10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í D-deild Alþingistíðinda. (3251)

114. mál, hlustunarskilyrði útvarps á Norður- og Austurlandi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég vil í lok þessara umr. víkja örfáum orðum að þrem atriðum, sem ræðumenn hafa nefnt.

Í fyrsta lagi tel ég rétt að endurtaka og undirstrika sérstaklega, að mér og öllum forráðamönnum ríkisútvarpsins er algerlega ljóst, að það er að sjálfsögðu óviðunandi ástand til frambúðar, að íslenzka ríkisútvarpið skuli ekki ná til allra landshluta og veita þjónustu öllum þeim heimilum, sem óska að njóta þjónustu þess. Og það mun allt verða gert, sem fært og skynsamlegt þykir, til þess að ráða bót á þessu ástandi. Hins vegar er það misskilningur, sem kom fram hjá einum hv. þm. að hér sé um 34 ára gamalt vandamál að ræða. Hér er um vandamál að ræða, sem hefur að verulegu leyti skapazt á undanförnum rúmum áratug í kjölfar breytinga, sem orðið hafa erlendis fyrst og fremst á styrkleika útvarpsstöðva. Og það, sem hefur gert málið torleyst tæknilega séð, er það, hversu örar breytingar hafa orðið á útvarpstækni á allra síðustu árum, þannig að erfiðara og erfiðara hefur orðið með hverju árinu sem líður að kveða á um það fyrir tæknifróða menn, fyrir verkfræðinga og tæknifræðinga, hvaða lausn á þessu vandamáli, sem hér er um að ræða, sé tæknilega séð framkvæmanlegust og efnahagslega séð hagkvæmust. Ég vil undirstrika það, sem raunar kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., formanni útvarpsráðs, að hlustunarerfiðleikarnir á Norðurlandi og Austurlandi hafa ekki verið og eru ekki fyrst og fremst fjárhagslegt vandamál, heldur fyrst og fremst, að ég ekki segi eingöngu tæknilegt vandamál. Það skortir sem sagt ekki vilja þeirra manna, sem fyrir þessum málum ráða, til þess að leysa vandann. Það skortir skynsamleg úrræði af hálfu tækninnar, til þess að hægt sé að kveða á um það, hvaða lausn sé sú, sem helzt ætti að velja.

Annað atriði, sem ég vildi nefna, var það, sem fram kom, að kvartanir hefðu borizt undanfarið um hlustunarerfiðleika á Vestfjörðum. Það er rétt, að bæði ráðuneytinu og ríkisútvarpinu hafa borizt kvartanir um þetta efni. Um það hef ég rætt alveg sérstaklaga við forráðamenn útvarpsins og verkfræðinga landssímans og þeir hafa fullvissað mig um, að þeir erfiðleikar séu algerlega tímabundnir og standi í sambandi við hina lágu, litlu orku, sem notuð hefur verið undanfarið til sendingar á dagskrá útvarpsins vegna hinna miklu framkvæmda, sem staðið hafa yfir við hinn nýja aðalsendi útvarpsins á Vatnsendahæð. Eins og ég gat um áður, verður hinn nýi sendir tekinn í notkun einhvern allra næstu daga og standa þá vonir til þess, að full bót verði ráðin á hlustunarörðugleikum Vestfirðinga.

Hið þriðja, sem ég vildi nefna í tilefni af því, sem fram hefur komið, er að mér vitanlega hefur enginn nokkru sinni látið sér til hugar koma, að fyrirhugaðar framkvæmdir við sjónvarp ættu á einn eða neinn hátt að verða til þess að draga úr eða skerða fjárhagsmöguleika hljóðvarpsins eða útvarpsins, eins og við nú köllum það. Sjónvarpinu hefur af Alþingi verið séð fyrir ákveðnum tekjustofnum. Þeir og eingöngu þeir munu ganga til sjónvarpsframkvæmdanna. Þeir tekjustofnar, sem ríkisútvarpið hefur nú til hljóðvarpsins, munu að sjá sögðu standa algerlega óskertir, svo að allur ótti um það, að fyrirhugaðar framkvæmdir við sjónvarp muni að einhverju leyti rýra aðstöðu hljóðvarpsins og þannig tefja fyrir nauðsynlegum, sjálfsögðum framkvæmdum í, því að bæta hlustunarskilyrði á Austurlandi, sá ótti er algerlega ástæðulaus. En hitt bið ég hv. alþm. að muna, að ríkisútvarpið hefur einmitt undanfarin ár staðið í mjög fjárfrekum framkvæmdum að endurbótum á hljóðvarpssendingarskilyrðum, og á ég þar auðvitað við hinn mikla og dýra höfuðsendi útvarpsins á Vatnsendahæð, sem nú bráðlega verðu tekinn í notkun. Þegar þeirri framkvæmd er lokið, rýmkast auðvitað hagur ríkisútvarpsins mjög verulega, svo að ég held, að ástæðulaust sé að óttast, að ekki verði næg fjárráð fyrir hendi til þess að framkvæma þær ráðstafanir til nauðsynlegra endurbóta á hlustunarskilyrðum á Norðurlandi og Austurlandi, sem tæknifróðir menn koma sér saman um að séu skynsamlegar og réttmætar.