11.11.1964
Sameinað þing: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (2864)

20. mál, tæknistofnun sjávarútvegsins

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Till. þá til þál., sem er hér til umr., flutti ég einnig á síðasta Alþingi, en hún hlaut þá ekki afgreiðslu. Ég vil nú freista þess að flytja hana á ný í þeirri von, að betur gangi, því að hvað sem segja má um þá stefnu, sem mörkuð er í till., þá mun engum hv. alþm. blandast hugur um, að þar er hreyft við mikilvægu máli, sem verður að fá farsæla lausn, eftir hvaða leiðum eða í hvaða formi sem það verður. Hér er að mínum dómi um að fjalla eitt brýnasta nauðsynjamál sjávarútvegsins í dag og á komandi tímum og ég er sannfærður um, að með hverju ári, sem líður án þess að hér sé hafizt handa um margþætta og vel skipulagða leiðbeininga- og tilraunastarfsemi í þágu fiskveiða, þá sé ótöldum milljónatugum varpað á glæ og jafnframt látið hjá líða að afla í þjóðarbúið verðmæta, sem kynnu að nema mjög háum upphæðum.

Ég varð þess greinilega var, eftir að ég flutti þessa þáltill. í fyrra, að meðal sjómanna og útvegsmanna er mikill og vaxandi áhugi á þessum málum. Ég vil því mega vænta þess, að hv. Alþingi, sem nú situr, gefi þessu máli hinn fyllsta gaum og afgreiði það á jákvæðan og farsælan hátt.

Það þarf í rauninni ekki að fara um það mörgum orðum, að grundvöllur framfara og bættra lífskjara í nútímaþjóðfélagi er aukin þekking, aukin tækni, sem ekki hvað sízt hlýtur að byggjast á umfangsmikilli upplýsinga- og rannsóknarstarfsemi. Það er staðreynd, að framleiðni í íslenzkum sjávarútvegi er mikil, ekki aðeins miðað við aðra íslenzka atvinnuvegi, heldur einnig miðað við atvinnuvegi í háþróuðum löndum. Magn og verðmæti sjávarafla hefur að undanförnu vaxið mjög verulega ár frá ári. Að langmestu leyti má þakka þetta bættum skipakosti og nýrri veiðitækni. Einkum liggur þetta í augum uppi að því er varðar síldveiðarnar, þar sem nú aflast með ágætum við aðstæður, sem fyrir nokkrum árum hefðu þýtt algeran aflabrest á síldveiðum. Á hinu leikur hins vegar enginn vafi, að framleiðni í sjávarútvegi má enn aukast stórlega og það telst ekki neitt vanmat á öðrum atvinnuvegum í því, þótt staðhæft sé, að afkoma okkar og möguleikar til að lifa góðu lífi hér á landi í náinni framtíð sé að ákaflega miklu leyti undir því komin, að hér verði stundaðar fiskveiðar og fiskiðnaður á grundvelli fullkominnar tækni, verkmenningar og vísindalegrar þekkingar.

Miðað við mikilvægi sjávarútvegsins skortir enn ákaflega mikið á, að leiðbeininga- og rannsóknarstarfsemi í þágu hans sé nægilega mikil og fjölþætt. Að því er sjálf fiskiskipin snertir skortir enn mjög á, að fram hafi farið skipulegar rannsóknir á hæfni þeirra og hagkvæmni við hinar ýmsu veiðar, sem stundaðar eru eða stundaðar kunna að verða hér við land. Þetta gildir bæði um stærð skipa, gerð þeirra og útbúnað. Að sjálfsögðu leitast útgerðarmenn við að laga sig eftir því, sem reynsla sjálfra þeirra og annarra kennir þeim. En stundum verður sú reynsla nokkuð dýrkeypt og oft og tíðum miklu kostnaðarsamari einstaklingunum og þjóðarbúinu í heild, en þurft hefði að vera. Jafnvel það eitt, að föst stofnun hefði með höndum skýrslugerð og miðlun upplýsinga um það, hvaða gerðir og stærðir fiskiskipa skiluðu beztum og hagfelldustum árangri við hinar ýmsu tegundir veiða, jafnvel þetta eitt gæti komið að verulegum notum. En jafnframt þyrfti slík stofnun að hafa bolmagn til þess að aðstoða útgerðarfélög og einstaka útgerðarmenn, sem vildu gera tilraunir með álitlegar tækninýjungar á sviði skipagerðar og skipaútbúnaðar hvers konar. Þá er það ekki síður nauðsynlegt, að fiskveiðiþjóð eins og við Íslendingar komi sér upp tækni- og rannsóknarstofnun, sem hafi með höndum prófun og upplýsingastarfsemi um veiðarfæri og fiskleitartæki. Á hverju ári koma á markað veiðarfæri úr nýjum gerviefnum eða veiðarfæri með nýju sniði. Framleiðendur og seljendur slíkra veiðarfæra og fiskleitartækja hafa að sjálfsögðu tekið sölutækni nútímans í þjónustu sína og hver um sig heldur fram sinni vöru og gæðum hennar. En meðan hér er engin föst stofnun, sem hefur það sérstaka hlutverk að fylgjast með nýjungum á þessu sviði og kanna þær með tilliti til íslenzkra aðstæðna, þá eiga útgerðarmenn oft úr vöndu að ráða. Þeir vilja að sjálfsögðu fylgjast sem bezt með og hinir framsæknustu leggja oft í áhættusamar og dýrar tilraunir. Þeir eru að prófa sig áfram með nýjungar bæði að því er varðar skipin, eins og ég sagði, veiðarfæri og fiskleitartæki. Þetta er vitanlega ágætt, svo langt sem það nær og hefur átt ríkan þátt í þeim tækniframförum, sem hér hafa orðið við sjávarsíðuna, t.d. við síldveiðarnar. En útgerðarmenn og sjómenn þurfa í þessu efni að hafa traustan bakhjarl, eins og tæknistofnuninni er ætlað að verða samkv. þáltill. minni.

Nú fá útvegsmenn t.d. í einstökum tilfellum opinbera aðstoð til að prófa álitlegar nýjungar, sbr. tilraunir með síldardælur og ýmislegt fleira. Í öðrum svipuðum tilfellum er engu slíku til að dreifa og þá yrðu það stundum margir aðilar, sem leggja út í áhættusamar tilraunir samtímis alveg leiðbeininga- og skipulagslaust af opinberri hálfu. Slíkt getur kostað stórfé, án þess jafnvel að árangur verði, eins og nefnd eru dæmi um í grg. fyrir þessari till.

Og loks er það vafalaust, að hingað berast ekki fyrr en þá seint og um síðir ýmsar erlendar nýjungar, sem sjálfsagt væri að prófa hér. Þær berast hingað ekki af þeirri ástæðu, að enn er enginn aðili til, sem hefur það verkefni sérstaklega að fylgjast stöðugt með framvindu þessara mála með öðrum fiskveiðiþjóðum og miðla um þau efni fræðslu, veita tæknilega aðstoð og gera rökstuddar till. um fjárhagsstuðning af opinberri hálfu til styrktar tilraunum og endurbótum í sambandi við skip og veiðar.

Það eru mörg atriði, sem nefna mætti sem dæmi um verkefni slíkrar tæknistofnunar, sem hér er lagt til að sett verði á fót. Ég vil aðeins nefna veiðarfærarannsóknir, rannsóknir á hentugustu stærðum og gerðum skipa til mismunandi veiða, tilraunir og prófanir í sambandi við bætta tækni við löndun á síld og öðrum fiski, tækniaðstoð í sambandi við geymslu hráefnis o.s.frv. Verkefnin eru að heita má óteljandi. Þetta hafa flestar aðrar fiskveiðiþjóðir séð, sumar fyrir löngu og því hafa þær komið sér upp slíkum leiðbeininga-og tilraunastofnunum og ég hygg, að þær hafi yfirleitt gefið mjög góða raun.

Ég tel mig naumast þurfa að færa að því fleiri rök, hver nauðsyn okkur er á að taka þessi verkefni miklu fastari tökum, en gert hefur verið fram að þessu. Hins vegar vil ég, áður en ég lýk máli mínu, fara um það nokkrum orðum, hvort hagkvæmara muni vera, að sérstakur aðili hafi þetta verkefni með höndum, eins og ég legg til, eða hvort réttara sé að fela það einhverri þeirri stofnun, sem fyrir er á sviði sjávarútvegsins. Fyrir nokkrum árum samdi milliþn. mikið lagafrv. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Það frv. hefur verið lagt fram hér tvívegis á hv. Alþingi, en ekki náð fram að ganga. Nú hefur það verið lagt fram á ný í upphafi þings og er þess að vænta, að það verði að þessu sinni tekið hér til rækilegrar meðferðar og hljóti nú afgreiðslu. Í þessu frv. er ráð fyrir því gert, að hluti þeirra verkefna, sem ég legg til að heyri undir tæknistofnun sjávarútvegsins, skuli vera eitt af mörgum viðfangsefnum hafrannsóknadeildar. Þetta fyrirkomulag yrði sjálfsagt til einhverra töluverðra bóta frá því, sem nú er. En að mínu viti er það alls ekki fullnægjandi. Hér er um að ræða svo sérstætt og margbrotið starfssvið, að sjálfstæð stofnun, sem hefði töluvert starfslið og allmikið eigið rekstrarfé, er að mínu viti langlíklegust til að skila verulegum og nauðsynlegum árangri. Hitt kynni aftur á móti að koma mjög til greina, að ákvæðum um tæknistofnun sjávarútvegsins væri bætt inn í frv. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, en þó því aðeins að slík stofnun yrði þá algerlega sjálfstæð deild, jafnrétthá fyrirhugaðri hafrannsóknastofnun og rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, þ.e. að hún yrði sjálfstæð ríkisstofnun með sérstökum forstjóra og sérstakri stjórn. Ég er ekki í neinum vafa um, að slík stofnun gæti á mjög skömmum tíma sannað tilverurétt sinn eftirminnilega með því að stuðla að miklum umbótum og örum framförum á sviði íslenzkra fiskveiða. Hún mundi bæði spara okkur mikið fé og hún mundi auka gjaldeyrisverðmætin stórlega.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt meira. Ég legg til, að umr. um þessa þáltill. verði frestað og till. verði vísað til hv. allsherjarnefndar.