28.04.1965
Sameinað þing: 44. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í D-deild Alþingistíðinda. (3049)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég fagna því, að umr. um þetta mikilsverða mál, landhelgismálið, hafa farið fram á allt annan hátt, en líkur bentu til að yrði, þegar maður hafði lesið stjórnarblöðin, skömmu eftir að till., sem hér er á dagskrá, kom fram. Að vonum ræddi hæstv. dómsmrh. málið efnislega og það hafa þm., sem til máls hafa tekið, einnig gert, að langmestu leyti, eins og sjálfsagt var. Ég skal ekki, af því að mjög er langt umliðið síðan umr. hófust um málið, svara rækilega ýmsu af því, sem fram hefur komið og ástæða hefði þó verið til að veita andsvör, heldur stikla á nokkrum atriðum, sem mér finnst máli skipta í ræðum manna.

Ég held, að það sé rétt eftir haft, að hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir, að till. væri í fyllsta samræmi við yfirlýsta stefnu Alþ. og ríkisstj. í þessu máli, sem sé að helga sér íslenzka landgrunnið allt. Hann sagðist telja, að landgrunnið væri hluti af Íslandi. Af því virðist mega draga þá ályktun, að á landgrunninu eigi engir að hafa atvinnuréttindi nema íslenzkir þegnar, eins og í landinu sjálfu. Ég hefði eiginlega búizt við því, að í niðurlagi ræðu hæstv. ráðh., er hann hafði þetta mælt og ýmislegt fleira sama efnis, hefði hann lýst ánægju yfir því, að till. væri komin fram og að hann og hæstv. ríkisstj. mundu veita henni stuðning, greiða götu hennar gegnum þingið og sjá síðan röggsamlega um framkvæmdina. En það vantaði nú samt eiginlega þennan endi á ræðu hæstv. ráðh., það fannst mér a.m.k., um afstöðu hæstv. ríkisstj., — sem ráðh. þessara mála varðist hann allra frétta. Mér þætti vænt um það, ef við nú við þessa framhaldsumr. fengjum vitneskju um það, hvaða tökum hæstv. ríkisstj. hyggst taka þetta mál, því að nú hefur umhugsunartími gefizt og tóm til að athuga aðstöðuna í málinu.

Hæstv. ráðh. vék að því, að okkar mál væri ekki í eðli sínu óskylt því, sem Norðmenn ráku fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag fyrir mörgum árum og ýmis rök okkar í málinu hlytu að verða svipuð, ef þau lægju fyrir, eins og Norðmenn báru fram í því máli. En því máli lauk þannig, að dómurinn gekk Norðmönnum í vil. Hér er um að ræða dóm um konungsúrskurð um afmörkun fiskveiðisvæðis frá 12. júlí 1935. Þessi konungsúrskurður var staðfestur í Haag, þannig að niðurstaða dómsins var sú, að hann bryti ekki í bága við alþjóðalög og þessi niðurstaða var samþ. með 10:2 atkv. dómenda, og hitt atriði málsins, um grunnlínurnar, að draga mætti beinar grunnlínur milli yztu skerja frá ákveðnum grunnlínupunktum, það málsatriði var staðfest með 8:4 atkv. Þessi dómur féll 18. des. 1951. Ég hef í höndum íslenzka þýðingu af þessum dómi og þar sem ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að hér standi á margan hátt svipað á eins og í þessu máli Norðmanna, þá vil ég leyfa mér að grípa nokkurs staðar niður í dómsforsendurnar.

Mál þetta var eins að því er Noreg snerti og till., sem hér liggur fyrir, að það var um að ræða breyt. á landhelgi Norður-Noregs, landshluta, ekki landsins í heild og þær fullyrðingar, sem hér hafa verið hafðar í frammi af hv. þm. nokkrum, að það sé óeðlilegt að taka ekki fyrir landið allt og stíga ekki skrefið í einu, að helga sér landgrunnið allt saman, þær fá ekki staðizt eða fá ekki a.m.k. stuðning af þessum vinnubrögðum Norðmanna. Þeir tóku þetta á sama hátt og leituðust við að fá rýmkun á landhelgi Norður-Noregs, vafalaust af því eins og við flm. þessarar tillögu, að við teljum þörfina brýnasta að því er snertir Vestfjarðasvæðið. Þar er líka mest að sækja. Þar er mestur hluti landgrunnsins utan núverandi landhelgislínu og réttur strandbúanna tvímælalausastur. En í norska dómnum var mjög byggt á rétti strandbúanna til lífsframfæris af fiskveiðum á landgrunninu. Á bls. 10 í norska dómnum segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í því sambandi er vitnað til traustra þjóðlegra réttinda, til þeirra landfræðilegu aðstæðna, sem mest eru áberandi á ströndum Noregs, til gæzlu megin hagsmuna íbúanna í nyrztu héruðum landsins. Einnig er hann (þ.e.a.s. konungsúrskurðurinn) studdur við konungsúrskurð frá 22. febr. 1812, 16. okt. 1869, 5. jan. 1881 og 9. sept. 1889. Þetta voru allt saman einhliða aðgerðir, sem Norðmenn höfðu uppi haft á þeim tímum til þess að breyta sinni landhelgi og stækka hana og dómurinn gekk um það að fá staðfestingu á því, hvort þessar aðgerðir brytu gegn alþjóðalögum, eins og þau voru talin þá.“

Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 11 í dómnum:

„Deiluefnið er ljóslega greint í 8. tölulið málshöfðunarskjalsins. Deiluefnið er, hvort markalínur norska fiskveiðisvæðisins, sem ákveðnar voru með konungsúrskurði 1935 fyrir þeim hluta Noregs, sem liggur norðan 66° 28,8' n. br., séu gildar eða ekki gildar að alþjóðalögum. Og síðara ágreiningsefnið milli hinna tveggja ríkisstj. er (þ.e. milli hinnar norsku og brezku), hvort línur þær, sem konungsúrskurðurinn frá 1935 kveður á, að skuli vera grunnlínur við afmörkun fiskveiðisvæðisins, hafi eða hafi ekki verið dregnar samkv. viðeigandi reglum alþjóðalaga.“

Nokkru síðar í forsendum dómsins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Norska ríkisstj. neitar ekki tilvist reglna í alþjóðalögum, sem ákvörðun markalínunnar fari eftir. Hún staðhæfir, að kennisetningar þær, sem Hið sameinaða konungsríki hefur orðað og tekið upp í niðurstöður sínar, hafi ekki það gildi, sem sú ríkisstj. vill vera láta. Hins vegar heldur norska ríkisstj. fast við sitt kerfi um ákvörðun markalína, enda telur hún það vera í öllum greinum í samræmi við ákvæði alþjóðalaga.“

Þarna var ágreiningur milli Breta og Norðmanna um, hvernig draga mætti þessar línur. Bretar stóðu þá fast á sinni kenningu um, að alþjóðalög heimiluðu ekki nema 3 mílna landhelgi og dómurinn gekk einnig gegn þeim, að því er það varðaði.

Þá kemur hér á bls. 14 í norska dómnum það atriði, sem byggir á hliðstæðum aðstæðum og hjá okkur og ég tel þess vegna að sé ástæða til þess að draga fram og les það því orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, — þar segir:

„Meðfram ströndinni eru grunn tiltölulega há upp í sjó, raunverulegir neðansjávarhjallar, þar sem eru sérstaklega fiskauðug mið, er norskir fiskimenn hafa þekkt og stundað frá ómunatíð. Með því að grunn þessi voru innan sjónvíddar frá landi, fundu menn og greindu beztu miðin með miðunaraðferðinni, þar sem tvær línur tiltekinna staða á ströndinni eða eyjunum skerast. Í þessum hrjóstrugu landshlutum hafa íbúar strandhéraðanna framfæri sitt einkum af fiskveiðum. Þetta eru staðreyndir, sem verður að hafa í huga, er dómur er lagður á réttmæti þeirrar staðhæfingar Hins sameinaða konungsríkis, að þau takmörk norska fiskveiðisvæðisins, sem ákveðin voru í úrskurðinum frá 1935, fari í bága við alþjóðalög.“

Þeir rökstyðja það þarna í þessum kafla, Norðmenn, að á þessum neðansjávarhjalla, sem sé út af norsku ströndinni, sem er alveg tilsvarandi við þann breiða hjalla, sem landgrunnið myndar út af Vestfjörðum og á voru viðurkennd fiskimið, ákveðin á nákvæmlega sama hátt og eftir íslenzku reglunum, miðað við tvo staði, sem bæri saman á ströndinni, og miðin þannig ákveðin og síðan rökstyðja þeir þetta sterklegast með því, að íbúar strandhéraðanna hafi framfæri sitt nálega eingöngu af fiskveiðum. Og það var þessi lífsbjargarréttur strandbúanna, sem dómendurnir í Haag lögðu mjög mikla áherzlu á og viðurkenndu sem einn sterkasta réttinn, sem dómurinn yrði að fara eftir. Og það hygg ég, að við verðum að viðurkenna, að rétturinn til lífsins getur hvergi á nokkurri strönd verið sterkar réttlætanlegur en t.d. á Vestfjörðum. Hvergi er það í Noregi svo, að fólkið lifi af fiskveiðum nálega eingöngu, eins og að því er Vestfirðina varðar hjá okkur.

Þá segir á bls. 18 í norska dómnum, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. Hins sameinaða konungsríkis vísar til hugmyndarinnar um sögulegan rétt, bæði að því er varðar landhelgi og innsævi og vötn, enda telur hún slíka heimildartöku í báðum tilvikum sem frávik frá almennum alþjóðalögum. Samkv. skoðun hennar getur Noregur réttlætt það, að þessi landssvæði séu landhelgi eða innsævi, á þeim grundvelli, að hann hafi farið þar með nauðsynleg yfirráð um langt skeið án mótstöðu nokkurra annarra ríkja, eins konar „posessio longi temporis“ (eins og stendur hér, það er latína og kann ég tæpast með að fara), þ.e.a.s. vörzlur um langan tíma (stendur í dómnum innan sviga), með þeim afleiðingum, að viðurkenna verður nú umráðarétt þennan, enda þótt í honum felist frávik frá gildandi reglum.“

Drottinvald Noregs yfir þessum sjávarsvæðum væri undantekning, söguleg heimild réttlætti aðstöðu, sem annars mundi fara í bága við alþjóðalög. Enginn getur efazt um, að það eru Íslendingar, sem um aldir hafa stundað fiskveiðar á þessum slóðum, sem till. fjallar um og Bretar koma þar ekki til sögu fyrr en á síðari öldum og þá að því er þær fiskveiðar varðar, sem hér er um að ræðu að bægja sérstaklega frá, þ.e. togveiðarnar, koma þeir ekki til fyrr, en á næstliðinni öld. Ef sögulegi rétturinn hefur þess vegna haft þýðingu að því er snertir málstað Norðmanna, þá hefur hann það ekki síður að því er Ísland varðar, heldur öllu fremur, þar sem okkar land var meira úr alfaraleið og íslenzka þjóðin sat þannig nálega eingöngu um aldir að fiskveiðiaðstöðunni á okkar miðum.

Enn vil ég leyfa mér að vitna í forsendur dómsins, þar sem ég tel þar einnig vera um hliðstæður að ræða. Þar segir á bls. 21, með leyfi hæstv. forseta:

„Meðal þessara athugana ber almennt að leggja áherzlu á hin nánu tengsl, sem eru á milli landhelginnar og yfirráða á landi. Það er landið, sem veitir strandríkinu rétt á sjávarsvæðunum fyrir ströndinni. Af því leiðir, að veita verður því ríki nauðsynlegt olnbogarúm til þess að gera því unnt að afmarka landhelgina í samræmi við hagkvæmar þarfir og aðstæður á staðnum, en um leið má ekki sveigja grunnlínurnar til muna frá heildarstefnu strandarinnar.“

Hér mundi áreiðanlega vera fylgt þeirri reglu, að landhelgin yrði ekki látin fylgja bogalínum landgrunnsins, heldur dregin út frá viðurkenndum grunnlínupunktum á landi og ná sem svaraði að meðaltali út á yztu rönd landgrunnsins. Og landgrunnið vestfirzka fylgir nokkurn veginn meginstefnu sjálfrar strandarinnar, má heita alveg „parallelt“ við ströndina sjálfa, aðallínu hennar.

Þá skal ég aðeins lesa hér — með leyfi hæstv. forseta — örfáar línur og læt þar með lokið tilvitnunum í norska dóminn. En þær eru svona:

„Dómurinn telur, að hin sögulegu gögn, sem norska ríkisstj. hefur fært fram til stuðnings þessari staðhæfingu, skorti að vísu oft nákvæmni um staðsetningu, en þau veiti hins vegar nokkurn stuðning þeirri skoðun, að haldizt hafi við lýði hin hefðbundnu réttindi sem áskilin voru íbúum konungsríkisins til fiskimiða, sem liggja innan markalínunnar frá 1935, einkum í Lapphavet. Slík réttindi reist á lífsnauðsyn landsmanna og staðfest af mjög fornri og friðsamlegri venju má réttilega taka til greina, þegar dregin er markalína, sem dóminum virðist auk þess hafa verið haldið innan hóflegra og sanngjarnra takmarka.“

Hér er sem sé rétt undir lok á forsendum dómsins lögð höfuðáherzla á lífsnauðsyn íbúanna og hún er, eins og ég hef áður fullyrt, hvergi ríkar fyrir hendi, en í hinum vestfirzku strandbyggðum.

Hv. 11. landsk. (MB) tók þátt í umræðum um þetta mál og varði nokkru af ræðutíma sínum til þess að greina frá, með hvaða hætti honum hefði verið boðinn meðflutningur þessa máls. Hann viðurkenndi það, að sér hefði verið boðið að vera meðflm. till., en kvaðst ekki hafa fengið nema sólarhring til umhugsunar eða svo og vissulega hafði hann till. með greinargerð hjá sér í sínum fórum sem svaraði einum sólarhring. En að þeirri athugun lokinni óskaði hann ekki eftir lengri fresti og gaf skýr og ákveðin svör. Hvaða tilefni var þá af minni hendi eða okkar flm. að bíða, eftir að við höfðum fengið ákveðin svör frá honum og þeim öðrum Vestfjarðaþm., sem málið var borið undir. Þeir afmörkuðu sjálfir tímann, óskuðu ekki eftir breytingum, gáfu skýr svör um, að þeir hvorki mættu né gætu verið meðflm. Það er því til einskis fyrir þessa menn að bera því við, að þeim hafi ekki gefizt tóm til að athuga sinn gang. Þeir gáfu skýr neikvæð svör. Og þá var ekki eftir neinu að bíða fyrir okkur. Till. liggur svo fyrir hv. Alþ. og ef það væri þannig, að þeim hefði ekki gefizt nógur tími til þess að gera athugasemdir við form till., hefðu viljað breyta henni, þá kemur nú til hin þinglega aðstaða þeirra að bera fram brtt. við þessa till. og stuðla að því að koma henni í það horf, sem þeir teldu æskilegast.

Hv. þm. talaði um, að það væri nauðsynlegt í þessu máli að fara gætilega. Að hverju leyti er ógætilegt að flytja þetta stórmál á Alþ.? Ég fæ ekki séð, í hverju það liggur, og þyrfti að fá skýringar á því. Það þyrfti undirbúning undir svona mál, og ég spyr: Hvaða undirbúning geta þm. veitt svona máli? Verða ekki undirbúningur og athafnir í þessu máli að vera í höndum hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma? Það eru lög í landinu, sem ákveða það, að við helgum okkur landgrunnið allt. Það er þál., ekki ein, heldur tvær og yfirlýsing núverandi hæstv. ríkisstj., að það sé markið, sem að skuli stefnt. Það er þess vegna verkefni, sem þing og ríkisstj. hefur sett sér að vinna að og ná og það er enginn annar en hæstv. ríkisstj., sem á að vinna að þessu máli og hafi enginn undirbúningur verið framkvæmdur í því, er þar engan um að saka annan en ríkisstj. sjálfa. En með tillöguflutningi er ýtt við hæstv. ríkisstj. um að hefjast handa hið bráðasta að vinna að hinu yfirlýsta verkefni sín, og rökstuðningur fylgir, sem enginn hefur vefengt, að þörf þess landshluta, sem hér um ræðir, sé brýn fyrir aðgerðir í málinu.

Það var hv. 11. landsk., sem vék að því, að það væri einkennilegt, að Hermann Jónasson væri ekki meðflm. að till. Ekki sé ég neitt einkennilegt við það. Framsfl. ákvað að eiga aðild að flutningi þessarar till. og sá flokkur hlaut auðvitað að ráða því, með hvaða hætti hann sæi um meðflutninginn og hv. 3. þm. Vestf. (SE) tjáði mér, að honum hefði verið falið að vera meðflm. að þessari till. Ég hefði verið hjartanlega ánægður, ef það hefði komið einn meðflm. frá hv. stjórnarflokkum, hvorum um sig, þó að það hefði ekki verið uppáskrifað af öllum þingflokkunum. Þessi till. er sem sé flutt af Alþb. og Framsfl., sem standa að þessu máli og við hefðum einskis frekar óskað en þess, að stjórnarflokkarnir hefðu heimilað sínum þm., a.m.k. úr Vestfjarðakjördæmi, að eiga meðflutning að slíkri till. sem þessari, sem svo mjög varðar lífshagsmuni alls fólksins í þessum landshluta. Þá hefði ekki þurft að tala um neinar rósir í hnappagat, því að við ætluðum ekki að fá neinar rósir í hnappagatið, fyrir að hreyfa málinu. Við vildum unna öllum þingflokkum þess að fá slíkar rósir í hnappagatið að flytja inn á Alþ. mjög stórt og þýðingarmikið mál fyrir alla kjósendur og alla íbúa Vestfjarðakjördæmis.

Hv. 8. landsk., Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, tók til máls í þessum umr. og hann sagði í upphafi síns máls, að þetta væri mál, sem væri þess vert, að því væri rækilegur gaumur gefinn. Okkur Íslendingum bæri að vernda hafsvæðin umhverfis landið, svo að þau gæfu okkur sem bezt lífskjör. Og það er einmitt það, sem þessi till. fjallar um. Með ágangi Breta á vestfirzka landgrunninu er ekki um það séð, að það landgrunn gefi íbúunum á Vestfjörðum sem bezt lífskjör. Lífskjör þeirra eru verulega skert með ágangi þessara erlendu veiðiþjófa. Hann viðurkenndi einnig, að landgrunnslögin væru grundvöllurinn, þau undirbyggðu allar aðgerðir í máli sem þessu og það bæri að afla viðurkenningar á rétti Íslendinga til landgrunnsins alls.

Þetta var ástæða til að taka fram, vegna þess að sumir höfðu haldið því fram í umr., að það væri ekki öruggt að byggja á landgrunnslögunum og þyrfti því að taka önnur tillit. Hvaða önnur tillit? Það yrði að fara varlega í málið. Meina þeir hv. ræðumenn það, að við megum ekki hreyfa þessu máli, ef það sé líklegt til að styggja þær þjóðir, sem sækja á okkar fiskimið? Hvenær halda þeir þá, að ætti að hreyfa málinu? Halda þeir ekki, að Bretar, hvenær sem er, styggist við, ef við gerum tilraunir til þess að stækka okkar landhelgi? Ég tel það hafið yfir allan vafa og það bíðum við ekki af okkur á neinn hátt, þá þykkju Breta. Við verðum, ef við ætlum að hreyfa þessu máli, að þora að horfast í augu við, að það geti orðið deiluatriði við Breta og verður það vitanlega.

Næst síðastur þeirra hv. þm., sem tekið hafa þátt í að ræða þetta mál, var hv. 2, landsk. (BF) og hann viðurkenndi eins og hv. 11. landsk., að honum hefði verið boðinn meðflutningur að þessari till., en var samt með afsakanir út af því, að það hefði ekki verið beðið nema einn sólarhring eða svo eftir svari. En það var alveg sérstaklega skýrt fram tekið af honum, þegar hann svaraði mér, að hann yrði ekki meðflm. og þá var vitanlega till. borin fram engu að síður, enda tók hann fram, þegar hann gaf sitt svar, að sér fyndist málið svo þýðingarmikið, að hann væri því síður en svo andvígur, að það væri flutt inn í þingið. Það var þetta, sem fylgdi með hans neitun og þá var vitanlega ekki ástæða til þess að bíða vegna hans afstöðu lengur, ekki stundinni lengur, enda var það ekki gert. Þá stóð þannig á, að þingið var að taka hlé um vikutíma, það var látið hætta störfum, meðan Norðurlandaráð starfaði hér í Reykjavík og við lögðum till. fram eða hún kom úr prentun daginn sem þingfundum var frestað vegna Norðurlandaráðs.

Hv. 2. landsk. viðurkenndi mikilvægi þessarar till. Hann undirstrikaði mjög, eins og ég hafði gert og hv. 11. landsk. líka, lífsnauðsyn Vestfirðinga fyrir rýmkun landhelginnar og ekki gátu þeir, fremur en aðrir, hnekkt því, að það er yfirlýstur vilji Alþ. og ríkisstj., að vinna beri að þessu takmarki, sem þarna er orðað í till. að því er snertir Vestfirðina, að helga sér landgrunnið allt. En svo komst hv. þm. að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að skoða málið miklu rækilegar en gert hefði verið. Og ég spyr enn: Hver á að gera það? Hver átti að vera búinn að skoða málið? Ef nokkur, þá hæstv. ríkisstj. vegna hins margyfirlýsta vilja Alþ.

Hv. 2. landsk. fullyrti, að útfærslan fyrir Vestfjörðum gæti ekki gerzt sem einangruð aðgerð. Hvað gerðu Norðmenn? Þeir gerðu það einmitt sem einangraða aðgerð að færa út landhelgina fyrir Norður-Noregi. Og því var ekki hnekkt af dómstólnum í Haag. Sú ástæða hefur því ekki gildi, ekki einu sinni sem mótbára. En þá fór hv. þm. út í aðra sálma. Hann sá mörg ljón á veginum og eitt af ljónunum var það, að það væri ekki alveg ljóst, hvað væri landgrunn. Það væri ekki til skilgreining á hugtakinu landgrunn, sagði hann, hana vantaði. Þegar landgrunnslögin voru lögfest á hv. Alþ., held ég, að það sé alveg áreiðanlegt, að það hafi fylgt með uppdráttur af íslenzka landgrunninu og það er þess vegna ekki vafi um, að það var lögfest sem landgrunn það, sem sýnt var á því korti og það mundi okkur nú nægja, en auk þess kemur það til, að landgrunn mun vera viðurkennt á alþjóðamælikvarða það hafsvæði, sem er grynnra en 200 m. Þetta er því aðeins tilraun til þess að búa til erfiðleika. Þessir erfiðleikar eru ekki til. Það er ákveðið í íslenzkum lögum, hvað skuli heita hið íslenzka landgrunn og það mun vera viðurkennt á alþjóðamælikvarða, hvað teljist landgrunn út frá ströndum landa. Það væru meiri glópaldarnir, sem sátu Alþingi Íslendinga, þegar landgrunnsl. voru sett, ef þeir væru þar að tala, um réttindi Íslendinga á einhverju svæði, sem enginn vissi, hvað væri. En það hafa þeir þá gert, ef ekki er til ákveðin skilgreining á hugtakinu landgrunn.

Önnur mótbára hv. þm. var sú, að það yrði illmögulegt að framfylgja landhelgisgæzlu, ef 1landgrunnið út af fyrir sig yrði afmarkað, það væru svo óreglulegar línur, þar sem hann hélt sig þá við 200 m dýptarlínuna og rétt er það, hún er ekki alveg þráðbein lína. En í meginatriðum myndar landgrunnsröndin beina línu. Og það er ekki nokkur vafi á því, að hinir viðurkenndu grunnlínupunktar á Vestfjörðum mundu verða hafðir sem undirstaða og landgrunnsröndin, þar sem línan lægi sums ataðar út fyrir hana og á öðrum stöðum inn fyrir landgrunnsröndina, yrði tekin í beinum línum milli grunnlínupunkta á landgrunnsröndinni, en ekki látin fylgja vogum og víkum á hafsbotninum.

Þetta voru eiginlega þyngstu rökin hjá hv. þm. gegn þessari till., að það væri ekki alveg ljóst, hvað í því fælist að helga sér landgrunnið fyrir Vestfjörðum. En það hefur hv. Alþ. hvað eftir annað ákveðið að gera, að ná fullri viðurkenningu annarra þjóða á rétti Íslendinga til fiskveiða á öllu landgrunninu og hefur hingað til talið sig vita, hvað það væri að tala um með því.

En þegar hv. þm. hafði þetta mælt, sagðist hann viðurkenna það, að Vestfirðingar þyrftu meiri friðunar við, það væri meiri ásókn á þeirra mið, en annars staðar sökum þess, hve mikill hluti af veiðisælum fiskislóðum eru á vestfirzka landgrunninu utan línu og hann gat um það, að 48 togarar hefðu verið staðnir að ólöglegum veiðum fyrir Vestfjarðasvæðinu á tímabilinu 1. marz í fyrra til 1. marz í vetur, þ.e.a.s. á 12 mánuðum.

Þá var að vonum af hv. 2. landsk. og ég held einum eða tveimur öðrum þm. á það drepið, að það væru hugsanlegar aðrar leiðir en þær, sem farnar eru í till. og það er vitanlega rétt. Það væri hugsanlegt að fara þá leið að friða veiðisvæðin fyrir Vestfjörðum, t.d. frá 1. okt. á haustin og til 1. júlí á vorin og friða þannig aðalvertíðartímabil Vestfirðinga. En þá yrði eitt yfir alla að ganga alveg tvímælalaust. Þá yrði að loka íslenzk botnvörpuskip úti af öllu þessu svæði líka á friðunartímabilinu. En með því formi, sem till. er nú í, eru það erlendu veiðiskipin, sem verða að víkja út fyrir landgrunnslínuna, en að öðru leyti giltu íslenzk lög, eins og þau nú eru eða væru á hverjum tíma, um veiðirétt íslenzkra botnvörpuskipa á þessu svæði. En á milli þessara tveggja leiða er hægt að velja, það er alveg rétt. Og ef það væri meiri hl. Alþ., sem vildi heldur fara friðunarleiðina, ákveða friðunarsvæði vissan hluta úr árinu, væri vissulega hægt að gera það með brtt. við þessa till.

Það mun hafa verið bæjarstjórn Ísafjarðar, sem tók undir þetta með ályktun, að það væri til mikilla bóta að friða viss svæði ákveðinn tíma árs og mun þá hv. 11. landsk. þm. hafa verið á fundi í bæjarstjórn Ísafjarðar, þegar sú samþykkt var gerð. En nokkru eftir að þessi bæjarstjórnarfundur var haldinn, barst mér ályktun frá Alþýðusambandi Vestfjarða, okkur Vestfjarðaþm. sjálfsagt öllum, þar sem ekki var hallazt að þessari leið, heldur sagt, að Vestfirðingar yrðu að fá landgrunnið allt fyrir Vestfjörðum friðað. Það var Alþýðusamband Vestfjarða og forseti þess er einn af þeim bæjarfulltrúum á Ísafirði, sem stóðu að hinni samþykktinni, enda var niðurlag hennar á þá leið, að lokatakmarkið yrði að fá landgrunnið allt friðað.

Þá hefur sveitarstjórnin í Patrekshreppi einnig sent mjög ákveðna samþykkt, þar sem látinn er í ljós vilji á því, að snör handtök séu höfð, framkvæmdum hraðað eins og unnt sé til þess að helga sér landgrunnið fyrir Vestfjörðum sem landhelgissvæði og virðist sú samþykkt hafa verið gerð þar ágreinings-laust. Þó mundi maður segja, að Patreksfjörður væri þannig settur, að hann yrði minnst af öllum Vestfjarðakauptúnunum fyrir barðinu á veiðiþjófunum og hefði helzt allra kauptúnanna á Vestfjörðum möguleika til að sækja suður fyrir enda landgrunnsins í ála Breiðafjarðardjúpsins. En þeir hafa sem sé gert samþykkt í sveitarstjórninni þar um, að Alþ. afgreiði þessa till.

Ég skal ekki ræða málið miklu meira. Ég vil þó bæta nokkru við enn. Og það, sem ég vil þá helzt segja, er þetta. Mér finnst það skorta á í þessum umr., að hæstv. ríkisstj. segi, hvað hún telur á þessu stigi málsins unnt að gera. Nauðsyn málsins er viðurkennd. Stefna Alþ. er ljós. Yfirlýsingar liggja líka fyrir frá hæstv. ríkisstj., að hún vilji vinna að því, sem í þessari till. stendur. En hvað vill hæstv. ríkisstj. gera varðandi þessa till.? Og hvaða vandkvæði eru sérstaklega á því að framkvæma hana nú, sem ekki verða fyrir hendi, hvenær sem farið er fram á það, sem í till. felst? Og hvað er það, sem veldur því, að það var lagt blátt bann við því, að þm. stjórnarflokkanna stæðu að till. sem þessari? Ég spyr: Er það samþykktin frá 1961 um, að við, ef við hyggjumst færa út landhelgina, séum skuldbundnir til að spyrja Breta fyrst og ef þeir mótmæli, séum við skyldugir til að skjóta málinu fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag? Er það þetta? Ég fullyrði ekki, að svo sé, en vera kann, að það sé ástæðan. Sé það ekki hún, finnst mér, að hæstv. ríkisstj. eigi að segja, hverjar aðrar ástæður hefur hún fyrir því að telja hæpið að flytja þetta mál.

Ég man, að hæstv. dómsmrh. taldi, að það ætti engin þjóð, sízt smáþjóð eins og við, að kveinka sér undan því að þurfa að lúta lögum í svona málum, alþjóðalögum. Nú eru, eins og allir vita, alþjóðalög óskýr í þessum efnum og myndast smám saman við hefð, eftir því sem málin þróast. En ég fyrir mitt leyti tel það tvímælalaust veikari aðstöðu fyrir íslenzku þjóðina að þurfa að beygja sig undir erlendan dómstól, heldur en að framkvæma einhliða aðgerðir, eins og við höfum gert og taka afleiðingum af því eins og menn, eins og við höfum gert og ávinna okkur þannig smátt og smátt rétt til stækkaðrar landhelgi og er þó alveg undir hælinn lagt, hvort við hefðum fengið það sama, ef það hefði verið hverju sinni borið undir Haag-dómstólinn. Það verð ég að segja, það er mjög undir hælinn lagt. Þar eru í dómara-sæti fulltrúar þeirra þjóða, sem hagsmuna eiga að gæta á okkar fiskimiðum, en við eigum enga forsvarsmenn í þeim dómarahópi.

Ég vil vænta þess, að þessi tillöguflutningur orki því a.m.k. að ýta við hæstv. ríkisstj. í þessu lífsspursmáli þjóðarinnar, minna á það rækilega, að Alþ. hefur oftar en einu sinni, lýst yfir ákveðinni stefnu í þessu máli og hæstv. ríkisstj. hefur í upphafsorðum samþykktarinnar eða nótunnar frá 1961 einnig sagzt ætla að vinna að stækkun fiskveiðilandhelginnar, þannig að hún næði yfir landgrunnið allt. En ég mundi halda því fram, að eins og málið er vaxið, eins og lífsnauðsyn Vestfirðinga er brýn í þessu máli, ætti hæstv. ríkisstj. að stuðla að samþykkt þessarar till. nú á þessu þingi og framkvæma landhelgisgæzlu á landgrunninu öllu fyrir Vestfjörðum, hvort sem Bretar styggjast við það meira eða minna. Hjá því verður aldrei komizt. Ef hún teldi sig skuldbundna af því að tilkynna Bretum þetta og taka við þeirra mótmælum og fara fyrir Haagdómstólinn, sem hún segir að sé ágætiskostur og ekkert neyðarbrauð, því heldur það þá aftur af hæstv. ríkisstj.? Það er það, sem hún segir, að sé ágæt leið, betri en okkar áður einhliða réttur. Ég er að vísu á allt öðru máli um það.

Ég læt hér máli mínu lokið og legg til, herra forseti, að umr. verði frestað, — var ekki ákveðin ein umr.? (Forseti: Jú) — og málinu vísað til hv. utanrmn.