03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (2984)

95. mál, skipting landsins í fylki er hafi sjálfstjórn í sérmálum

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við hv. 3. þm. Norðurl. e. erum flm. þeirrar till., sem nú er tekin til umr. Ég ætla að hafa þann hátt, sem allmikið tíðkast, að byrja framsöguræðu á því að lesa till., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa á árinu 1965 10 manna nefnd, til þess að athuga og rannsaka, hvort ekki sé rétt að skipta landinu í fylki með sjálfstjórn í sérmálum. Komist n. að þeirri niðurstöðu, að þetta sé rétt, skal hún gera till. um fylkjaskipunina. Í fylkjunum verði fylkisþing og fylkisstjórar, er fari með sérmál fylkjanna og taki þar með við nokkru af störfum Alþingis og ríkisstj., enda verði í till. ýtarlega um það fjallað, hver sérmálin skuli vera og eftir hvaða reglum fylkið skuli fá ríkisfé til ráðstöfunar.

Fjórir nm. skulu skipaðir eftir tilnefningu þingflokkanna, einn frá hverjum flokki. Aðrir fjórir skulu skipaðir samkv. tilnefningu landsfjórðunganna, einn frá hverjum fjórðungi. Í þeim landsfjórðungum, sem hafa fjórðungssambönd og fjórðungsþing, skulu menn þessir tilnefndir af fjórðungsþingunum, en annars af sýslunefndum og bæjarstjórnum sameiginlega í fjórðungi hverjum. Reykjavík tekur ekki þátt í tilnefningu með sínum landsfjórðungi, en borgarstjórnin tilnefnir einn fulltrúa af hennar hálfu.

Félmrh. skipan tíunda manninn í n. án tilnefningar og er hann formaður.

N. skili áliti og till. svo fljótt sem henni er unnt. Kostnaður við störf n. greiðist úr ríkissjóði.“

Telja má, að öllum málsmetandi mönnum á Íslandi beri nú orðið saman um það, bæði í ræðu og riti, að ein af höfuðskyldum þjóðfélagsins sé að byggja landið allt, að því leyti sem það er byggilegt. Þetta stafar ekki af þjóðrembingi. Þessi skylda við landið er ekki metnaðarskylda einvörðungu. Þetta er fyrirhyggjuskylda þjóðar, sem vill verða langlíf í landi sínu. Þjóðin er lítil, en finnur með sér mikinn vaxtarmátt. Henni fjölgar ört. Verkleg afköst hennar vaxa þó með ári hverju miklu meira, en í hlutfalli við það, sem henni fjölgar. Það er vegna síaukinnar tækni og meiri og meiri verklegrar þekkingar og kunnáttu.

Þjóðin er venjulega talin fátæk og það er hún í samanburði við fjölda annarra þjóða, ef ekki er á það litið, að hún á stórt og að ýmsu leyti gjöfult land og umhverfis það land, ein af beztu fiskimiðum heims. Hún er fátæk af gulli og mannvirki hefur hún ekki fengið í arf frá fyrri öldum, er spari henni verulega erfiði við uppbyggingu, eins og margar aðrar þjóðir njóta í stórum stíl. En hið víðáttumikla land hennar er mikill framtíðarauður ásamt fiskimiðunum.

Einmitt vegna þessa auðs getur þjóðin vaxið og vænzt þess að verða langlíf í landinu. Þessi tegund þjóðarauðs, landrýmið og fiskimiðin, eru henni dýrmæt framtíðartrygging, sem margar þjóðir skortir heima fyrir hjá sér og bera af þeirri ástæðu kvíðboga fyrir framtíð sinni.

Segja má, að íslenzku þjóðinni, sem ekki nær einu sinni 200 þús. manna, væri miklu tilkostnaðar minna að sitja landið þéttara, en hún situr það nú. En hvað sem slíkri augna-blikshagfræði líður, verður hitt þó meira um vert fyrir þjóðfélagið, að halda landinu öllu í byggð handa komandi kynslóðum, sem verða alltaf fjölmennari og fjölmennari og væntanlega líka umsvifameiri.

Við deyjum. Einstaklingurinn deyr. En þjóðfélagið lifir. Þetta málefni er að litlu leyti einstaklingsmál. Þetta er málefni hins varanlega þjóðfélags. Á það ber að líta með þeim skilningi.

Skyldan til að halda landinu öllu í byggð er þjóðfélagsleg fyrirhyggjuskylda. Einstaklingar geta smeygt sér undan þeirri skyldu, án þess að skinn þeirra sjálfra saki, af því að einstaklingurinn er skammlífur, en þjóðfélagið getur það ekki án saka, af því að það er langlíft.

Löggjafarsamkoma þjóðfélagsins verður að líta á sig sem forsjá hins langlífa þjóðfélags í þessum efnum. Alþingi er skylt að hafa vakandi auga með því, að jafnvægi haldist í byggð landsins, að einstaklingar hafi ekki almennt ástæðu til eða hagnað af því að hópast á sum landshorn og yfirgefa önnur, vegna þess að þjóðfélagið búi betur að þeim á einum stað en öðrum, þegar á allt er litið. Þvert á móti verður að gæta þess að jafna lífsskilyrði fólksins í landshlutunum, til þess að hið byggilega landssvæði fari ekki í eyði.

Allmikið hefur verið gert af ríkisins hálfu til að vinna gegn efnahagslegu ójafnvægi milli landshluta, en þó langtum minna, en þurft hefði. Mikilsvert er, hve margt leiðandi manna virðist vera að fá sýn í þessum málum og oft er það, sem heyra má nú orðið öll aðalblöð landsins styðja þá skoðun, að landið þurfi allt að vera í byggð.

En málið er ekki einfalt, heldur margslungið. Nauðsynlegt er að stofna jafnvægissjóð, eins og lagt er til í frv., sem fyrir þessu Alþ. liggur, til þess að jafna efnahagsaðstöðuna í landinu, eftir því sem unnt er. En það er samt ekki nóg að gera það. Maðurinn lifir ekki af einu saman brauði, þótt hann þurfi óhjákvæmilega brauðsins með. Ein af megin undirstöðum byggðajafnvægis eða landshlutajafnvægis verður auðvitað að vera efnahagsjafnvægi. Það má ekki vanrækja. En einnig þarf fræðslu- og menntajafnvægi. Og svo þarf sem mest valdajafnvægi. Óhætt mun að fullyrða, að valdajafnvægi leiðir af sér annað jafnvægi. Valdajafnvæginu fylgir jafnrétti og hinn mikilsverði sjálfsákvörðunarréttur og sjálfsábyrgð allra og sjálfsábyrgðar meðvitund. Valdajafnvæginu má líkja við hringinn Draupni, sem af drjúpa aðrir hringar jafnhöfgir níundu hverja nótt.

Till. sú til þál., sem við hv. 3. þm. Norðurl. e. flytjum á þskj. 141 um rækilega athugun á því, hvort ekki sé ráðlegt að skipta landinu í fylki, er hafi sjálfstjórn í sérmálum, miðast við það, að nauðsynlegt sé að auka valdajafnvægi frá því, sem nú er, til þess að byggðajafnvægi náist betur en ella, nefnilega heimastjórn í landshlutum, dreifa ríkisvaldinu eins mikið og hægt er, án þess að nauðsynlegur styrkleiki ríkisheildarinnar bíði tjón af því. Það má auðvitað ekki ske, að ríkisheildin missi nauðsynlegan styrkleika. En staðreynd er, að ríkisheildin, M.ö.o. þjóðfélagið, hefur um skeið veiklazt fyrir of mikinn samdrátt valds. Enginn líkami þolir mikið misræmi í blóðrás. Handleggur visnar, ef hann skortir blóð og of mikil blóðrás til höfuðsins, veldur líka veikindum. Hliðstæða við þess konar blóðrásartruflun hefur verið að gerast í búsetumálum þjóðfélags okkar á undanförnum árum. Skýrslur sýna, að á tímabilinu 1951–1963 fjölgaði þjóðinni um 27%, eða um 40.372 menn og konur. En af þessari fjölgun var fjölgunin á Reykjavíkursvæðinu eða öðru nafni Faxaflóasvæðinu 33.258 eða um 82% allrar fjölgunarinnar. Svona mikil er blóðsóknin til höfuðsins.

Ýmsir gizka á, að um næstu aldamót verði þjóðin orðin helmingi fjölmennari, en hún er um þetta leyti. Lauslega reiknað mundu þá með sömu þróun og var 1951–1963 150–160 þús. manns bætast við á Reykjavíkursvæðinu, en aðeins 30–40 þús. á öllu landinu utan þess svæðis og þá er þó lítið reiknað með því, sem slík skriða kann að taka með sér í fallinu til viðbótar hlutfallinu á svo löngum tíma, ef hún er ekki hindruð.

Oft og réttilega er til þess vitnað, að framleiðslan sé undirstaða efnahagslífsins og gjaldeyrisframleiðslan þá ekki sízt. Samkv. Hagtíðindum var sjávarafli þjóðarinnar 1962 711 þús. tonn. Þar af bárust á land á Faxaflóasvæðinu 181 þús. tonn eða um 25% aflamagnsins. Heildaraflinn gerði nálega 4 tonn á hvert mannsbarn í landinu, en aflinn, sem kom á land á Faxaflóasvæðinu, gerði ekki nema um það bil 1,7 tonn á hvert mannsbarn þar. Þetta segir sína sögu. Landbúnaðarframleiðslan mun að sjálfsögðu vera enn þá óhagstæðari Faxaflóasvæðinu, eins og eðlilegt er. Iðnaðurinn er aftur á móti hagstæðari þessum landshluta, enda fylgir hann fast eftir fjölmenninu vegna viðskiptanna við það. Eftir manntali 1962 stunduðu þá fiskveiðar, fiskvinnslu og landbúnað 29.6% af þjóðinni, húsbyggingar og annan iðnað 23.3%, en milliliðastarfsemi, verzlun og alls konar þjónustu, þar með í þágu hins opinbera, stunduðu 41.6% eða rúmlega 2/5 hlutar þjóðarinnar. Að sjálfsögðu voru þessir rúmlega 2/5 mannfólksins, sem þjónustu- og milliliðastörfin unnu, að miklum meiri hluta á höfuðborgarsvæðinu.

Út úr þessu má lesa, að það eru alls konar þjónustustörf og milliliðastarfsemi, sem dregur fólkið sterklegast til sín og hefur hlutfallslega mest áhrif á staðarval þess til búsetu. Í þessum hópi er allt það fólk, sem hefur með höndum fyrir ríkið störf, sem vald fylgir og einmitt umhverfis valdastöðvarnar skipar sér fjölmenni til þjónustu, bæði almennrar og sérfræðilegrar þjónustu. Allt slíkt hleður utan á sig, eftir því sem þjóðfélagið lætur fleira og meira til sín taka. Sætleiki þess að hafa vald eða njóta þess sem einhvers konar handhafi, er mannlegum smekk yfirleitt geðfellt og dregur sterklega til sín.

Af framansögðu má ljóst vera, að ekki er einhlítt til byggðajafnvægis að efla framleiðslu landshluta, sem eiga í vök að verjast vegna fólksfækkunar, beinnar eða hlutfallslegrar. Auðvitað er sjálfsagt að gera það og jafna efnahagsaðstöðuna, eftir því sem frekast er unnt. En jafnframt þarf að efla heimastjórn landshlutanna og valdajafnvægi í landinu.

Norðmenn hafa þjóða mest lagt á sig til þess að efla byggðajafnvægi hjá sér, eins og kunnugt er, enda er land þeirra af náttúrunnar hendi með sundurleitum aðstæðum til búsetu og byggðir þess með misjafnlega torsóttum gæðum, ekki síður en byggðarlög okkar lands. Norðmenn telja, að frumskilyrði til hagnýtingar náttúrugæða Noregs og til velfarnaðar þjóðfélags síns til frambúðar sé, að landið sé allt byggt og fólkið búi í öllum landahlutum við jafnrétti í lífsbaráttu sinni. Þeir hafa verið á undanförnum árum mjög athafnasamir í þessum efnum og varið stórkostlegum fjárhæðum af ríkisfé til eflingar atvinnulífs og til menningarstofnana úti um landið. Sérstök ríkisstofnun hefur haft það uppbyggingarstarf með höndum í samvinnu og samráði við fylkisþing og fylkisstjórnir á hverjum stað. Í Noregi er nefnilega fylkjaskipun. Þar eru 20 fylki, sem ná samanlagt yfir allt landið. Þar af eru tvö svonefnd borgarfylki: Osló, Bergen. Hin 18 fylkin taka yfir öll sveitarfélög, þ.e.a.s. kaupstaði og hreppsfélög, innan fylkisins. Áður fyrr voru kaupstaðirnir ekki í fylkjunum, heldur aðeins hreppsfélögin.

Það er hlutverk fylkisins að annast þau málefni, sem talizt geta sameiginleg fyrir öll eða mörg sveitarfélög í fylkinu og engu einu sveitarfélagi ber sérstaklega að sjá um, svo og að standa undir kostnaði við þær sameiginlegu framkvæmdir. Fylkisþingið sitja oddvitar og bæjarstjórar, forsetar sveitarstjórnanna í fylkinu, en fylkismaðurinn, sem er formaður þess, er ríkisskipaður embættismaður. Með honum starfar föst nefnd, fylkisnefndin. Fylkismaðurinn á sæti á fylkisþinginu með málfrelsi, en hefur þar ekki atkvæðisrétt. Þingið kýs sér sjálft forseta og varaforseta. Þing eru einu sinni á ári, fylkisnefndin er skipuð 5 mönnum, fylkismanninum og 4 fylkisþm., sem kosnir eru til tveggja ára í einu. Ríkið greiðir laun fylkismannsins og tekur þátt í skrifstofukostnaði fylkisins að sínum hluta.

Geta má þess einnig, að í Svíþjóð er hliðstætt skipulag. Þar eru lénin. Landinu er skipt í 24 lén, en auk þeirra er Stokkhólmur, sem engu léni tilheyrir, en hefur sérstaka yfirstjórn sambærilega lénsfyrirkomulaginu og nefnist yfirlandshöfðingjaumdæmi. Svarar Stokkhólmur þannig til borgarfylkjanna í Noregi. Umdæmin í Svíþjóð eru þannig 25. Í hverju léni er lénsstjórn og er lénshöfðinginn formaður hennar, en aðrir í þeirri stjórn eru tveir ríkisembættismenn, lénsritari og lénsgjaldkeri. Aðrir háttsettir embættismenn lénsins geta einnig átt þar sæti. Lénsstjórnin er þannig ekki kosin af fólkinu, heldur mynduð af ríkisembættismönnum. Í hverju léni, að Stokkhólmi undanskildum, eru öll þau sveitarfélög, borgir, bæir, kauptún og sveitir, sem í umdæminu eru. Við hlið lénsstjórnarinnar er í hverju léni landsþingið. Það er skipað ákveðinni tölu fulltrúa, sem kosnir eru hlutfallskosningu til fjögurra ára í einu. Landsþingið fer með hin sameiginlegu mál lénsins, líkt og fylkisþingin í Noregi. Kosningarrétt til landsþings hafa allir, sem kosningarrétt hafa til sveitarstjórna í umdæminu. Við kosningu til landsþings er léninu skipt niður í kjördæmi og má í engu kjördæmi kjósa færri menn en 7 og í engu fleiri en 13. Landshöfðingi skiptir umdæminu í kjördæmi. Formaður og varaformaður landsþings eru kjörnir til eins árs í senn. Landshöfðinginn hefur málfrelsi og tillögurétt á landsþingum, en ekki atkvæðisrétt. Lénsstjórnin sér um allar framkvæmdir á vegum landsþingsins.

Þessi skipan í fylki og lén er, að því er Norðmenn og Svíar telja, mikilsverð til valdajafnvægis í löndum þeirra og um leið til landshlutajafnvægis.

Enginn vafi er á því, að við getum lært mikið af öðrum þjóðum, að því er snertir úrræði í búsetuvandamálu, og þá ekki sízt af Norðmönnum. Kemur þá að mínu áliti fyrst og fremst til greina að athuga mjög rækilega, hvort við eigum ekki að taka upp fylkjaskipun í líkingu við þá, sem Norðmenn hafa hjá sér. Í orrustu hefur ætíð þótt mikilsvert að fylkja liði rétt og sömu lögmálgilda í þessum lífsbaráttumálum. Þjóðfélagið þarf að skipa sér niður um landið allt í sigurvænlegar lífsbaráttufylkingar undir sérstjórn á tilteknum svæðum, en að sjálfsögðu samstilltar þó og undir einni yfirstjórn, stjórn ríkisins. Eftir því sem samfélagið verður fjölbreyttara og grípur meira inn í líf borgaranna hvers og eins, er meiri þörf góðrar skipulagningar innan þjóðfélagsins, enda þá um leið meiru hægt að kosta til hennar, en áður var. Sveitarfélagaskipulagið eitt saman, þ.e. hreppar, kaupstaðir og sýslur, virðist ekki geta, eins og nú er komið, verið þær undirstöður, er þoli yfirbyggingu þjóðfélagsins í stíl nútímans. Menn segja stundum eitthvað á þá leið, að þjóðin sé svo fámenn, að hún eigi að geta komizt af með einfaldara þjóðfélagskerfi, en stærri þjóðir. Þótt í þessu sé nokkur sannleikur, er hann ekki yfirtækur eða haldgóður. Landið er stórt og með sundurleitum lífsskilyrðum fyrir íbúana. Atvinnulíf hinna ýmsu landshluta, t.d. í sjávarútvegi, fellur ekki á sömu árstíðir og togast þetta á. Síldveiðarnar gefa stundum happdrættislega vinninga, sem yfirbjóða allt og valda óráðslegu losi í þjóðlífinu. Fyrir bragðið þarf meiri stjórnarfarslegar festingar, ef svo má að orði komast. Sundurleit byggðasvæði hafa sundurleitra sjónarmiða að gæta. Þau þarfnast hvert hjá sér sterkra, ábyrgra heimastjórna, sem eru öllum hnútum kunnugar. Við, sem að till. þessari stöndum, viljum að athugað sé, hvort ekki sé skynsamlegt að taka upp fylkjaskipun með fylkisstjóra í hverju fylki, sem sé framkvæmdastjóri eða oddviti svæðisins. Hann sé kosinn eða ráðinn af fylkisþingi, sem háð sé einu sinni á ári, og til þess sé kosið eftir föstum reglum í fylkinu. Alþingi veiti fylkisþingunum rétt til ákvörðunar, hverju á sínu atkvæði, í ýmsum málaflokkum, svo sem skólamálum, hafnarmálum, vegamálum, rafmagnsmálum, tryggingamálum, skipulagsmálum. Alþingi fái þeim ríkisfé til, ráðstöfunar í sambandi við þessa málaflokka og einhvern álögurétt ef til vill líka.

Máske segir nú einhver: En góði maður, eykur þetta ekki skriffinnskuna, fjölgar þetta ekki þeim, sem ríkið þarf til þjónustu? Ef til vill. En að mínu áliti þarf það ekki að verða að óþörfu með þessum hætti. Hitt virðist mér augljóst, að ríkisstjórnunarbáknið vex hvort sem er og vaxi það í því formi sem það er, verði því ekki plantað út frá höfuðborginni meira en áður, þá notast það illa eða takmarkað til góðra þrifa. Lítill vafi er á því, að um leið og fylkin taka að sér að meira eða minna leyti framkvæmdavald, sem nú er að öllu leyti hjá ríkisstarfsmönnum í Reykjavík, þá ætti að vera hægt að létta þar með tilkostnaði í Reykjavík, flytja starfskraftana, sem þar hafa setið, út í fylkin eða a.m.k. komast hjá aukningunni, sem annars vofir yfir ár frá ári hjá hlutaðeigandi stjórnunarstofnunum í höfuðborginni. Sérfræðin flyzt út í fylkin, landsbyggðin hættir að þurfa að senda sendinefndir í jafnríkum mæli á fund hennar til höfuðstaðarins. Það er líka dýrt í dag og mikill sparnaður að létta því að miklu leyti af að senda sendinefndirnar á fund valdsmanna ríkisins í Reykjavík og sérþekkingarmanna, sem valdastöðvarnar þar hafa í þjónustu sinni fyrir landið. Og sérfræðin notast betur, þegar sérfræðingarnir verða heimamenn í fylkjunum. Þá öðlast þeir kunnugleika heimamannsins á verkefnunum og ábyrgðartilfinningu heimamanna líka. Nú er ástandið þannig, að fulltrúar koma endrum og eins út á land frá stjórnunarstöðvunum í höfuðborginni, til að athuga verkefni þar og til skrafs og ráðagerða við sveitarstjórnir, en venjulega eru þeir að flýta sér miklu meira, en góðu hófi gegnir til að komast aftur heim. Ég segi þetta ekki sem persónulegt álas í garð þeirra, sem þessum störfum sinna nú. Lífið er svona í þeim stakki, sem því er sniðinn hjá okkur í dag. Vitanlega verður að leggja alúð við að haga þannig skipan mála, að fylkjastarfsemin verði að svo miklu leyti sem unnt er, vinnuhagræðing frá því, sem nú er. Og það á hún að geta orðið, ef forsvaranlega er á málum haldið.

Í grg. till. bendum við flm. á, að landinu var í fornöld skipt í fjórðunga og rök fyrir þeirri skiptingu voru, eins og Íslendingabók segir frá þeim, að ýmsu leyti miðuð við að ráða bót á svipuðum vandkvæðum og fylkjaskipuninni er ætlað að gera. Hið forna íslenzka lýðveldi hrundi, fjórðungaskiptin voru lögð niður með upptöku og þróun annarrar stjórnskipunar. Tungan geymdi þau að ýmsu og hefur haldið þeim að nokkru við í vitund þjóðarinnar. Við tölum enn um landsfjórðunga að nokkru leyti eins og sjálfstæðar heildir.

Nú er það síður en svo, að lögmál í okkar veltigjörnu veröld sé það, að það, sem á löngu liðnum dögum gegndi vel, eigi alltaf við. Þess vegna er hægt að segja, að fjórðungaskiptin gömlu þurfi ekki að vera meðmæli með því að taka upp áþekka skipan á Íslandi nú. Hins vegar er alltaf ástæða til þess að líta til sögunnar. Íslendingar hafa endurreist lýðveldi sitt. Er ekki einmitt sennilegt, að það stjórnarform kalli eftir svipaðri dreifingu valds og áður átti sér stað, meðan lýðveldi var í landinu? Er ekki einmitt hæfileg dreifing, valds grundvöllur hins sanna lýðræðis, en samdráttur valds á fárra hendur háski þess? Sjást þess þá nokkur merki, að með endurreisn lýðveldisins hafi viljað koma fram, aftur skipting landsins í fjórðunga eða hliðstæðar sérstöðuheildir? Þeirri spurningu ber hiklaust að svara játandi. Fólkið í landshlutunum hefur gert tilraunir til þess að mynda samtakaheildir. Fjórðungssamböndin á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi eru slíkar tilraunir. Þessi fjórðungssambönd eru greinilegir vottar þess, að íbúar þessara landshluta finna til landfræðilegrar og þjóðfélagslegrar samtaka þarfar innbyrðis. Fjórðungssamböndin halda fulltrúasamkomur eða þing, er ræða málefni síns landshluta og almenn málefni, er snerta hann mikið og álykta um þau. Hins vegar vantar þessi samtök allt þjóðfélagslegt vald, en þau hafa undirbúið jarðveg fyrir fylkjaskipun og sýna, hvað vill spretta.

Fyrir meira en hálfum öðrum áratug gerðu fjórðungssamböndin tillögur um að skipta landinu í 5–6 fylki og gáfu þær tillögur út á prenti með allýtarlegri grg. Inn í þær till. voru fléttaðar tillögur um breytingar á kosningum til Alþingis og um breytingar á forsetaembættinu Þessar tillögur fjórðungssambandanna áttu mikinn hljómgrunn úti um land a.m.k., en undir þær var ekki tekið af stjórnvöldum landsins, heldur goldin þögn við þeim.

Við, sem flytjum till. á þskj. 141 um nefndarskipun til þess að athuga rækilega, hvort ekki sé rétt að skipta landinu í fylki, blöndum ekki inn í þá hugmynd neinum breytingum á kosningum til Alþingis eða valdi forseta ríkisins. Fylkjaskipun er að okkar áliti nauðsynleg ein út af fyrir sig. Við tölum um fylki, af því að það orð er fornnorrænt og hefur all hefðbundna merkingu. Hins vegar er heitið ekkert aðalatriði, í mínum huga a.m.k. Aðalatriðið er, að komið verði upp formlegum, nægilega sterkum samtakaheildum, sem hafi að lögum skýrt afmörkuð réttindi og skyldur innan þjóðfélagsins og ábyrgð á sjálfum sér, er þær verði að gera sér grein fyrir.

Augljóst er, að hér á hv. Alþingi býr fleirum svipað í hug og okkur flm. þessarar till. Till. á þskj. 66 frá Lúðvík Jósefssyni, Ragnari Arnalds og Arnóri Sigurjónssyni um dreifingu framkvæmdavalds og eflingu á sjálfstjórn héraða er að mínu áliti góð till., það sem hún nær, ágæt tillaga og gengur í sömu átt og okkar till. En ég tel hana samt ekki nógu ákveðna. Hún felur í sér nokkuð almennt tal um dreifingu valdsins, en er ekki nógu róttæk, ef svo má segja, að mínu áliti, fyrirmæli hennar ekki nógu ákveðin um form, sem alltaf þarf að hafa á þessum hlutum. Allt það, sem hún talar um athugun á, er í leiðinni við athugun fylkjaskipunarinnar. Nefndin, sem við stingum upp á að skipuð verði, gerir þær athuganir, er till. þremenninganna ætlast til að gerðar verði og auk þess miklu meira. Það, sem gera þarf, til þess að dreifing framkvæmdavaldsins takist, svo að verulegu gagni komi. er að skipa landinu með löggjöf í sterkar samtakaheildir, hæfilega stórar, er sæki rétt sinn og haldi uppi hjá sér ákveðinni, skipulegri og ábyrgri sjálfstjórn á þeim sviðum, sem löggjöfin markar þeim. Fylkin eru hugsuð af okkur flm. að þessari till. sem slíkar heildir. Þau eru traustar bindihleðslur í þjóðfélagsbyggingunni og mikill styrkur raunverulegu lýðræði.

Þáltill. á þskj. 227, sem Unnar Stefánsson og Benedikt Gröndal flytja um sameiningu sveitarfélaga og önnur till. á þskj. 229, sem Unnar Stefánsson og Jón Þorsteinsson flytja, um svæðaskiptingu, eru báðar vottar um, að menn telja skipulagslegra breytinga þörf í byggðamálunum og þær eru stuðningur við þá skoðun, að hér þurfi athafna með. Þær eru einmitt innan þess sviðs, sem fylkjaskipunartill. ætlast til að kannað verði af nefnd, sem þannig sé skipuð, að ætla megi, að hún taki hlutverk sitt fullkomlega alvarlega. Í nefndinni leggjum við til, að eigi sæti 10 menn sem ríkisstj. skipi, 9 nefndarmennirnir verði tilnefndir af öðrum, en einn, sem verði formaður, án tilnefningar. Þingflokkarnir tilnefni einn mann hver, aðrir fjórir verði tilnefndir af fjórðungssamböndunum eða þar sem þau eru ekki, af þeim aðilum, sem kjósa fulltrúa til fjórðungsþinga. Þá tilnefni höfuðborgin sinn fulltrúa. Teljum við flm., að með þessari skipan verði vel fyrir því séð, að öll nauðsynleg sjónarmið komi fram í nefndinni og málið fái athugun eins og vert er.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að till. þessari verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.