16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

58. mál, innlent lán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti.

Með frv. þessu fer ríkisstj. fram á að fá heimild Alþingis til þess að bjóða út innlent ríkislán með ríkisskuldabréfum eða spariskírteinum, að upphæð 75 millj. kr. Það er langt orðið síðan ríkissjóður hefur boðið út innlent skuldabréfalán, og ætla ég, að það sé um það bil hálfur annar áratugur, síðan það var gert seinast, á árunum, 1947—1949, og þú var það gert í því formi, að boðið var út happdrættislán. Skuldabréfamarkaður hefur undanfarin ár og áratugi verið lítill hér á landi, og hefur fjár því að mjög litlu leyti verið aflað til opinberra framkvæmda með slíkum hætti. En erlendis er það mjög tíðkað, að ríkissjóðir afla sér fjár til verklegra framkvæmda með skuldabréfaútboði. Ástæðan til þess, að verðbréf hafa ekki verið hér á markaði eða lítt seljanleg mörg ár, er auðvitað öllum kunn. Það er fyrst og fremst sú mikla óvissa og jafnvægisleysi í efnahagsmálum, sem hér hefur ríkt í áratugi, með örfáum undantekningum. Og vegna hinnar miklu kaupgjalds- og verðlagshækkunar, sem lengst af hefur legið hér í landi ár frá ári, hefur mönnum ekki þótt árennilegt að festa fé sitt til nokkurra ára í skuldabréfum.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að tilraun sé gerð með útgáfu ríkisskuldabréfa eða spariskírteina. En með hliðsjón af þeirri reynslu, sem hér hefur fengizt undanfarið, er það ljóst, að nokkur vandi er á höndum um ákvörðun lánsskilmála, lánskjara, ef nokkur von á að vera til þess, að slík bréf seljist. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því í þessu frv., að þessi bréf eða spariskírteini verði bundin vísitölu, þ.e.a.s. verði verðtryggð. Nú hefur það raunar verið reynt hér áður og með tvennum hætti aðallega. Annars vegar eru skuldabréf húsnæðismálastjórnar, sem tryggð eru með vísitölu framfærslukostnaðar, og hins vegar eru skuldabréf, sem Sogsvirkjunin gaf út fyrir 4—5 árum, en þau voru bundin vísitölu rafmagnsverðs í Reykjavik. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að fara inn á nýja braut, og þó að það sé ekki tekið fram í frv. sjálfu, þá er ætlunin sú að prófa vísitölu byggingarkostnaðar. Með því móti vinnst margt. Í fyrsta lagi geta kaupendur þessara bréfa þá treyst því, að þau ár, sem þeir hafa fé sitt bundið í þessum bréfum, rýrni þau ekki í verði miðað við byggingarkostnað í landinu. Það er vitanlegt, að á tímum jafnvægisleysis og verðhækkana freistast margir til þess að festa fé sitt, ekki í bönkum eða sparisjóðum, heldur fyrst og fremst í fasteignum eða kaupum á ýmsum slíkum hlutum, sem talið er að skapi meiri tryggingu fyrir verðmætinu heldur en sparifjárinnlögin. Með því að menn eigi kost á því að leggja það fé, sem þeir kunna að hafa aflögu, í slík bréf eins og hér ræðir um, sem tryggð eru með vísitölu byggingarkostnaðar, þá geta menn öruggir varið því til kaupa á þessum bréfum og frestað þá þeim fasteignakaupum eða öðrum slíkum ráðstöfunum, sem ekki eru bráðaðkallandi og mættu bíða. Það þykir rétt að gera þessa tilraun nú með útgáfu spariskírteina á þessum grundvelli.

Varðandi lánstímann er gert ráð fyrir, að þessi bréf yrðu til 10 ára, en þó þannig, að eftir 3 ár gæti kaupandi eða eigandi bréfanna fengið þau innleyst og síðan á hverju ári eftir þann tíma. Hins vegar er gert ráð fyrir að haga vaxtagreiðslum þannig, að nokkur örvun verði fyrir eigendur bréfanna að láta þau standa og fá þau ekki innleyst strax að liðnum þessum 3 árum. Það er gert með því að gera ráð fyrir nokkru lægri vöxtum fyrstu 3—4 árin, en síðan hækkandi ár frá ári, eftir því sem menn láta féð standa lengur óinnleyst. Það er gert ráð fyrir, að meðalvextir þetta 10 ára tímabil verði 7.2%, en það þýðir, að ef eigandi lætur bréfið standa óhreyft í 10 ár, þá er bréfið með upphaflegum höfuðstól ásamt vöxtum og vaxtavöxtum tvöfaldað á þessum 10 árum, 1000 kr. bréf orðið að 2000 kr., miðað við óbreytt verðlag, en við þessa upphæð bætist svo að sjálfsögðu hækkun byggingarkostnaðar. Það er gert ráð fyrir því, að ársvextirnir fyrstu 3 árin verði hins vegar 6%, en fari síðan hækkandi, eins og ég gat um, þannig að meðalársvextirnir verði 7.2%. Þessi fyrirætlun, að gefa mönnum kost á að leysa bréfin inn eftir 3 ár og síðan á tímabilinu 3—10 ár, er gerð til þess, að þeir, sem vilja ekki eða eru tregir til þess að binda fé sitt algerlega til 10 ára, elgi þess kost, ef þeir þurfa á að halda, að leysa þau inn fyrr.

Ástæðan til þess að lánskjörin eru ekki ákveðin í sjálfu frv., heldur segir í 2. gr. frv.: „Um lánstíma, vexti og önnur lánskjör, svo og fyrirkomulag verðtryggingar, fer eftir nánari ákvörðun ráðh.“ — er kannske fyrst og fremst sú, að ætlunin er að bjóða þetta lán ekki allt út í einu lagi, heldur í áföngum, og vegna þess að ríkisskuldabréf hafa ekki verið á boðstólum í hálfan annan áratug, þarf að þreifa nokkuð fyrir sér, hvernig kjörin þurfa að vera, til þess að eftirspurn verði nægileg eftir þeim. Þess vegna er hugsanlegt, að eftir fyrstu tilraunina þyki ástæða til að breyta einhverju um lánskjörin miðað við reynsluna, sem fæst þá, og þess vegna ekki ástæða til að rígbinda þetta í lögum. En ég vil taka það skýrt fram, að þetta er engin undantekning frá reglum, sem fylgt hefur verið, því að um þrjá síðustu áratugi hafa lög um heimildir til lántöku fyrir ríkissjóð yfirleitt verið með þeim hætti, að lánskjörin, vextir og lánstími, hafa ekki verið ákveðin í l. sjálfum, heldur lagt á vald ríkisstj., eftir því sem um semdist og viðhorf væri á hverjum tíma. Að þessu leyti eru þessi ákvæði 2. mgr. 2. gr. í samræmi við venju.

Það er gert ráð fyrir því í 3. gr. frv., að þessi skuldabréf eða spariskírteini, svo og vextir af þeim og verðbætur skuli eins og sparifé undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu.

Varðandi notkun þess fjár, sem inn kemur, segir í 4. gr., að ríkisstj. skuli heimilt í samráði við fjvn. að verja því til framkvæmda á vegum ríkisins og til greiðslu á skuldum ríkissjóðs og ríkisábyrgðasjóðs. Í sambandi við framkvæmdir og framkvæmdaáætlun ríkisins vantar nokkurt lánsfé á þessu ári vegna raforkuframkvæmda, hafna, vega, sjúkrahúsa- og skólabygginga, atvinnubótasjóðs og kísilgúrverksmiðju, og ætlunin er að verja því fé, sem inn kemur, til þessara framkvæmda. Ef fengist meira en til þess þarf, er heimild til þess að nota það fé til greiðslu á skuldum ríkissjóðs og ríkisábyrgðasjóðs.

Í 5. gr. er nýmæli á þá lund, að heimilt er að gefa út ný verðbréf eða spariskírteini í stað þeirra, sem upphaflega verða út gefin, m.ö.o. að því leyti sem til innlausnar kemur, t.d. eftir 3—4 ár, á þessum bréfum, er heimilt að gefa þá út ný bréf í stað hinna og nota þau vegna innlausnarinnar eða til greiðslu á því, sem innleysa ber, og þessi heimild standi einnig áfram í lögunum.

Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og varð í n. og d. samstaða hjá meginþorra dm. og nm. um frv. Meiri hl. fjhn. þeirrar d., þ.e.a.s. 6 nm. af 7, mælti með frv. með tveim breytingum, sem samþykktar voru á því, en einn nm. þar skilaði séráliti og vildi gera ýmsar aðrar og meiri háttar breytingar.

Ég ætla, að ég hafi rakið hér meginatriði þessa máls, bæði um fyrirætlanir varðandi sjálft lánsútboðið, lánsskjöl og til hvers á að nota þetta fé, og tel ekki nauðsyn í þessari framsöguræðu að bæta þar fleiru við, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.