17.03.1965
Sameinað þing: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (3017)

124. mál, tækniaðstoð við nýjungar í vinnslu og veiði sjávarafla

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að með þessari till. er hreyft mjög mikilsverðu máli, sem hér hefur að vísu borið á góma alloft áður. En það er sérstaklega eitt atriði, sem ég vil, að fram komi hér í sambandi við umr. um þetta mál nú á þessu stigi.

Í þessari till. er lagt til, að skorað sé á ríkisstj. að láta fara fram ýtarlega rannsókn á þessu verkefni, sem till. fjallar um. En hér liggur nú fyrir þinginu frv. frá ríkisstj. um mikinn lagabálk, sem fjallar um rannsóknastofnun í þágu atvinnuveganna og það mun vera búið að leggja allmikla vinnu í það mál. Þar er gert ráð fyrir heildarskipulagi í sambandi við rannsókna fyrirkomulag í þágu atvinnuvega landsins. En í því frv. er gersamlega gengið fram hjá þessum þætti, sem hér er sérstaklega vakin athygli á, þ.e.a.s. rannsóknum á þeim málefnum, sem falla undir tækniframfarir í þágu sjávarútvegsins í heild.

Ég held því, að það rétta í þessu máli sé að snúa sér að því að fá fram nauðsynlega breytingu á því frv., sem hér liggur fyrir um rannsóknastofnun í þágu atvinnuveganna, þar sem beinlínis verði gert ráð fyrir því, að ein deild í þeirri rannsóknastofnun verði Tæknistofnun sjávarútvegsins, en ekki verði þannig að farið nú, að samþykkja það frv., eins og það liggur fyrir, varðandi rannsóknastofnanir í þágu atvinnuveganna, en setja þennan þátt hins vegar í nýja nefnd til nýrrar athugunar. Það er enginn vafi á því, að það er brýn þörf á því, að það verði sett upp sérstök stofnun, sem hefur með þessi málefni að gera. Og það er ekki rétt að fela sérstaklega fiskifræðistofnuninni eða fiskiðnaðarstofnuninni þessi verkefni, því að þau liggja eðli málsins samkv. langt fyrir utan verksvið þeirra manna, sem sérstaklega eru menntaðir til þess að hafa með þau málefni að gera.

Það eru ekki málefni fiskifræðinganna fyrst og fremst að fjalla um gerð og útbúnað fiskiskipa og það er ekki heldur þeirra sérgrein að fjalla um gerð og fyrirkomulag og útbúnað veiðarfæra eða tækja, sem þarf að nota í sambandi við veiðarnar. Þar er um hreint tæknimálefni að ræða, sem þarf sérstaklega tæknimenntaða menn til að fást við, sem síðan geta unnið með okkar hugvitsmönnum, sem hafa áhuga í þessum efnum. En það er mjög úrleiðis að mínum dómi að leggja þessi málefni undir hina almennu fiskifræðinga eða þá, sem vinna að fiskiðnaðarmálum á allt öðrum grundvelli.

Ég sem sagt vil styðja að framgangi á efni þessarar till., sem hér liggur fyrir, en ég vil benda flm. till. á það og þeirri n., sem kemur nú til með að fjalla um till., hvort rétta leiðin sé ekki sú í þessum efnum að vinna að því að koma fram nauðsynlegri breytingu á því frv., sem væntanlega verður gert að lögum á þessu þingi og ríkisstj. hefur flutt um rannsóknastofnanir í þágu atvinnuveganna og þar verði gert ráð fyrir Tæknistofnun sjávarútvegsins sem sérstakri deild, sem fjalli einmitt um þessi verkefni, sem þessi till. annars ræðir um. Ég kysi þá leið miklu frekar og mér sýnist, að það væri líklegra, að þannig kæmist málið út í veruleikann, heldur en að skilja þennan þátt nú eftir, þegar rætt er um rannsóknastofnun í þágu atvinnuveganna almennt, en hins vegar að setja þetta mál í sérstaka nefnd til sérstakrar athugunar. Ég tel að það, sem um þetta mál hefur verið fjallað hér áður og það, sem um það hefur verið rætt áður, hafi leitt í ljós, að það er full þörf á þessari stofnun, og það þarf bara að taka ákvörðun um það að setja hana upp, einmitt um leið og ákveðið er að taka upp aðrar rannsóknir í þágu atvinnuvega landsins.