21.10.1964
Sameinað þing: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í D-deild Alþingistíðinda. (3127)

15. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér hefur verið rætt sérstaklega, eins og fyrirspurnin gaf tilefni til, um bráðabirgðaálit þeirrar n., er skipuð var fyrr á þessu ári til að athuga aukinn iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum, þar sem atvinna er ónóg og hefur einkum verið rætt um atvinnuástand í Norðurlandskjördæmi vestra og einnig í kauptúnum við vestanverðan Húnaflóa, í Vestfjarðakjördæmi.

Ég vil nú vænta þess, að þær ábendingar, sem komið hafa frá þessari nefnd, verði m.a. til þess, að það verði gert, sem nauðsynlegt er, af hálfu þess opinbera til þess að styðja bráðabirgðaráðstafanir til lausnar á vanda, sem þar er um að ræða. En hitt sýnist mér alveg ljóst, að til þess að koma þessum málum í æskilegt horf í framtíðinni og finna upp ráð, sem duga til frambúðar til þess að viðhalda byggðinni í hinum ýmsu landshlutum, þarf að koma upp sérstakri stofnun, sérstakri stofnun, sam annist áætlanagerð og rannsóknarstörf í þessu sambandi og hún þarf að hafa yfir að ráða verulegu fjármagni til þess að geta veitt fjárhagslegan stuðning til uppbyggingar atvinnufyrirtækja á hinum ýmsu stöðum víðs vegar um landið. Og mér þykir það ánægjulegt, að það hefur verið á þetta minnzt hér af öðrum, þessa þörf og vitnað til Norðmanna í því efni, bent á, hvað þeir hafa gert og við gætum haft þar fyrirmyndir. Þetta held ég, að sé alveg rétt. Og ég vil einmitt benda á það, að nú á þessum fundi var útbýtt frv. til l. um sérstakar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þetta frv. er flutt af 6 þm. í Nd., og frv. um sama efni hefur verið flutt á undanförnum þingum. Ég vil vænta þess með tilliti til þess, hvernig umr. hafa fallið hér um þetta mál, þessa fsp., að þessu frv. verði betur tekið á þessu þingi, en áður og nú verði gerð alvara úr því að koma á fót þessari sérstöku nauðsynlegu stofnun og veita henni verulegt fjármagn til umráða.