18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

106. mál, söluskattur

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég svaraði beint spurningu hv. þm. um það, hvað ég teldi í sambandi við þá hækkun, sem leiddi af þessum lögum, sem hér væri verið að staðfesta. Það er rétt, að ég kom ekki inn á hitt, sem hann telur að muni verða. Hann sagði í fyrri ræðu sinni 25—28%, að það mundi hækka dýrtíðina um 25% að fella út 100 millj., og með þessum 3%, sem koma þarna, yrðu það 28%. Ég er alveg sannfærður um, að þessar tölur, sem hann er með, eru alveg út í hött.

Þó að hann telji, að hann fari hér rétt með, þá er það nokkurn veginn víst, að 400 millj. eru ekki sú tala, sem um er að ræða, hver heildarvinnulaunakostnaður yrði við fiskiðnaðinn eða sjávarútveginn í landinu. Það er langt frá því og fer víðs fjarri. Ég er alveg viss um það. Þó að ég hafi ekki þær tölur hjá mér, þá er ég viss um, að það er hærra.

En hitt vil ég að gefnu tilefni, sem kom fram í ræðu hv. þm. áðan, taka fram í framhaldi af því, sem ég sagði áðan, að í dag verður ekki um það sagt, við hvað sjávarútvegurinn bjargast eftir áramótin. Þess vegna er ekki fyrir hendi að taka neina upphæð inn í fjárlögin til þess að mæta þeim halla, sem ef til vill verður á rekstri bátaflotans og fiskvinnslustöðvanna eftir áramótin. Það segir sig sjálft, að það skýrist fyrst, þegar verðlagsráð sjávarútvegsins hefur farið yfir áætlanir um söluverð afurðanna og um þann kostnað, sem á sér stað í sambandi við að afla fisksins. Þá liggur þetta fyrst fyrir, hver hlutur sjávarútvegsins er og hvort hann bjargast af með það erlenda söluverð, sem er á afurðunum á markaðnum. Og það kann vel svo að fara, að það þurfi að leggja á nýja skatta eftir áramótin. Um það verður ekkert sagt í dag. Ef kemur til að þurfa að brúa einhver bil, sem oft hefur þurft áður að gera í sambandi við sjávarútveginn, þá kemur það náttúrlega þá fyrst í ljós, eftir að liggja fyrir raunverulegar tölur, hvað fiskverðið verður annars vegar og hvað fiskvinnslustöðvarnar geta greitt fyrir hráefnisverðið. Þá fyrst liggur dæmið fyrir, og þá er fyrst hægt að segja um, hvað það er stór upphæð, sem þarf til þess að brúa bilið í heild hjá sjávarútveginum, bæði hvað snertir bátaflotann og fiskvinnslustöðvarnar. Fyrr verður ekki um það sagt.