01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

3. mál, launaskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. litur auðheyrilega á sig sem kennara í þessum málum. Verst hefur það jafnan þótt í skóla, þegar kennarar hafa gatað, en ég finn ekki betur en hv. þm. gati fullkomlega, þegar hann álítur, að hægt sé að sanna það, að lánin, eins og þau eru ákveðin nú, dugi eins vel til bygginga og þau dugðu 1960, þegar viðreisnarstjórnin fór að stað, þó að hægt sé að sanna það með því að bera saman prósentur af hækkun byggingarkostnaðar og hækkun lánanna, vegna þess að prósentan af byggingarkostnaðinum vegur náttúrlega miklu meira í hag húsbyggjandans og möguleikum til að byggja heldur en prósentan á hækkun lánsins. Ef á að athuga það, hvað lánið dugir gagnvart þörfinni, þá á að fara að því eins og ég fór, að bera saman dýrtíðaraukninguna í fjárhæð og lánið sem fjárhæð, og þá kemur þetta í ljós milli áranna 1960 og 1964, að það vantar 135 þús., miðað við tiltekna stærð íbúða, til þess að lánið allt borgi dýrtíðarhækkunina.

En svo var annað, gagnvart till. þeirri, sem ég er hér að flytja. Hann tók undir það, sem ég hafði tekið undir með hv. 12. þm. Reykv., að menn ættu að standa saman um eflingu húsnæðismálastofnunarinnar og eiginlega íbúðabyggingalánakerfisins í báðum deildum þess, þar man ég eftir stofnlánadeild landbúnaðarins líka. Hann tók undir það, en taldi, að till. mín væri í mótsögn við þann vilja. Mér finnst það ekki vera. Ég tel till. mína aðeins leiðréttingu á ranglæti, sem á að láta menn þá, sem stunda landbúnað, verða fyrir. Hún er í raun og veru ekkert nema leiðrétting á gati í þessari löggjöf. Og þó tek ég fram, að það er miðað við það, að þessi skattur, sem mjólkurbú og sláturhús eiga að greiða, hefur ekki verið reiknaður með við ákvörðun búvöruverðs. Verði það gert, þá skiptir það öðru máli. En ég hef enga tryggingu fyrir því, að það verði gert, og vil þess vegna, að villan verði fyrirbyggð. Hins vegar lít ég svo á, að þegar góðviljaðir menn eins og þeir, sem hér hafa átt orðastað við mig, hugsa sér að greiða atkv. á móti minni till., þá taki þeir á sig ábyrgð á því, að þessi gjöld verði reiknuð til útgjalda bændunum, þegar búvöruverð verður ákveðið eftirleiðis.