðurinn eykst umfram það, sem rekstrarkostnaðurinn er hverju sinni, rekstur fiskiskipaflotans og kostnaðurinn við að fullvinna vöruna í landi. Ef kostnaðurinn eykst umfram það, sem til fellur til að standa undir, þá er um tvennt að ræða: annars vegar að leiðrétta gengi krónunnar og hins vegar að færa til peninga innanlands til þess að brúa bilið, sem verður, til þess að forða atvinnuveginum frá stöðvun.

Í sambandi við þetta mál, sem hér er til umræðu í þessari hv. deild, vil ég segja það, að sjálfsagt er sjávarútvegurinn ekki fær um að taka á sig þá hækkun, sem gert er ráð fyrir, eða 3% kauphækkun. En enn þá síður hefði sjávarútvegurinn verið fær um að taka á sig 5% hækkun, sem hefði leitt af þeirri kauphækkun, ef vísitalan hefði ekki verið greidd niður með þeim tekjum, sem koma í gegnum þennan nýja skatt. Það leiðir af sjálfu sér og af því samkomulagi, sem gert var milli ríkisstj. og atvinnurekenda og launþegasamtakanna með júnísamkomulaginu, sem gert var á s.l. sumri. Án þess að til kæmi þessi tekjumöguleiki hjá ríkinu til þess að greiða niður vöruverðið og halda vísitölunni niðri um þær prósentur, sem hér um ræðir, hefði komið til 5% hækkun, og ég er sammála skoðun hv. 4. þm. Norðurl. e. um, að sjávarútvegurinn er illa fær um að taka á sig 3% og enn þá verr fær um að taka á sig 5%, sem hefði orðið, ef þessi niðurgreiðsla, sem hér á sér stað, hefði ekki komið til.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeim skilningi, sem þessi hv. þm. hefur á möguleikum útflutningsframleiðslunnar til þess að taka á sig auknar álögur, í hvaða mynd sem það annars er, og ef sá skilningur hefði áður verið og almennt verið hjá þeim, sem gera kröfur á sjávarútveginn og útflutningsframleiðsluna, þá er enginn vafi á því, að það hefði oft mátt firra vandræðum og stýra fram hjá ýmsum erfiðleikum, sem átt hafa sér stað við að sjá sjávarútvegsframleiðslunni farborða á undanförnum árum.