03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í D-deild Alþingistíðinda. (3259)

128. mál, skólamál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er um það spurt, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hafi gert til þess að tryggja það, að í öllum skólahéruðum landsins geti börn lokið skyldunámi samkv. fræðslulögum. Með l. nr. 22 1946, um skólakerfi og fræðsluskyldu, var fræðsluskylda hér á landi lengd um eitt ár og hefur síðan verið frá 7–15 ára aldurs. Þó getur fræðsluráð ákveðið með samþykki fræðslumálastjórnar, að fræðsluskylda í einu eða fleiri skólahverfum innan fræðsluhéraðsins skuli aðeins ná til 14 ára aldurs, eins og áður var, ef hlutaðeigandi skólanefnd óskar þess. Þegar fræðslulögin frá 1946 tóku gildi, var víða í kaupstöðum og kauptúnum skortur á aðstöðu til þess að framkvæma fræðsluskyldu til 15 ára aldurs þegar í stað. Það var því lagt á vald aðila í heimahéraði að kveða á um, hvort eða hvenær fræðsluskyldan skyldi lengd um eitt ár og ná til 15 ára aldurs. Lenging fræðsluskyldu hefur talsverðan kostnað í för með sér, og var þá og er enn litið svo á, að ekki sé rétt að leggja slíkar fjárhagsskuldbindingar á sveitarsjóði nema með fullu samþykki þeirra. Alls staðar þar, sem fræðsluskylda er enn aðeins til 14 ára aldurs, er það samkv. ákvörðun heimaaðila. En víðast hvar í sveitum og í örfáum kauptúnum er fræðsluskyldan nú aðeins til 14 ára aldurs. Tala þeirra skólahverfa, sem þetta á við um, er 138. Menntmrn. hefur hins vegar aldrei synjað ósk eða tilmælum um lengingu fræðsluskyldu úr 14 árum í 15 ár, né heldur staðið á ríkissjóði að inna af höndum hlutdeild sína í þeim kostnaðarauka, sem af slíku leiddi. Í nokkrum þeirra skólahverf , sem hafa enn fræðsluskyldu til 14 ára aldurs, hafa verið starfræktir unglingaskólar og hafa þeir fengið ríkisstyrk af sérstakri fjárveitingu á fjárl., sem ætluð er til unglingafræðslu samkv. till. fræðslumálastjóra.

Ein helzta forsenda þess, að fræðsluskylda til 15 ára aldurs komist á um land allt, er sú, að lítil skólahverfi séu sameinuð í stærri heildir, enda er það einmitt í fámennustu skólahverfunum, sem fræðsluskyldan nær ekki nema til 14 ára aldurs. Á undanförnum árum hafa þess vegna, fyrir atbeina fræðslumálastjórnarinnar, námsstjóra og í sumum tilfellum fræðsluráð unnið ötullega að því að sameina skólahverfi um heimavistarbarnaskóla og orðið verulega ágengt eins og sjá má af því, að 72 hreppar í 14 ýslum hafa sameinazt um skóla á 16 stöðum. En auk þess eru góðar horfur á sameining á fleiri stöðum, t.d. í Austur-Barðastrandarsýslu, Skagafirði, Eyjafirði, Suður-Þingeyjarsýslu, Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu, enda stöðugt unnið að því. Víða hafa þó eintakir hreppar staðið gegn sameiningu margir hreppa í eitt skólahverfí. Þannig hafa þeir torveldað mjög lengingu fræðsluskyldunnar, þar sem allir þeir, sem kunnugir eru þessum málum, munu verða sammála um, að ekki sé unnt að reka unglingaskóla með sómasamlegu móti með 3–6 nemendum í aldursárgangi og er sameining skólahverfa því í mörgum tilfellum beinlínis forsenda fyrir lengingu fræðsluskyldunnar.

Sem sennilegar skýringar á því, að fræðsluskylda til 15 ára aldurs skuli ekki alls staðar komin á, þar sem skólahverfi hafa verið sameinuð, má einkum tilfæra tvær ástæður. Önnur er sú, að sennilega þykir hlutaðeigandi heimaaðilum nægilegur áfangi að ráðast fyrst í stað í byggingu yfir nemendur til 14 ára aldurs, þ.e. það, sem fræðsluskyldan náði til í framkvæmd, þegar sameiningin átti sér stað, og síðan að bæta við heimavistum og e.t.v. skólastofum fyrir einn aldursárgang til viðbótar. En þar sem fyrsta áfanga þessara skóla er ýmist ólokið, nýlokið eða jafnvel ekki hafin, er tæpast við því að búast, að heimaaðilar hafi beitt sér fyrir framkvæmd framlengingar til þessa, en hins vegar má vænta hennar mjög víða á næstunni. Hin ástæðan er sú, að í sumum héruðum hafa nemendur átt aðgang að héraðsskólum og telja þá forráðamenn heima fyrir ekki ástæðu til lengingar fræðsluskyldunnar. Þess verður þá að geta, til þess að ekkert falli undan, að í ýmsum tilfellum er takmarkaður áhugi heima fyrir og jafnvel tregða á því að framlengja fræðsluskylduna til 15 ára aldurs.

Ég hef beðið sérfróða menn um að áætla, hversu margir unglingar á aldrinum 14–15 ára hafi á s.1. ári verið í þeim 138 skólahverfum. þar sem fræðsluskylda er nú aðeins til 14 ára aldurs. Tala nemenda 14–15 ára var á s.l. ári talin vera 3.950 á landinu öllu. Tala nemenda í þeim 138 skólahverfum, þar sem fræðsluskylda er til 14 ára aldurs, var talin vera um 880 á þessu aldursskeiði. Af þessum nemendafjölda munu tæplega 300 vera í unglingaskólum utan heimahéraðsins, en tæplega 400 nemendur á þessum aldri, eða 14–15 ára, munu ekki vera í skóla eða um 10% heildarnemendafjöldans á aldrinum 14–15 ára. Erfitt er að segja um, hversu margir af þessum tæplega 400 unglingum hefðu óskað þess að komast í unglingaskóla eða m.ö.o.: erfitt er að segja til um, hvort skortur á skólum hefur valdið því, að þeir eru ekki við skólanám. Einmitt til þess að fá upplýsingar um þetta óskaði ég þess fyrir skömmu, að það væri kannað í tilteknum landshluta, hver væru við nám af börnum þeirra skólahverfa, þar sem fræðsluskyldu lýkur við 14 ára aldur. Var þessi athugun látin taka til Norðurlands, þ.e.a.s. Húnavatnssýslu, Skagafjarðarsýslu, Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslna. Tala þeirra barna, sem luku fullnaðarprófi vorið 1964 í skólahverfum, þar sem fræðsluskylda er aðeins til 14 ára aldurs, var 207 í þessum sýslum öllum. Af þessum börnum voru 80 við nám í heimasýslu, en 27 í annarri sýslu. 90 af börnunum sóttu ekki um neins konar skólavist, en 13 höfðu sótt um skólavist, en ekki komizt að sökum þrengsla. Um 17 nemendur tókst ekki að afla upplýsinga. Um þá 13 nemendur, sem ekki komust að í þeim skólum, þar sem þeir sóttu um skólavist, gildir það væntanlega, að þeir munu síðar verða taldir hafa forgang, þannig að þetta jafngildir að sjálfsögðu ekki því, að skólagönguskilyrðum þeirra sé lokið. Einmitt í morgun frétti ég um niðurstöður hliðstæðra athugana í Rangárvallasýslu. Þar höfðu allir þeir unglingar, sem óskuðu vístar í unglingaskóla að loknu skyldunámi,fengið hana.

Þessar bráðabirgðaathuganir virðast ótvírætt benda til þess, að það sé mjög orðum aukið, sem nokkuð hefur verið haldið á lofti undanfarið, að mjög alvarlega skorti á það, að nemendur eigi kost á því að njóta fræðslu. Í því sambandi er þess fyrst og fremst að geta, að þar sem fræðsluskyldan nær ekki til 15 ára aldurs, heldur aðeins til 14 ára aldurs, þá er það vegna ákvörðunar heimaaðila, en ekki fræðsluyfirvalda ríkisins. Og jafnvel þar sem fræðsluskylda er ekki nema til 14 ára aldurs, sækir verulegur hluti unglinganna á 15. ári unglingaskóla, ýmist í heimasýslu eða öðrum sýslum og eru þess tiltölulega mjög fá dæmi, að unglingum á þessum aldri sé synjað um skólavist sökum skorts á skólum.

Hitt er svo auðvitað annað mál, að engum einasta manni ætti að þurfa að synja um þá skólavist, sem hann óskar eftir, einkum innan þess marks, sem almenn löggjöf setur um fræðsluskyldu, þ.e. fram til 15 ára aldurs. Þetta hafa fræðsluyfirvöld gert sér ljóst. Einmitt nú nýlega hefur menntmrn. þess vegna beitt sér fyrir því, að gert verði samræmt átak til að koma á fræðsluskyldu til 15 ára aldurs um allt land.

Hinn 10. febr. s.l. fól menntmrn. námsstjórum að vinna að lausn þessa máls og skrifaði þeim í því sambandi að undangengnum ýtarlegum viðræðum svo hljóðandi bréf, sem ég leyfi mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

Menntmrn. hefur ákveðið að láta nú þegar fara fram athugun á því, á hvern hátt og með hvaða ráðstöfunum unnt sé að taka sem fyrst að framkvæma gildandi lagaákvæði um fræðsluskyldu til 15 ára aldurs, þar sem fræðsluskyldan nær nú ekki nema til 14 ára aldurs. Er þá gert ráð fyrir því, að þessi viðbót við framkvæmd fræðsluskyldunnar sé háð sömu takmörkunum og nú gilda um framkvæmd fræðsluskyldunnar til 14 ára aldurs á hinum ýmsu stöðum, t.d. að því er varðar fjölda nemenda í aldursflokkum, lengd árlegs námstíma í hlutfalli við það skilyrði, til að fá hæfa kennara o.s.frv.

Ríkisvaldið er reiðubúið til þess að greiða sinn hluta af þeim kostnaðarauka, sem af þessari lengingu fræðsluskyldunnar leiðir, þar með talin kennaralaun, húsaleiga eða lagfæringar á skólahúsnæði. Þátttaka ríkissjóðs í kostnaðinum fer eftir ákvæðum laga nr. 41 1955: a) Vegna nemenda til 13 ára aldurs eftir ákvæðum um hlutdeild í kostnaði barnafræðslu. b) Vegna nemenda 13–15 ára eftir ákvæðum um hlutdeild í kostnaði vegna gagnfræðanáms. Kostnaðinum skal skipt hlutfallslega á hvort skólastig, barnafræðslu og unglingastig, eftir tölu skólanemenda. Ríkisvaldið er reiðubúið til aðildar sinnar, strax og hlutaðeigandi skólanefnd eða fræðsluráð, að fengnu samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar, æskir þess, að fræðsluskylda til 15 ára aldurs komi til framkvæmda og aðstæður til skólahaldsins eru fyrir hendi. Ef skortur er á fullnægjandi skólahúsnæði, telur ráðuneytið eðlilegt, að útvegað verði leiguhúsnæði til skólahaldsins, hið hæfasta, er völ er á, á hverjum stað, svo sem nú er gert vegna fræðsluskyldunnar til 14 ára aldurs.

Ráðuneytið telur eðlilegt, að kennsla á fræðsluskyldualdri fari yfirleitt fram í einum og sama akóla, skólahúsum barnafræðslunnar, þar sem þau eru nú til og leiguhúsnæði, þar til byggðir hafa verið skólar fyrir alli skyldunámið samkv. áætlunum um sameiningu smærri skólahverfa um skóla.

Á vegum ráðuneytisins er nú verið að vinna að heildaráætlunum um skólabyggingar í landinu og er gert ráð fyrir því, að röð framkvæmda fari eftir því, hvar þörfin verður brýnust hverju sinni, miðað við það fé, sem til skólabygginga er veitt af Alþingi og sveitarstjórnum.

Menntmrn. æskir þess, að námsstjórar framkvæmi athugun þá, sem hér er um rætt og hafi við framkvæmd hennar samráð við ráðuneytisstjóra menntmrn., fræðslumálastjóra og fjármálaeftirlitsmann skóla. Er þess óskað, að námsstjórarnir skili álitsgerð um niðurstöður athugana sinna og till. sínum til menntmrn. svo snemma, að þær breytingar, sem þeir leggja til að gerðar verði, geti komið til framkvæmda á næsta hausti.“ — Og hér lýkur bréfinu.

Í þessu bréfi kemur fram sú eindregna stefna ríkisstj. að vinna að því, að fræðsluskylda til 15 ára aldurs komi sem allra fyrst til framkvæmda um land allt. Námsstjórarnir hafa umboð til þess að tjá hlutaðeigandi skólanefndum eða fræðsluráðum, að ríkisvaldið sé reiðubúið þegar í stað til þess að greiða sinn hluta af kostnaðarauka, sem af slíkri lengingu fræðsluskyldunnar leiðir og stuðla með öllum ráðum að því, að húsnæðismálin leysist á sem hagkvæmastan hátt, miðað við aðstæður á hverjum stað. Er það eindregin von mín, að þetta átak leiði til þess, að þess verði ekki langt að bíða, að fræðsluskylda til fimmtán ára aldurs verði komin til framkvæmda um allt land.

Í öðru lagi er um það spurt, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hyggist gera til þess að bæta aðstöðu unglinga í strjálbýlinu til þess að ljúka miðskólanámi í heimahéraði. Ég tel nauðsynlegt að bæta aðstöðu unglinga til þess að ljúka miðskólanámi í heimahéraði frá því, sem nú er. Nauðsynlegt er þó að gera sér grein fyrir því, að meiri erfiðleikar eru á því að halda uppi unglingafræðslu í strjálbýlinu en barnafræðslu. Ég gat þess áðan, að í þeim 138 skólahverfum, þar sem fræðsluskylda er nú aðeins til 14 ára aldurs, sé nemendafjöldi í hverjum árgangi um 680 eða aðeins tæplega 5 að meðaltali í hverju skólahverfi. Það er til, að enginn nemandi sé í skólahverfi á 15. aldursári og tala þeirra getur farið upp í 20, en til þess að unglingar hljóti viðhlítandi kennslu, er æskilegt, að hver árgangur sé sérstök kennslueining. Tölurnar, sem ég var að nefna, benda þó eindregið til þess, að auðvitað sé ógerningur að halda uppi unglingakennslu í hverju barnaskólastigshverfi fyrir sig. Þess vegna verður að leggja á það megináherzlu að sameina akólahverfi á unglinga- og gagnfræðastiginu og er eðlilegast, að ráðstafanir séu gerðar til þess í beinu sambandi við þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera til þess, að fræðsluskylda verði framkvæmd til 15 ára aldurs um land allt. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að talsvert mun létta á héraðsskólunum, ef skyldunámi unglinga lyki að mestu eða öllu leyti í öðrum skólum, eins og stefnt er að varðandi framkvæmd skólaskyldunnar fram til 15 ára aldurs. Með því móti gætu héraðsskólarnir tekið við fleiri nemendum til miðskólaprófs. Þá er og athugandi að reisa heimavistir við einhverja þá miðskóla, sem þegar eru starfandi, svo sem gert hefur verið í Stykkishólmi. Komið hefur til tals, að reist verði heimavist við miðskólann á Sauðárkróki, og er þá fyrirhuga, að nemendur úr Skagafirði geti lokið miðskólaprófi á Sauðárkróki. Það hefur og komi til greina, að sami háttur verði hafður á í Dalvík. Enn fremur má geta þess, að þegar hafa borizt óskir um, að starfræktar verði miðskóladeildir við unglingaskólana í Ólafsvík, á Egilsstöðum, Seyðisfirði og Höfn í Hornafirði næsta skólaár, en á þessum stöðum hafa að undanförnu verið 2 ára unglingaskólar. Á fleiri stöðum mun vera stefnt að þessu, eftir því sem aðstæður leyfa. Ríkisvaldið mun gera allt, sem í þess valdi stendur, til þess að hraða því, að miðskóladeildum verði sem víðast komið á og sem fyrst. Nauðsynlegt er þó, að fylgt sé vandlega saminni og fyrirfram gerðri áætlun um þessi efni. Þess vegna lýk ég þess svari mínu með því að láta þess getið, að um nokkurt skeið undanfarið hefur Efnahagsstofnunin samkv. beiðni menntmrn. unnið að mjög ýtarlegri framkvæmdaáætlun um skólabyggingar á næstu árum og er hún gerð á grundvelli athugunar á þörfinni fyrir skólahúsnæði og athugun á því, hvernig hagkvæmast muni vera að haga byggingarframkvæmdum til þess að fullnægja þeirri þörf. Er þessari framkvæmdaáætlun einmitt að verða lokið núna þessa dagana og hef ég vonað, að unnt mundi verða að byrja að vinna samkv. henni við skólabyggingaframkvæmdir samkv. fjárlögum á þessu ári, en hún ætti síðan að verða fjárveitingavaldinu til mikillar og góðrar leiðbeiningar um fjárveitingar í fjárl. á næstu árum, auk þess sem fé, sem ríki og sveitarfélög veita til þessara mála, ætti að geta nýtzt miklu betur, ef fylgt er slíkri samræmdri áætlun. Eitt brýnasta verkefni á sviði skólabygginga er, að byggingartími einstakra skólamannvirkja sé styttur mjög frá því, sem, átt hefur sér stað undanfarið, auk þess sem vanda þarf betur röð framkvæmdanna en átt hefur sér stað. Þá er og mjög nauðsynlegt að gera alla skiptingu byggingarkostnaða milli ríkis og sveitarfélaga og yfirleitt öll reikningsskil þessara aðila í sambandi við byggingu skólahúsa og greiðslu rekstrarkostnaðar skólanna miklu einfaldari en nú á sér stað. Þess vegna hef ég efnt til þess, að lög um greiðslu skólakostnaðar, sem eru frá árinu 1955, verði endurskoðuð og hefur menntmrn. skipað nefnd embættismanna til að vinna það verk. Vona ég, að sú nefnd geti lokið störfum í sumar, þannig að hægt verði að leggja frv. um nýja skólakostnaðarlöggjöf fyrir næsta Alþingi.