14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

1. mál, fjárlög 1965

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Brtt. þær við fjárlagafrv., sem ég mæli fyrir, munu ekki vera komnar úr prentun, og get ég því ekki vísað til þskj. við umr. um þær. Ég vil leyfa mér að byrja á því að mæla fyrir brtt. á þskj. 148, við 13. gr., sem ég flyt ásamt hv. 1. og hv. 5. þm. Norðurl, e. varðandi framlög til nokkurra hafna. En áður en ég kem að því að mæla fyrir þessum till., vil ég leyfa mér að fara örfáum orðum um hafnamál almennt og þær till. um fjárveitingar, sem fram eru komnar í þeim málum.

Ég vil, án þess að ég þar með ætli að deila á einn eða neinn, láta í ljós þá skoðun, að fjáröflun til hafnargerða sé mál, sem þurfi mjög alvarlegrar athugunar við um þessar mundir. Eins og kunnugt er, leggur ríkið fram fé til hafnargerða hér á landi á tvennan hátt. Það leggur fram fé til landshafna samkv. sérstökum lögum um landshafnir, en stofnkostnað við landshafnirnar ber ríkið sjálft af öllu leyti. Í öðru lagi leggur svo ríkið fram fé til hafnarframkvæmda samkv. hinum sérstöku l. um hafnargerðir og lendingarbætur, sem fjalla um hafnargerðir og lendingarbætur almennt og framlög ríkisins til þeirra framkvæmda. En ríkið greiðir, eins og kunnugt er, yfirleitt 2/5 hluta af kostnaði við hafnargerð. Ég skal ekki fara mörgum orðum um landshafnirnar í þessu sambandi. Þær eru aðeins tvær að lögum, Keflavík og Njarðvík og Rif á Snæfellsnesi. En á árinu, sem nú er að líða, hefur verið varið til landshafnanna 36 millj. kr., og gert er ráð fyrir, að til þeirra verði varið 28 millj. á árinu 1965, að mér skilst. En til hafna og lendingarbóta samkv. hinum sérstöku l. um það efni hefur á árinu 1964. sem nú er senn liðið, eftir því sem bezt verður vitað, verið varið rétt um 100 millj. kr. eða tæplega það. Hluti ríkissjóðs af þessum kostnaði, þessum 100 millj., á árinu 1964 er þá um 40 millj. kr. En á árinu 1965, þ.e.a.s. á næsta ári, er áætlað samkv. gögnum, sem Alþingi hefur í höndum, að varið verði til hafnargerða og lendingarbóta samkv. hafnalögum um 180 millj. kr. Hluti ríkissjóðs af þeirri upphæð, sem gert er ráð fyrir að lögð verði í þessar framkvæmdir á næsta ári, er þá um 72 millj. kr. Nú eru það ríkisframlögin, sem fjallað er um hér í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Það mál stendur þá þannig samkv. upplýsingum, sem þm. hafa fengið, að í lok þessa árs, 1964, er gert ráð fyrir, að ríkissjóður muni eiga ógreiddar um 22 1/2 millj. af sínum hluta, enda þótt, eins og frsm. fjvn. hafa tekið fram, nokkuð hafi verið greitt upp í skuldir ríkisins á árinu sem leið. Þegar þetta vangreidda ríkisframlag í lok þessa árs er lagt við áætlun um ríkisframlag á árinu, miðað við framkvæmdir fyrir 180 millj., en frá dregið geymt ríkisframlag til nokkurra hafna, sem notað verður á árinu 1965, lítur út fyrir, að gjaldfallið ríkisframlag, ef svo mætti að orði komast, verði í lok næsta árs rúmlega 90 millj. kr. Þetta mundi það verða, ef framkvæmd verður sú áætlun, sem ég talaði um. áðan, að vinna að hafnarframkvæmdum fyrir um 180 millj. kr. á næsta ári.

Upp í þessar 90 millj., sem þannig má ætla að ríkið þyrfti að greiða upp í sinn hluta hafnargerðarkostnaðar á árinu 1965, er svo gert ráð fyrir að veita samkv. þeim till., sem nú liggja fyrir frá meiri. hl. fjvn., til hafnargerða 19 1/2 millj. kr., til hafnarbótasjóðs 4 millj. kr. og til greiðslu á lögbundnum framlögum vangreiddum 8 millj. kr., eða samtals 31 1/2 millj. kr. á árinu 1965. En segja má, að við þessa tölu mætti bæta því, sem ríkissjóður greiðir af láni til Þorlákshafnar, sem ekki liggur fyrir, hversu mikið er, en um Þorlákshöfn fer eftir hinum almennu hafnalögum, en ætla mætti þá, að hér væri um að ræða nálægt 35 millj. kr. á næsta ári eða kannske tæplega það upp í þær 90 millj., sem ég nefndi áðan að útlit væri fyrir, að ríkissjóður ætti að standa skil á samkv. hafnalögum. Þetta sýnist mér vera alvarlegt mál og þá ekki sízt vegna þess, að það er nú almennt viðurkennt, að það framlag, sem ríkissjóður greiðir til hafnargerða, sé of lágt og því þurfi að breyta til hækkunar, það sé of lítið, að ríkissjóður greiði ekki nema 2/5 af stofnkostnaði hafnanna. Enda sýnir reynslan víða, að hafnarsjóðirnir hafa með engu móti getað staðið straum af sínum hluta kostnaðarins. Það eru mörg ár síðan Alþingi mælti svo fyrir, að hafnalög yrðu endurskoðuð og þar á meðal alveg sérstaklega hlutföllin milli stofnkostnaðargreiðslu ríkissjóðs og stofnkostnaðargreiðslu hafnarsjóðanna með það fyrir augum að hækka ríkisframlagið. Og að því hlýtur að koma, að þetta verði gert. Ég hef ásamt fleiri þm. leyft mér að flytja á þessu þingi frv. til l. um bráðabirgðahækkun á ríkisframlaginu upp í 65%. En hvort sem það frv. verður samþ. á þessu þingi eða ekki, þá er óhjákvæmilegt að hækka ríkisframlagið, og ef ríkisframlagið verður hækkað, þá er það mjög aðkallandi, áður en það er gert og skuldbindingar ríkissjóðs þannig auknar, að gert verði hreint borð í þessu efni og að hinn svokallaði hali aukist ekki, eins og nú er allt útlit fyrir að hann muni gera á næsta ári, ef ekki verður breytt þeim till., sem fyrir liggja frá meiri hl. hv. fjvn.

Þetta vildi ég nú leyfa mér að segja almennt um hið alvarlega ástand, sem mér finnst vera í sambandi við fjáröflun til hafnargerðanna. En ég kem þá að því að mæla fyrir brtt. En þessar brtt. eru um hækkun framlaga til 3 hafna í Norðurl. e. Við höfum að venju, þm. kjördæmisins, rætt saman um þetta mál. Samkv. þeim till., sem fyrir liggja frá meiri hl. hv. fjvn. og ríkisstj., er gert ráð fyrir, að lagðar verði til hafna í þessu kjördæmi, sem eru æðimargar, samtals tæpar 4 millj. kr. eða nánar tiltekið 3 millj. 950 þús. kr. Þetta er veruleg lækkun, um meira en hálfa millj. frá þeirri upphæð, sem lögð var til hafna á þessu landssvæði í fyrra. Hins vegar er það svo, að uppi eru áætlanir, sem hafa verið í höndum hv. fjvn., um hafnarframkvæmdir á þessu svæði, það miklar, að þörfin fyrir ríkisframlag til þessara hafna samtals, þ.e.a.s. þegar lagt er saman það, sem vangreitt verður um áramót, og ríkishlutinn á árinu, ef það verður framkvæmt, sem áætlað er, virðist munu nálgast 15 millj. kr., nánar tiltekið 14.7 millj. kr. Og hrökkva þessar 4 millj. eða tæplega það auðvitað skammt upp í þetta.

Nú er skylt að geta þess, að við þm. kjördæmisins vorum sammála um það, það var samkomulag milli okkar um það, að ef upphæðin til hafna í okkar kjördæmi yrði ekki nema tæpar 4 millj. á árinu, þá yrðum við að fella okkur við þá skiptingu milli einstakra hafna, sem felst í till. meiri hl. fjvn. En þó að

svo sé, þá teljum við, sem að þessum till. stöndum, að tilraun verði að gera til þess að fá þessi framlög nokkuð hækkuð. Og við höfum lagt til sérstaklega, að framlögin yrðu hækkuð til nokkurra hafna, þar sem áætlað er, að um allmiklar framkvæmdir verði að ræða á næsta ári.

Fyrsta brtt. okkar er um það, að framlagið til Hauganeshafnar verði hækkað úr 200 þús. kr. upp í 500 þús. kr. Hauganes í Árskógshreppi við vestanverðan Eyjafjörð er útgerðar- og verzlunarstaður, og útgerð fer þar nokkuð vaxandi. Fyrir nokkrum árum var þar byggður hafnargarður. En það hefur verið álít fróðra manna, að til þess að fá betra skjól og betri löndunaraðstöðu yrði að lengja þennan hafnargarð, sem jafnframt er bryggja, til nokkurra muna.

Nú í sumar var haldinn fundur í Hauganesi, og voru þar mættir þeir aðilar, sem um þessi mál fjalla einkum þar í hreppnum. Vitamálastjórinn mætti einnig á þessum fundi. Þá var rætt um framkvæmd í höfninni, lengingu bryggjunnar á næsta sumri. Og fyrir nokkru hafa hreppsnefndar- og hafnarnefndarmenn þar ritað vitamálastjóra um þetta mál. Þeir fara fram á það, að veittar verði 500 þús. kr. sem ríkisframlag til þessarar framkvæmdar, og það er auðsætt mál, að ef ráðizt verður í þessa fyrirhuguðu framkvæmd, þá getur ríkisframlagið ekki orðið minna en það og sennilega meira.

Önnur till. er um að hækka framlagið til Raufarhafnar úr 550 þús. upp í 1 millj. Á Raufarhöfn hefur staðið yfir smíði hafnarbryggju, aðalhafnarbryggju til afgreiðslu flutningaskipa, sem hafnarsjóður byggir þar í stað gamallar trébryggju, sem var í eigu síldarverksmiðja ríkisins. Þetta er hið mesta nauðsynjafyrirtæki. Eins og kunnugt er, þá er Raufarhöfn einn af þeim stöðum hér á landi, þar sem mest er flutt út af gjaldeyrisvöru. Mikil umferð er um þessa höfn. Fjármál þessa mannvirkis standa þannig, eftir því sem ég kemst næst, að ef lagt er saman það, sem vangreitt verður af hálfu ríkissjóðs nú um áramótin, og að, sem ríkissjóði ber að greiða af áætlaðri framkvæmd á næsta ári, þá mundi ríkissjóður eiga að greiða samtals á því ári til þess að gera hreint borð rúmlega 2 millj. 600 þús. kr. Framlag samkv. till. þeirri, sem hér liggur fyrir áður, 550 þús., hrekkur því skammt, og það er hóflega í sakirnar farið að gera ráð fyrir, að upphæðin verði hækkuð upp í 1 millj., þegar málin standa svo.

Þriðja till. um þetta efni varðar Þórshöfn á Langanesi. Þar hefur staðið yfir hafnargerð, dýpkun og bygging hafnargarðs og hafskipabryggju. Jafnframt verður þar svo bátakví með löndunarbryggju fyrir báta, þegar mannvirkið er fullgert. Mál Þórshafnar standa þannig samkv. áætlun um framkvæmdir og upplýsingum um vangreiðslu um s.l. áramót, sem að vísu er ekki mikil, að þá ætti ríkishlutinn á árinu að vera 1936 þús. kr., ef ríkið ætti að greiða sitt að fullu. Lagt er til í till. frá meiri hl. fjvn. og hæstv. ríkisstj., að upphæðin verði 600 þús. Við gerum ráð fyrir, að hún verði 1 millj., og stæði þó eigi að síður allmikið eftir.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að þegar það alveg sérstaklega er haft í huga, að senn hlýtur að koma að því, að lögunum verði breytt á þann veg, að framlag ríkissjóðs til hafnargerðanna verði hækkað hlutfallslega, þá er það bersýnilega mjög aðkallandi að gera frekari ráðstafanir til þess heldur en gert hefur verið með tillögum af hálfu fjvn., að ekki safnist fyrir á næsta ári skuld hjá ríkissjóði vegna þess lága framlags, sem honum ber nú að greiða samkv. núgildandi lögum. En þegar á það er litið, ég kem að því aftur, að sumar hafnir hér á landi, þó að þær séu ekki margar, eru algerlega kostaðar af ríkissjóði, þar sem eru landshafnirnar, þá gefur auga leið, að breytingar í þessum efnum hljóta að vera skammt undan, að ríkisframlagið hlýtur að verða hækkað til hinna almennu hafnargerða, ef þá ekki verður farið inn á þá leið, að ríkið byggi sjálft allar hafnir, sem byggðar eru í almannaþágu á landinu.

Mál okkar þm. Norðurl. e. er aðeins hluti af þessu mikla alþjóðarvandamáli. Og þessar till., sem við flytjum hér, þessir þrír þm., snerta í rauninni jafnframt þetta almenna vandamál. Það er alveg óhjákvæmilegt að leggja af hálfu ríkisins meira fé til þessara framkvæmda, miklu meira fé en gert hefur verið undanfarið, og það sýnist eðlilegra, að ríkið leggi nú nokkuð ríflega fram til þessara framkvæmda, en að þróun málanna haldi áfram að vera á þann veg, að hafnarsjóðir séu látnir taka lán með ríkisábyrgð, sem þeir margir hverjir geta ekki greitt, á meðan hafnirnar eru hálfgerðar, hvað sem síðar kann að verða, og ríkissjóður verður þá að standa straum af eða hinn svo kallaði ríkisábyrgðasjóður, sem er í rauninni aðeins hluti af ríkissjóði. Þetta er vandamál, sem ríkisstj, og Alþingi þurfa áreiðanlega að gefa fullan gaum.

Þá flytjum við, þessir þrír þm., brtt. við 23. gr. fjárlagafrv. um heimild til að taka lán, allt að 3 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt, vegna Hálsavegar í Norður-Þingeyjarsýslu. Vegáætlun fyrir næstu 4 ár hefur nú alveg nýlega verið lögð fyrir Alþingi. Lög gera að vísu ráð fyrir, að hún sé lögð fyrir þingið samtímis fjárlagafrv., en að þessu sinni hefur ekki af því orðið. Enn hefur þingið ekki fjallað um þessa fyrstu vegáætlun til 4 ára og allt í óvissu um það, hvernig hún verður afgreidd. En auðsætt er það, að þær tekjur, sem vegasjóðurinn fær samkv. vegalögum, munu hrökkva of skammt til þess að sinna þeim framkvæmdum, sem mest aðkallandi eru á næstu 4 árum. Hæstv. ríkisstj. hefur þegar farið inn á þá leið og Alþingi að taka lán til ýmissa meiri háttar vegaframkvæmda, og við, sem stöndum að þessari till.. leggjum til, að sú leið verði farin varðandi þá vegi, sem þar er um að ræða, til þess að þeir fjármunir, sem til úthlutunar verða á þessu svæði, geti orðið heldur drýgri til afnota við aðra vegagerð. Hálsavegur, sem hér er um að ræða, er, eins og ég hef áður lýst hér í þessum stól, samgönguæðin milli Raufarhafnar og meginbyggðar Þistilfjarðar. Hálsarnir, sem vegurinn er kenndur við, eru tveir: svokallaður Ytriháls og svokallaður Fremriháls. Akfært er alla þessa leið og orðið fyrir nokkrum árum, en verulegur hluti leiðarinnar er aðeins ruddur vegur, sem oft verður ófær eða lítt fær. Nokkuð er komið áleiðis að byggja upp veg á Ytrihálsi, en vegamálastjóri áætlar, að það verk, sem þar er óunnið, kosti fram undir 2 millj. kr. Þá er eftir vegurinn á Fremrihálsi, sem kosta mun um 3 millj. kr., þannig að samkv. þessari áætlun ætti vegagerð sú eða uppbygging vegarins, sem eftir er af Hálsavegi, að kosta um 5 millj. kr. Við leggjum til, að upp í það verði 3 millj. kr. teknar að láni.

Áður var og er raunar enn akleið á sumrin um Öxarfjarðarheiði, og var um tíma ráðgert, að þar yrði framtíðarvegurinn á þessum slóðum milli byggða. En fyrir nokkru v ar ákveðið að byggja ekki upp Öxarfjarðarheiðarveg að svo stöddu, halda honum aðeins við, og að uppbyggingin færi fram á Hálsavegi. Hér er um að ræða fjölfarna leið, sérstaklega á sumrin um síldartímann, og mun þó verða enn fjölfarnari síðar.

Þá vil ég leyfa mér að mæla fyrir brtt., sem ég flyt ásamt 1. þm. Norðurl. e. við 14. gr. Hún er þess efnis, að framlag til Rímnafélagsins til útgáfustarfsemi, sem í fjárlögum mörg undanfarin ár hefur verið 20 þús. kr., verði hækkað upp í 30 þús. kr. Þetta félag, Rímnafélagið, vinnur að útgáfu handrita frá fyrri öldum, og er þar um merkilega starfsemi að ræða, en ekki fram á mikið farið. Stjórn Rímnafélagsins sendi hv. fjvn, umsókn um 20 þús. kr. hækkun, en n. hefur því miður ekki, enn þá a.m.k. , séð sér fært að sinna þessu, og vildum við því freista að koma fram till. um 10 þús. kr. hækkun. En þessa till. viljum við hér með taka aftur til 3. umr. í þeirri von, að hv. n. athugi málið nánar.