17.03.1965
Sameinað þing: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í D-deild Alþingistíðinda. (3280)

219. mál, ríkisábyrgðir

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 185 höfum við 8. þm. Sunnl. leyft okkur að flytja fsp. til hæstv. fjmrh. um ríkisábyrgðir. Áður en l. um ríkisábyrgðasjóð voru sett, var sú regla gildandi, að með ríkisreikningi hverju sinni voru prentaðar skrár yfir ríkisábyrgðir útlagðar á liðnu ári. En eftir að ríkisábyrgðasjóðurinn tók til starfa, hefur þessu verið breytt þannig, að skrá þessi fylgir ekki ríkisreikningnum og þess vegna hefur verið tekin upp sú regla að spyrja hæstv. ráðh. um þessar ríkisábyrgðir og hefur hæstv. ráðh. svarað þeim. Ég tel, að eðlilegast væri, að sú regla væri upp tekin, að skýrslu eins og þeirri, sem hæstv. ráðh. hefur látið útbýta, yrði útbýtt á hverju þingi, eigi siðar en í marzmánuði, svo að um þetta fengju hv. alþm. upplýsingar, án þess að til fsp. þyrfti að koma. En þar sem sú regla hefur ekki verið gildandi, höfum við leyft okkur að flytja þá fsp., sem hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hve mikið hefur ríkisábyrgðasjóður greitt vegna ríkisábyrgða árið 1964, fyrir hverja og hve mikið fyrir hvern aðila.

2. Hvaða einstaklingar og fyrirtæki skulda ríkisábyrgðasjóði í árslok 1964, og hver er skuld hvers um sig.“

Eins og ég gat um áðan, hefur hæstv. fjmrh. látið útbýta skýrslu um greiðslur vegna ríkisábyrgða árið 1964 og skuldir í árslok, eins og farið er fram á í fsp. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir fram, fyrir þetta svar. Ég hef að sjálfsögðu ekki haft tíma til þess að fara yfir það og gera samanburð á eldri árum í þessu tilfelli, en þykist þó sjá það af skýrslunni, þar sem ríkisábyrgðagreiðslur og skuldir vegna annarra ábyrgða eru 100 millj. s.l. ár, þá hefur þetta færzt verulega í aukana hin síðustu ár og ekki verið náð þeim tilgangi ríkisábyrgðasjóði. að koma í veg fyrir, að ábyrgðir féllu á ríkissjóð, eins og mikið var rætt um, þegar þau lög voru sett. Ég sé líka, að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða hjá sumum fyrirtækjum, þar sem það er á annan tug millj. og jafnvel meira en það. Enginn vafi er á því, að það verður að fylgja fast eftir, að ríkisábyrgðir séu ekki greiddar, nema þar sem fullkomin þörf er til þess að leysa úr vandræðum fyrirtækja og alvarleg atvinnustöðvun gæti átt sér stað, en óeðlilegt virðist það vera, að stórar fjárhæðir séu lagðar út fyrir fyrirtæki, sem í augum almennings virðast hafa góða afkomu. Um þetta ætla ég ekki að fjölyrða að sinni, en endurtek, að eðlilegast væri, að þessi skýrsla kæmi árlega, og þakka hæstv. ráðh. fyrir hana.