14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

1. mál, fjárlög 1965

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það væri að sjálfsögðu ærin ástæða til þess að ræða ýmis atriði í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna og víkja að ýmsu því, sem þar er athugunar vert. En það hefur nú þegar verið gert nokkuð af frsm. minni hl. fjvn., og þessi umr. er sennilega meira ætluð til þess að ræða um einstakar till. heldur en fjárl. almennt, og mun ég því sleppa því að þessu sinni að gera nokkrar almennar aths. að undanskilinni einni. Mér finnst alveg sérstök ástæða til að vekja athygli á því atriði, af því að ég álít það vera hreinan vansa fyrir þingið, og það er sú venja, sem hefur komizt á á undanförnum árum, að áætla tekjubálk fjárl. rangt. Það virðist orðin föst venja hjá hæstv. ríkisstj. og hv. þingmeirihl. að áætla tekjurnar miklu lægri en fyrirsjáanlegt er að þær muni verða og reynslan hefur líka staðfest. Ég vil aðeins í þessu sambandi minna á það, að á árinu 1962 fóru tekjurnar á rekstrarreikningi 303 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Á s.l. ári fóru tekjurnar á rekstrarreikningi ríkisins 323 millj. fram úr áætlun fjárl. Þó að það sé ekki enn komin niðurstaóa fyrir þetta ár, er það þó þegar víst, að tekjurnar munu fara langt fram úr áætlun fjárl. Á sama hátt er líka auðséð, að tekjubálkur þess fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er allt of lágt áætlaður, ef miðað er við reynslu undanfarinna ára og þær horfur, sem eru fram undan í þessum efnum. Þær líkur, sem nú liggja fyrir, benda allar til þess, að árið 1965 muni verða gott ár, og nefni ég það ekki sízt, að horfur eru á því, að verðlag á útflutningsvörum verði hærra á næsta ári en það hefur nokkru sinni verið. Og það skapar að sjálfsögðu á margan hátt aukna tekjumöguleika fyrir ríkissjóð. Það má einnig búast við því og telja víst í sambandi við þá kaupgjaldssamninga, sem fara fram á vori komandi, að þá muni verða nokkur kauphækkun, a.m.k. hjá láglaunastéttunum. Það leiðir af sér aukna veltu, sem skapar ríkinu auknar tekjur. Það mætti því vel segja mér, að tekjuhlið fjárl. nú væri of lágt áætluð um 300—400 millj. kr. og jafnvel um hærri upphæð. Og ég tel það mjög alvarlegt, að þannig skuli vera sett upp ranglega, hve miklar tekjur ríkisins eru líklegar til að verða.

En hvað er það, sem veldur því, að þessi háttur hefur verið upp tekinn, að áætla tekjurnar rangt á þennan hátt? Það stafar í stuttu máli af þeirri stefnu hæstv. ríkisstj. að hafa skattaálögurnar meiri en raunverulega er þörf á fyrir ríkissjóð. Tekjuafgangur ríkissjóðs á undanförnum árum hefur skipt hundruðum millj. kr. Það hafa m.ö.o. verið lagðar miklu þyngri og meiri álögur á skattþegnana heldur en þörf hefur verið fyrir, og það er til þess að leyna þessu, að það sé verið að gera þetta, sem tekjubálkur fjárl. er jafnan áætlaður miklu lægri en ástæða er til. Og það virðist enn þá stefnt að því að halda þessu áfram, að leggja á miklu meiri álögur en nokkur þörf er fyrir. Það kemur líka fram í blaði Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, sem hefur verið útbýtt meðal þm., að það er stefna hæstv. ríkisstj. að leggja á þyngri skatta en þörf er fyrir. Í þessu blaði, sem nýlega hefur verið útbýtt meðal þm., er talið af sérfræðingum þessa efnahagssamvinnubandalags, og þeir byggja að sjálfsögðu sitt álít á því, sem íslenzkir sérfræðingar í þessum málum hafa sagt þeim, þ.e.a.s. sérfræðingar ríkisstj., og í þessu blaði, þar sem rætt er sérstaklega um málefni Íslands, er það tekið fram, að það sé nauðsynlegt fyrir Ísland að hafa greiðsluafgang á ríkisrekstrinum, sem nemur 1 1/2% af þjóðartekjunum, eða m.ö.o. eigi að leggja á meiri skatta en ríkið hefur raunverulega þörf fyrir, sem svarar 1 1/2 % af þjóðartekjunum, þ.e. milli 200 og 300 millj. kr.

Mér finnst rétt að vekja athygli á þessari staðreynd, vegna þess að það er bersýnilegt, að enn einu sinni á að halda áfram þeirri stefnu hjá hæstv. ríkisstj. að leggja á miklu meiri skattaálögur en þörf er fyrir, en reyna að leyna almenning því með fölskum áætlunum í tekjubálki fjárl. Ég býst við, að það hafi ekki dregið úr áhuga hæstv. ríkisstj. á þessari stefnu, að viðskmrh. hefur nýlega verið á fundi umræddrar Efnahagssamvinnustofnunar í París, enda er það fyrsta verk hans að skrifa um það í blað sitt eftir heimkomuna, að það sé nauðsynlegt að sjá um, að skattarnir verði hærri en útgjöldin hjá ríkissjóði. Það er það fyrsta, sem hann hefur til málanna að leggja eftir heimkomu sína frá París, og má því kannske segja, að þeir hafi ekki farið erindisleysu í sínum jólaferðalögum, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh., þar sem hæstv. fjmrh. hefur uppgötvað nýjan skatt, eins og fyrr hefur verið sagt frá í umr., en hæstv. viðskmrh. hefur fengið endurnýjuð fyrirmæli um það, að skattarnir, sem ríkið leggur á, þurfi að vera hærri en útgjöld þess, og það verði að vera mjög ríflegur tekjuafgangur. En fyrir almenning í landinu er það rétt að gera sér grein fyrir því, að það á að halda áfram þeirri stefnu að leggja á meiri skattaálögur en þörf er fyrir, þó að það sé reynt að leyna menn þessu með því að áætla tekjubálk fjárl. rangt.

Ég ætla svo ekki að ræða frekar um þetta að sinni. Mér finnst rétt að benda sérstaklega á þetta, en víkja nokkrum orðum að till., sem ég hef leyft mér að flytja til breytinga á fjárl. ásamt nokkrum þm. öðrum. Mér finnst rétt að taka það fram um þessar till., að þær stefna allar til nokkurrar hækkunar, en það tel ég hins vegar vel forsvaranlegt, þar sem þannig er frá fjárlagafrv. gengið, að það er bersýnilegt, að tekjurnar verða miklu hærri en gjöldin, og verða þess vegna fullkomin fjárráð til þess að mæta þeim takmörkuðu útgjöldum, sem felast í þessum till.

Fyrst flyt ég nokkrar till. við 14. gr. ásamt hv. 11. þm. Reykv., Einari Ágústssyni. Tvær fyrstu till, snerta háskólann. Önnur er um, að framlag það, sem ríkið veitir honum til bókakaupa, verði nokkuð hækkað, en þannig er ástatt með háskólabókasafnið, að þó að það sé orðið allgott og vaxandi safn, þá vantar þar enn mikið af nauðsynlegum sérfræðibókum, sem sérfræðingar hér þurfa að styðjast við og getur verið gott að fletta upp í. Það þarf að auka safnið af þessum bókakosti, og hækkunin á þessari fjárveitingu er sérstaklega ætluð til þess að auðvelda safninu að bæta sérfræðibókakost sinn.

Annar liðurinn snertir það framlag til háskólans, að honum verði veitt nokkur aðstaða til þess að styrkja frjálsa rannsóknarstarfsemi, eins og það er orðað í fjárl. Það er mjög vaxandi hjá öllum háskólum víða um heim að styrkja ýmiss konar rannsóknir, sem snerta þeirra starf beint og óbeint, enda er svo komið, að t.d. námið þarf ekki eingöngu að vera fólgið í því, að menn læri við skólann, heldur að menn hafi aðstöðu til að stunda þar ýmsar sjálfstæðar rannsóknir, því að oft og tíðum er kannske bezta kennslan í því fólgin. Þess vegna leggjum við til, að þetta framlag sé nokkuð hækkað.

Ég kem þá að fyrri till., sem við hv. 11. þm. Reykv., Einar Ágústsson, flytjum við 14. gr. og hefur mest útgjöld í för með sér, en hún er hækkun á styrk til íslenzkra námsmanna. Þessi till. er byggð á skýrslu eða grg., sem stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur sent fjvn. fyrir nokkrum dögum, en formaður þeirrar stjórnar er Jóhannes Nordal seðlabankastjóri. Þessi hækkun, sem við hv. 11. þm. Reykv. leggjum til að gerð verði á námsstyrkjunum og lánunum, byggist eiginlega að öllu leyti á þessum till. stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna, og það er sýnt fram á það í þessari grg. sjóðsstjórnarinnar, að þó að þessi hækkun, sem þeir leggja til, nái fram að ganga, þá verða lánin til námsmanna samt ekki eins há, ef tekið er tillit til aukinnar dýrtíðar, og þau voru árið 1961, sem sagt, við göngum ekki lengra en það, flm., að þó að þessi hækkun verði samþykkt, koma námsmenn ekki til með að hafa samt jafngóða aðstöðu hvað þessar lánveitingar snertir og fyrir 3 árum. Verð ég að segja, að hér sé fullkomlega í hóf stillt.

Þá er enn fremur brtt. við 14. gr., sem ég flyt ásamt þremur þm. öðrum, um að hækka nokkuð launin tll skálda, rithöfunda og listamanna eða úr 3.1 millj. kr. í 4.5 millj. kr. Ég held, að það sé öllum hv. þm. svo ljóst, að um það þurfi ekki að fjalla, hvaða þýðingu skáld og rithöfundar og aðrir listamenn hafa haft fyrir okkur og okkar þjóðar sjálfstæði og menningu. En þó er kannske hlutverk þessara manna þýðingarmeira nú í dag en nokkru sinni fyrr, vegna þess að það eru ýmis öfl og ýmsir vindar, sem nú sækja að okkar sjálfstæði, sem við vorum lausir við áður, þegar einangrunin var okkur mikil vernd í þessum efnum. Tvímælalaust getum við ekki styrkt okkur öllu meira á hinu andlega sviði gegn þeim vindum, sem þar blása um okkur annars staðar frá, með öðru en því að efla okkar eigin menningu, og það gerum við bezt með því að skapa okkar skáldum, rithöfundum og listamönnum sem bezta aðstöðu til starfa. Ég vil vekja athygli á því, að jafnvel þótt þessi hækkun verði samþykkt, er hér ekki um neina stóra upphæð að ræða, eins og nú er komið öllum peningatölum, þannig að þótt þessi upphæð verði samþykkt, er hvergi nærri hægt að fullnægja þeirri raunverulegu þörf, sem hér er, þó að það sé hins vegar hægt að bæta nokkuð úr frá því, sem nú á sér stað. Í þessu sambandi vil ég minna á það, að ef miðað er við heildarupphæð fjárl., hafa framlögin til skálda, rithöfunda og listamanna farið lækkandi á undanförnum árum, og þó að þessi upphæð verði samþykkt, sem hér er lagt til að veitt verði í þessu skyni, þá verður þessi styrkur samt hlutfallslega lægri en var t.d. fyrir 6—7 árum, ef miðað er við heildarupphæð fjárl.

Þá eru nokkrar till. frá mér og hv. 11. þm. Reykv., Einari Ágústssyni, við 16. gr. fjárl. Þessar till. fjalla allar um það að hækka lítið ýmsa styrki, sem veittir eru til rannsóknarog kynningarstarfsemi og námskostnaðar í sambandi við iðnaðinn, þ. e. að hækka nokkuð styrki til Iðnaðarmálastofnunar Íslands, til framhaldsnáms iðnaðarmanna erlendis, til vörusýninga og vörukynningar erlendis og til tækninýjunga. Allir þessir liðir eru nú svo lágir í fjárl., að þeir koma að sáralitlu gagni. Og jafnvel þó að þeir væru hækkaðir í þá upphæð, sem við leggjum til að gert verði, er það að sjálfsögðu mjög takmarkað, sem hægt er að gera í þessum efnum fyrir þá upphæð, og ég held, að ef Alþingi á annað borð veitir nokkurt fjármagn í þessu skyni, sé ekki hægt að hafa þessar upphæðir öllu lægri en gert er ráð fyrir í till. okkar 11. þm. Reykv.

Svo vil ég geta að síðustu till., sem ég er meðfim. að ásamt hv. 11. þm. Reykv., Einari Ágústssyni, hann er aðalflm. að henni, en ég vil aðeins minna á nú, vegna þess að hann mun ekki vera viðstaddur eins og er, en þetta er till. um það, að á 20. gr. verði tekinn upp nýr liður til byggingar nýs menntaskóla í Reykjavík, 5 millj. kr. Nauðsyn þess að koma upp nýjum menntaskóla í Reykjavík hefur verið svo oft rædd hér, að ég tel óþarfa að vera að rifja það sérstaklega upp. Hins vegar finnst mér rétt að minna á það, að hæstv. menntmrh, upplýsti fyrir nokkru á þessu þingi, að það væri meiningin að hefjast handa um byggingu nýs menntaskóla í Reykjavík á þessu ári. Og fyrst svo er, er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að nokkur fjárveiting verði tekin upp til þess í fjárl. þessa árs, og því vænti ég þess, þar sem ég vil ekki efa, að staðið verði við fyrirheit hæstv. menntmrh., að þessi till. okkar 11. þm. Reykv. um framlag til nýs menntaskóla í Reykjavík nái fram að ganga.