02.12.1964
Sameinað þing: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (3210)

216. mál, landleið til Vestur- og Norðurlands (stytting)

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir hans svar, sem ég hef engar aths. við að gera, því að mér er það ljóst, að þetta mál var ekki lengra á veg komið, en hann skýrði frá og tel þó, að nokkuð sé að gert og það sé á réttri leið.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér í sambandi við kostnaðinn og fram kom hér fyrr í umr. um vegagerðina, er það mín skoðun og tel ég mig hafa fyrir því athugun, sem ég hef gert á fjárl. íslenzka ríkisins og tekjum þeim, sem íslenzka ríkið hefur haft af því, að hér á landi hafa verið lagðir vegir, þá er svo komið, að meiri tekjur hefur íslenzka ríkið haft af bifreiðum og bifreiðavarahlutum og öðru í sambandi við umferðina, heldur en það hefur lagt til frá upphafi vega, svo að þótt það væri reiknað þannig beint, þá hefur verið hagnaður fyrir íslenzka ríkið að hafa lagt vegina.

En það vil ég taka undir með hæstv. ráðh., að það, sem máli skiptir í sambandi við vegagerðir, er ekki sízt, þegar á að fara að endurbæta gamla vegakerfið, þ.e. að gera samanburð á þeim leiðum, er til greina koma. Það er orðið tímabært að fara að gera samanburð á þeim leiðum, sem fara á í sambandi við að stytta landleiðina til Borgarfjarðarhéraðs og Vestur- og Norðurlands og ég er sannfærður um, eða vonast a.m.k. til þess, að þær leiðir verði valdar, sem skynsamlegastar eru. Og þá ber einnig að taka tillit til þess, að fyrir hina þungu vöruflutningabíla skiptir það miklu máli, að landið, sem farið er um, sé nokkuð lárétt, því að brekkurnar reynast þeim erfiðar.

Ég treysti því, að áfram verði unnið að því að leysa úr þeim málum, sem þáltill. frá 30. maí 1958 fór fram á og þakka svo svörin.