10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í D-deild Alþingistíðinda. (3252)

114. mál, hlustunarskilyrði útvarps á Norður- og Austurlandi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ummæli hæstv. ráðh. um það, að erfiðleikar á að bæta hlustunarskilyrðin séu ekki fjárhagslegs eðlis, vil ég leyfa mér að skilja á þá leið, að séð muni verða fyrir þeim fjármunum, sem til þess þurfi að koma á þeim fraakvæmdum, sem hér er um að ræða. En á þessum umr., sem hér hafa farið fram, skilst mér, að ráðið sé fundið, það sé aðeins um að ræða að koma því í framkvæmd, og framkvæmd kostar fjármagn.

Eins og sakir standa, er útvarpinu ekki heimilt að verja tekjuafgangi sínum í þessu skyni nema allt að1 millj. kr. samkv. 22. gr. fjárl. Og till. sú, sem við hv. 2. þm. Austf. fluttum í vetur, var um að auka þessa heimild. En nú eftir það, sem ráðherra hefur sagt, geri ég ráð fyrir,að fundin muni vera einhver ráð og lagðar fram till. um nýja fjáröflun í þessu skyni.

Hv. 2. þm. Vestf. taldi mig, að mér skildist, ekki hafa komizt rétt að orði áðan, þegar ég talaði um sjónvarp á Suðvesturlandi eða sjónvarp fyrir Suðvesturland. Ég hef haft undir höndum áætlun þá sem gerð hefur verið um sjónvarp hér á landi og af henni verður ekki annað skilið, enda ekki um annað að ræða en framkvæmdir hefjist á því að koma upp sjónvarpi fyrir Suðvesturland. Og þegar það hefur verið gert, verður sjónvarp á Suðvesturlandi. Hins vegar sagði hv. þm., að gerð hefði verið 5 ára áætlun og 7 ára áætlun um sjónvarp um allt land og það er einmitt það, sem um er að ræða. Það er gert ráð fyrir, að sjónvarpið komi fyrst upp á Suðvesturlandi og síðan komi það smátt og smátt annars staðar á landinu, þannig að jafnvel þótt þessi tilraun heppnist, þ.e.a.s. tilraun sú til að koma sjónvarpinu um allt landið, jafnvel þó að hún heppnist, mun líða alllangur tími þannig, að hér verður sjónvarp fyrir Suðvesturland, en í sumum öðrum landshlutum ekki sjónvarp. Það er vitanlega þetta, sem ég átti við í ræðu minni áðan.