24.02.1965
Sameinað þing: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (2781)

65. mál, vigtun bræðslusíldar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með þessari þáltill. er lagt til, að ríkisstj. skipi 5 manna n. til þess að athuga möguleika á því, að síld, sem lögð er í síldarverksmiðju til bræðslu, verði keypt eftir vigt.

Í sambandi við þessa till. þykir mér rétt að benda á, að það hefur eflaust ekki farið fram hjá þeim, sem flytja þessa till., að til eru lög um vigtun á bræðslusíld, alveg fortakalaus lög, sem kveða svo á um, að ef seljandi að bræðslusíld krefst þess, að síld sé vigtuð, er kaupandinn algerlega skyldugur til þess. Og auðvitað þarf ekki að athuga það neitt, að það er hægt að koma þessu í kring, því að þetta fer nú fram á ýmsum stöðum á landinu, svo að á því er auðvitað enginn vafi. Ég sé því ekki, að það sé í rauninni neitt annað í þessu að gera, þar sem reynslan hefur sýnt, að þetta hefur verið gert á ýmsum stöðum á landinu, að síld er keypt eftir vigt og það fer ekkert á milli mála, að það er hægt, lög mæla alveg tvímælalaust fyrir um það og það er í rauninni ekki hægt að skjóta sér undan þeim lögum, ef seljandinn gerir kröfu um það, því að þau eru alveg fortakslaus. Þá er eins rammlega um þetta búið og hægt er að gera af hálfu ríkisvaldsins. Ég á ekki von á því að svona nefnd geri mikið annað en það, að hún athugi eitthvað um, hvað það mundi kosta að breyta þessum löndunartækjum. Ég fyrir mitt leyti sé því ekki mikla ástæðu til þess að taka á þessu vandamáli á þennan hátt. Ég álít, að ef það er virkilega svo, að seljendur að bræðslusíld séu mjög ákveðnir í því að knýja þetta í gegn, eigi þeir bara að sýna það, að lög skuli gilda í landinu og ganga afdráttarlaust eftir því, að lögin séu haldin.

En fram hjá hinu verður auðvitað ekki heldur gengið, að eins og nú er komið verðlagningu á síld, þá er í rauninni búið að kippa rökunum undan þessari gömlu kröfu, svo réttmæt sem hún var lengi vel. Það er búið að kippa rökunum undan þessari kröfu að verulegu leyti. Verðlagningunni er orðin þannig háttað, að þetta skiptir ekki neinu verulegu máli, hvort hér er heldur mælt eða vegið, eins og nú er komið. Ef farið er eftir þessum reglum, sem í gildi eru og verðlagsráðið telur sig fara eftir við ákvörðun á verðinu á bræðslusíld á hverjum tíma, hefur þetta í rauninni ekkert að segja. Og mér er nær að halda, að þegar seljendur að síld sáu, að svona var komið, að það var búið að breyta verðlagningarreglunum á þennan hátt, hafi þeim ekki verið eins fast í hendi og áður var að fá þessu breytt.

Ég fyrir mitt leyti tek undir það, ég álít, að það sé réttast að vigta, alla síld, sem fer til bræðslu. Ég álít, að það sé miklu réttari leið og það beri að stefna að því. Og ég held, að eina leiðin til þess að knýja það í gegn sé hreinlega að gera þeim það ljóst, sem kaupa síldina, að þeir eru skyldugir til þess samkv. lögum, ef t.d. seljendur síldarinnar krefjast þess og þá gera þeir það. Þeir geta ekki skotið sér undan því frekar en öðru. En auðvitað skjóta þeir sér undan því að breyta þarna um, á meðan seljendurnir gera ekki meira en það, sem þeir hafa gert, að þegar síldarvertíðir eru löngu umliðnar, kvaka þeir eitthvað lítillega í málinu, en láta það að öðru leyti eiga sig.

Ég óttast það sem sagt, að þó að svona nefnd yrði skipuð eins og þessi, þá verði engin breyting í þessu máli. Af því hefði mér fundizt hitt vera hreinna, að samtök útvegsmanna sjálfra, sem verða að teljast seljendur í þessum efnum, geri skýlausa kröfu um, að lögunum sé framfylgt, ef þeir þá meina þetta, en ég held, að út úr nefndarskipuninni komi sáralítið.

Þá vil ég einnig benda á það, að samsetning á þessari nefnd er að mínum dómi óeðlileg. Ef slík nefnd sem þessi yrði skipuð í þetta mál, þá er vitanlega eðlilegt, að Alþýðusamband Íslands eigi einn fulltrúa í þessari nefnd, sem er sá eini stéttarlegi aðili, sem þarna kemur fram fyrir sjómennina alla, en ekki aðeins fyrir Sjómannasamband Íslands, sem aðeins hefur innan sinna vébanda örfá sjómannafélög, en meginhlutinn af stéttarsamtökum sjómanna, stendur þar fyrir utan. Ég vil því benda á það, að ef þessi till. verður samþ. og nefndin verður skipuð, þá á vitanlega að breyta þessu atriði; því að þetta er óeðlilegt. En hinu vil ég sem sagt skjóta bæði til flm. og eins til þeirrar nefndar, sem fær með málið að gera, hvort ekki eru til aðrar hagkvæmari leiðir til þess að koma þessu máli í gegn og líklegri, en það að setja málið í nefnd á þennan hátt, sem þarna er lagt til.