01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

3. mál, launaskattur

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er nú svona e.t.v. á mörkunum, að tilefni sé til að ræða húsnæðismál í heild og þann vanda, sem við er að etja í þeim efnum, undir þessum dagskrárlið, en til þess hefur nú verið tilefni gefið, að örlítið nánar sé að þessu vikið.

Hv. síðasti ræðumaður vék að því, að ástandið í þessum málum væri nánast að klóra í bakkann og þær umbætur, sem þar hafa gerzt og loforð er fyrir um að eigi að gerast á næstu mánuðum, séu neyðarúrræði og það sé neyðzt til þess að tosa maddömu Viðreisn lítið eitt áfram í þessum efnum. Ég verð að harma slíkt tal um svo alvarlegt mál sem hér er um að ræða, húsnæðismálin, sem eru nú og hafa alla tíð verið, svo lengi að ég man, stærsti útgjaldaliður almennings og sérstaklega brýnn og hvílir þungt á um ákveðið æviskeið hjá hverri fjölskyldu. Þetta eru ekki neinir nýir hlutir, sem eru nú að koma til. Hér er um vandamál að ræða, sem við höfum átt við að etja áratugum saman, og nánast allar okkar nágrannaþjóðir eiga við þetta vandamál að etja, þó að misjafnlega vel hafi tekizt um úrlausnir þar í hinum einstöku löndum, eins og dæmin sanna.

Það er talað um það í þessu tilfelli, að fyrirhugaðar hámarkslánahækkanir úr 150 þús. kr. í 280—300 þús. kr. séu hégómi einn, þegar miðað sé við, hver hækkun á byggingarkostnaði hafi orðið í stjórnartíð núv. ríkisstj. Við hv. síðasti ræðumaður studdum hér eina ágæta ríkisstj. á sínum tíma, sem kölluð var vinstri stjórn, og ég vildi nú biðja hann um að hugleiða, á sama tíma sem hann sér, hvað byggingarkostnaður hefur aukizt á s.l. sex árum, að taka líka dæmi úr þessari stjórnartíð, því að ég held, að ekki hafi skort á hjá okkur báðum og öðrum, sem þá stjórn studdu, að við gæfum heilagar yfirlýsingar um það, að við ætluðum að reyna að stöðva dýrtíð og lagfæra ástandið í húsnæðismálum. Ég hygg, að þótt ég fari ekki út í einstök atriði, sem ekki er tilefni til núna, þá sé sá samanburður hæstv. núv. ríkisstj. ekki óhagstæður.

Hv. þm. talaði að vanda mjög líkingamál um þessa hluti og leitaðist við að finna fram gamlar gamansögur og talaði þar mikið um gatið, sem væri á ausunni, og tappinn væri ekki nógu stór til að stífla útrennslið á þessari góðu ausu. Ég verð nú að segja, eftir að hann hafði mælt fyrir þeirri brtt., sem hann flytur hér og hv. flokksbræður hans gerðu í Nd., að ég held, að það sé upplýst, hverjir boruðu gatið á ausuna og hverjir sjá um, að tappinn fylli ekki út í gatið, ef svo er. Mér skilst, að hann hafi gefið upplýsingar með þessum tillöguflutningi, jafnharðan og hann bar þessar sakir á hæstv. núv. ríkisstj. Það er í annarri setningunni talað um, að lánin séu allt of lág miðað við byggingarkostnað, og vissulega væri æskilegra, að þau væri hærri. En við skulum bara miða við afrek okkar á fyrri árum án tillits til þess, hverjir sátu í ríkisstj., og sjá, að við verðum að viðurkenna þær staðreyndir, að hér hefur stórlega vel áunnizt. Ég skal bara minna hv. þm. á, af því að hann þekkir það í gegnum fyrirgreiðslu við sína umbjóðendur, að þess voru almenn dæmi allt fram undir 1959, að fjórskipta varð 100 þús. kr. láni. Þess eru engin dæmi í dag og hefur ekki verið s.l. tvö ár. Hin almenna regla hefur verið sú að skipta ekki oftar en í tvennt hverju láni.

Skyldi þetta ekki vera neinn ávinningur fyrir þá, sem þurftu að gera fjórar atrennur að því að fá 100 þús. kr. og alllengi aðeins 70 þús. kr., sem var hin almenna regla?

Ég held, að það sé ekki hægt, á sama tíma og verið er að tala um, að lánin séu of lítil, að flytja þá till. um, að dregið skuli úr þeim tekjuöflunum, sem eiga að skapa betri lánsmöguleika. En þetta er gert, og verður að virða manni það til vorkunnar, þó að manni verði á að hugsa sem svo, að þetta sé svolitið áróðursblandað, svo að ekki sé meira sagt. Það er líka fullyrt, að þetta „tos með maddömu Viðreisn hafi verkalýðshreyfingin séð sig knúða til að gera“.

Það er alveg rétt, það kunna að hafa verið uppi deilur um það, hvort eðlilegt sé, að húsnæðismál og umbætur á þeim séu samningsatriði milli verkalýðs og vinnuveitenda, jafnvel þótt afskipti ríkisins komi til. Um það geta verið deilur. Ég persónulega sé ekkert á móti því, jafnmikið hagsmunamál og hér er um að ræða og jafnstór og alvarlegur útgjaldaliður sem húsnæðiskostnaðurinn er óhjákvæmilega hjá hverri fjölskyldu og hefur, eins og ég áðan sagði, verið, svo lengi að ég man. En það er hins vegar ekki rétt með farið, og ég hygg, að það sé ekkert launungarmál, að hálfum öðrum mánuði áður en viðræðurnar um júnísamkomulagið áttu sér stað, þá hafði húsnæðismálastjórn um milli fjögurra og fimm mánaða skeið fjallað um breytingar á þessum lögum, og þar sem hún er skipuð fulltrúum allra þingflokkanna, þá vil ég upplýsa það nú, að hálfum öðrum mánuði áður en þessar umr. áttu sér stað, skilaði húsnæðismálastjórn sínum tillögum til ríkisstj. og þær lágu fyrir. Þær voru að vísu í þrennu lagi, en fóru mjög í þá átt, sem um var endanlega samið í júnísamkomulaginu. Það er þess vegna ekki hægt að segja, að neinn hafi „tosað“ hinum í þessum efnum. Það var einungis einróma álit samningsaðilanna, sem þarna áttust við, að hér væri um svo veigamikið atriði að ræða, að fram hjá því yrði ekki komizt í hagsmunabaráttunni.

Það er enginn vafi á því, að þær till. til breytinga á núverandi löggjöf, sem væntanlega munu innan skamms koma hér til umr., verða af öllum, sem af sannsýni vilja á þau mál líta, taldar stórfelld breyting fram á við. Hirði ég ekki um, þar sem það mál er enn þá á trúnaðarstigi milli aðila, að ræða um einstaka liði þess, en það af því, sem þegar hefur verið upplýst, eins og t.d. hækkun lánanna, er stórfelld breyting í augum fólks og væntanlega munu staðreyndirnar sýna það einnig. En langveigamesta breytingin að mínu viti er þó sú gerbylting, sem á sér stað í tekjum stofnunarinnar frá því, sem áður var. Fram í ársbyrjun 1959 studdist húsnæðismálastofnun ríkisins nánast einvörðungu við lántökur til skamms tíma, sem hún varð að fleyta lánsumsækjendum sinum áfram á. Engar fastar tekjur voru til fyrir stofnunina, engin leið að segja fólki með nokkurri vissu, hvenær að því kæmi um lánveitingarnar. Með júnísamkomulaginu og þeim breytingum, sem þar voru gerðar, hefur þetta viðhorf gerbreytzt og á þann veg, að nú má á allra næstu mánuðum fara að gera sér ljóst, hver útlánageta stofnunarinnar er, og þar af leiðandi draga úr hinni nagandi óvissu, sem hefur verið einhver leiðinlegasti bletturinn og erfiðasti á öllu starfi stofnunarinnar. Menn hafa beðið eftir lánum, og það á ekki við um þessi stjórnarár, nema síður sé, frekar en fyrstu ár stofnunarinnar. Þeir hafa beðið eftir lánveitingum allt upp í fjögur og á fimmta ár og aldrei vitað frá ári til árs, hvenær að þeim dæmi. Nú má örugglega fara að gera sér þetta ljóst og draga úr þessum erfiða ágalla, sem hefur verið á allri framkvæmd laganna, og ég vil segja: Það er meira virði en jafnvel lánahækkunin sjálf, sem er þó stórfellt skref í rétta átt.

Ég vildi aðeins koma þessum almennu atriðum að hér að gefnu tilefni í ræðu síðasta ræðumanns, en að öðru leyti ítreka það, að ég held, að hér ættu menn heldur að leggjast á eitt um það að reyna að tryggja fjárhagslega afkomu stofnunarinnar, heldur en hitt, að reyna sífellt að draga úr þeim möguleikum á fastatekjum, sem verið er að reyna að skapa henni, a.m.k. þeir hinir sömu sem eru að tala um, að geta stofnunarinnar í þessum efnum sé of lítil.