28.04.1965
Sameinað þing: 44. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í D-deild Alþingistíðinda. (3050)

127. mál, útfærsla fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var nú ekki ætlun mín að lengja þessar umr. mikið, úr því sem orðið er. En það var fyrst og fremst eitt atriði, sem ég vildi að kæmi nokkru skýrar fram í beinu framhaldi af því, sem ég hafði sagt, þegar ég tók til máls um þetta mál fyrr í þessum umr. Ég vék nokkrum spurningum að hæstv. ríkisstj. og spurðist fyrir um það, hvað ríkisstj. hugsaði sér að gera í þessu stóra og þýðingarmikla máli, sem hér væri hreyft. Það er með öllu óverjandi, tel ég, að þegar mál eins og þetta er lagt fyrir Alþ., víki ríkisstj. sér þannig undan málinu, að hún taki að litlu leyti þátt í umr. um málið og geri sig síðan líklega til þess að leggja málið í n. og láta það ekki hreyfast þar meir. Það er vitanlega ekkert við því að segja, þótt ríkisstj. bendi á það, að hún telji, að sú leið, sem mörkuð er með till., sé ekki sú ákjósanlegasta. En þá er það vitanlega ríkisstjórnarinnar að benda á það, hvernig hún vill vinna að þessu þýðingarmikla máli. Ég minntist á það, hvort það væri t.d. betur að skapi ríkisstj., að skipuð yrði n. allra þingflokkanna til þess að athuga um það, hvernig ætti að vinna að framgangi þess, sem till. fjallar um. Það er vitanlega alveg sjálfsagt að reyna að samstilla sem flesta krafta hér á Alþ. um þá baráttuaðferð, sem tekin verður í þessu máli. Það hefur verið reynt að standa þannig að landhelgismálinu áður og þannig hefur m.a. verið farið að, þegar till. hafa komið fram hér á Alþ. frá einstökum þm., sem að sjálfsögðu hafa miðast nokkuð við sérstaka hagsmuni umbjóðenda þeirra. En ég vil nú spyrja um það enn einu sinni: Getur ríkisstj. ekki hugsað sér það í þessu máli, að það verði sett n. skipuð fulltrúum frá öllum þingflokkum til þess að reyna að koma sér saman um það, hvernig eigi að vinna að lausn þessa máls, þ.e.a.s. að því, að stærri hluti af landgrunnssvæðinu við landið færist inn fyrir eða inn í íslenzku fiskveiðilandhelgina, heldur en nú er. Þetta er yfirlýst stefna Alþ. og það er enginn vafi á því, að öll þjóðin styður þessa stefnu, en það verður vitanlega að halda áfram eðlilegum vinnubrögðum í þá átt að koma þessu máli fram.

Með þessari till., sem hér liggur fyrir, er það lagt alveg ótvírætt fyrir, að ríkisstj. skuli færa út fiskveiðimörkin fyrir Vestfjörðum, þannig að allt landgrunnið þar verði innan fiskveiðilandhelginnar og í till. er við það miðað, að þetta sé gert fyrir tiltekinn tíma.

Ég sé ekki ástæðu til þess að eyða hér löngu máli í það að deila um ýmis þau atriði, sem komu fram í þeim umr., sem hér áttu sér stað fyrir nokkrum dögum og hæstv. forsrh. tók þátt í. Það var þó eitt atriði, sem mér þykir rétt að víkja aðeins að. Það var næstum að skilja á máli hans, að þeir, sem að þessari till. stæðu og þeir, sem vildu nú ráðast í nýja útfærslu, ætluðu sér ekki að fara að lögum í þessu máli, en það hefði hins vegar alltaf verið afstaða Íslendinga og ætti að vera afstaða Íslendinga að fara að alþjóðalögum varðandi landhelgismálið sem önnur mál. Ég hélt, að það þyrfti ekki að taka það fram, það hefur svo oft verið gert áður og um það eiga ekki að verða neinar deilur, að það eru ekki viðurkennd nein alþjóðalög um víðáttu fiskveiðilandhelgi. Það eru engin viðurkennd alþjóðalög um víðáttu slíkrar landhelgi. Það er því ekki verið að leggja neitt til um það að brjóta alþjóðalög. En hitt gefur líka alveg auga leið, að vegna þess að það eru ekki til viðurkennd alþjóðalög um víðáttu landhelginnar, getur verið erfitt að fá Alþjóðadómstólinn til þess að kveða upp dóm um það, að tiltekin útfærsla sé í samræmi við alþjóðalög. Frammi fyrir þessum vanda stóðum við einnig, þegar við börðumst fyrir 12 mílna útfærslunni. Það var reynt af andstæðingum okkar að halda því þá fram, að við værum að brjóta alþjóðalög. Við neituðum því allan tímann, af því að við bentum á, að það væri í rauninni þegar viðurkennt, að hin gamla, viðurkennda alþjóðaregla um 3 mílur væri niður fallin, því að svo mikill fjöldi þjóða í heiminum hafði þá gert samþykktir gegn þriggja mílna reglunni, að því hafði verið slegið föstu af fjölmennri nefnd alþjóðalögfræðinga, að það væru ekki til nein alþjóðalög um víðáttu landhelginnar.

Við skulum því ekki ræða þannig um þetta mál, að einn taki sér þá stöðu í málinu, að hann ætli að brjóta lög til þess að koma máli sínu fram, en annar ætli sér að fara eftir lögum. Nei, okkar vandi í þessum efnum er augljóslega sá, að við þurfum að koma fram þeirri stækkun á okkar fiskveiðilandhelgi, sem Alþ. hefur gert samþykkt um, þannig að allt landgrunnssvæðið verði innan landhelginnar. Það eru engin skýr alþjóðalög til um það, hvernig hægt sé að framkvæma slíka breytingu, en þá verðum við, eins og við höfum gert fram til þessa í baráttu okkar í landhelgismálinu, að velja okkur áfanga hverju sinni og reyna að byggja málið þannig upp, að sem mest samstaða sé um baráttu fyrir þeim áfanga í hvert skipti, að mögulegt er og því er það, sem ég hef lýst hér eftir því við hæstv. ríkisstj.: Hvað vill hún gera í þessu máli? Hvernig ætlar hún að standa að því að framkvæma vilja Alþ., yfirlýsta stefnu Alþ. um það, að landgrunnið skuli verða fiskveiðilandhelgi Íslands? Hvernig ætlar hún sér að standa að málinu? Getur hún ekki t.d. hugsað sér það, að sett verði slík n., sem ég hef minnzt á, til þess þó a.m.k. að reyna að samstilla kraftana hér um það, hvernig að málinu skuli staðið, ef hún getur ekki fallizt á það að ganga hér beint til verks, eins og lagt er til í þessari till.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar, en ég vænti þess að heyra hér frá hæstv. ríkisstj., áður en þessari umr. lýkur eða þá a.m.k. alveg skýr svör við þessari spurningu, á meðan sú n. starfar að málinu, sem kemur til með að fá það hér samkv. réttum reglum. Ég heyrði það, að forseti gerði ráð fyrir því, að þessu máli yrði vísað til utanrmn. Það tel ég í mesta máta óeðlilegt. Við höfum ekki viðurkennt það og viðurkennum það ekki, að íslenzka fiskveiðilandhelgin sé utanríkismál. Við eigum að vísa þessu máli til allshn., en ekki utanrmn., á því stigi, sem málið er nú. Og ég fyrir mitt leyti geri það að minni till., að þessari till. verði vísað til allshn., en ekki utanrmn.