02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (3200)

215. mál, Aflatryggingasjóður

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. skýr og greinargóð svör við fsp. minni. Ég ætla, að það sé rétt, að þingheimur hugleiði þetta mál nokkuð og vil nú við þetta tækifæri aðeins benda á það, að þarna blasir við vandamál, sem raunar er ekki Alþingi ókunnugt áður, en kemur hér enn fram í mjög skýru ljósi og það er vandamálið með togaraútgerð Íslendinga í dag. Vissulega þarf að taka á því af fullri festu og reyna að rannsaka það niður í kjölinn, hvað rétt er að gera í því mikla vandamáli.

Það er auðséð, að nú standa sakir þannig með aflatryggingasjóð, að togaradeildin er orðin stórskuldug, þó að hinar og þá sérstaklega almenna fiskveiðideildin standi sig mjög sæmilega og allvel. Og þetta gerist jafnframt því, sem Alþingi hefur á annan hátt veitt allverulegan styrk til togaraútgerðar í landinu á undanförnum árum. Ég held, að það, sem lesið verður út úr þessari skýrslu, sé fyrst og fremst þetta, við hversu erfitt vandamál hér er að etja og það verði að freista þess að leysa það. Það, sem helzt hefur verið til umræðu, að því er mér skilst, núna upp á síðkastið, er það, hvort lausnin væri að einhverju leyti fólgin í því að leyfa togurunum að veiða að einhverju leyti innan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar. Ég skal ekkert á móti því mæla, að þetta atriði sé kannað af hinum hæfustu mönnum, en ég efast mjög um, að það sé rétta lausnin eða a.m.k. eina lausnin á vanda togaraútgerðarinnar á dag.