21.04.1965
Sameinað þing: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í D-deild Alþingistíðinda. (3310)

170. mál, starfsfræðsla

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessum umr. En það, sem hæstv. menntmrh. sagði hér næstsíðast um Ólaf Gunnarsson, sem hefur unnið að allra dómi, sem til þekkja, ágætt starf með því að hafa forustu um starfsfræðslu í landinu, gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóða, því að það er ómögulegt að skilja það, sem hæstv. ráðh. sagði um Ólaf Gunnarsson í þessu sambandi, öðruvísi en þannig, að hann vilji koma því inn hjá mönnum, að það sé álit skólamanna, að Ólafur Gunnarsson sé illa hæfur til þess að standa fyrir þessum málum.

Eða hvað eiga slíkar dylgjur að þýða eins og komu fram hjá hæstv. ráðh., ef þær eiga ekki að þýða þetta? T.d. þær, að forráðamenn skóla hafi ekki óskað eftir því, að Ölafur Gunnarsson hefði með höndum stjórn á starfsfræðslu í skólum? Hvað eiga svona dylgjur að þýða, ef þær eiga ekki að þýða eitthvað í þá átt að gefa í skyn, að það sé álit þessara manna, að Ólafur Gunnarsson, sem hefur haft forgöngu um þessi mál, utan skólanna, sé ekki hæfur til að starfa að þeim?

En ég vil spyrja hæstv. menntmrh. um eitt af þessu tilefni, af því að mér finnst óviðkunnanlegt af ráðh. að viðhafa þessi ummæli: Er það venja, að forráðamenn stofnana eins og skóla óski eftir því, að einhver sérstakur maður taki að sér tiltekið starf, áður en embættið er stofnað? Ber að skilja þetta svo, að það sé venja, að forráðamenn skóla t.d. óski eftir því, að einhver tiltekinn maður taki að sér eitthvert tiltekið starf, áður en til slíks starfs hefur verið stofnað? Er það ekki venja, að fyrst sé ákveðið að stofna til embættis eða opinbers starfs og síðan komi það til álita, hver eigi að taka þetta starf að sér?

Við vitum, að það er venjan, að þannig sé haldið á málum, og þess vegna kann ég alls ekki við þennan blæ á frásögn hæstv. ráðh. og treysti mér ekki til að sitja þegjandi undir þessu, því að mér sýnist, að Ólafur Gunnarsson eigi allt annað skilið af hendi íslenzku ríkisstj. og þeirra, sem eiga að hafa áhuga fyrir þessum málum, en að slíkur málflutningur sé viðhafður í hans garð.

Ég held, að það sé réttast fyrir hæstv. ráðh. að viðurkenna, að Ólafur Gunnarsson hefur unnið stórkostlega merkilegt starf, brautryðjendastarf með talsvert óvenjulegum hætti í starfsfræðslu utan skólakerfisins og hér er fyrst og fremst verið að ræða um starfsfræðslu utan skólakerfisins. Og ég hygg, að þeir séu ekki fáir, sem hafa kynnzt störfum Ólafs Gunnarssonar, sem hefðu sannast sagna búizt við því, að hæstv. ríkisstj. mundi semja við Reykjavíkurborg um að fá notið starfskrafta hans á svipaðan hátt og gert hefur verið. Og hefði hæstv. ráðh. allt að einu getað haft þá starfsfræðslu í skólunum, sem honum fannst eðlileg. Ef hæstv. ráðh. vildi ekki, að Ólafur Gunnarsson tæki að sér að stjórna starfsfræðslunni í skólunum, þá var hægt að skipta þessu starfi mætavel og hann hefði getað haft með höndum stjórn á starfsfræðslunni utan skólanna svipað og hann hefur gert, en gert þó meira að, hliðstætt því sem hann hefur gert í Reykjavík. Þar hefur starfsfræðslan verið sérstök námskeið opin öllum.

Ég vildi láta þetta koma fram. Mér finnst það óviðkunnanlegt, að þessar séu þakkirnar, sem Ólafur Gunnarsson fær frá hæstv. ríkisstj. fyrir það mikla starf, sem hann hefur innt af höndum og ég hygg, að hafi verið réttilega lýst hér, að hafi verið með talsvert óvenjulegum hætti. Það hefur verið sköpuð áhugaalda um þetta og slíka áhugaöldu getur enginn annar vakið en sá, sem sjálfur hefur einlægan áhuga og dugnað og myndarskap til að standa fyrir þess háttar starfi. Það að vera svo að læða því inn eins og á milli sviga, eins og hæstv. ráðh. gerði, að einhverjir skólamenn hefðu beðið um, að Ólafur Gunnarsson kæmi ekki aftur í þeirra stofnun, eftir að hann hafi komið einu sinni, það nálgast róg.