30.11.1964
Efri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

80. mál, aðstoð við fatlaða

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum starfaði mþn. að því að rannsaka og gera heildartill. um lausn á atvinnumálum og félagslegum vandamálum öryrkja í landinu. Það var niðurstaðan af þessu starfi n., að frv. var borið fram um að leggja nokkurn skatt á sælgæti, sem yrði látinn renna til starfsemi lamaðra og fatlaðra. Þetta gjald var þá ákveðið 3 kr. á hvert kg, og var áætlað, að það mundi gefa 1.2 millj. kr. rúmlega á árl. Þetta hefur reynzt öllu meira eða allt að 120 þús. kr. á mánuði eða nálgazt hálfa aðra millj. Eftir að þetta var gert, komu að máli við mig fulltrúar blindra og spurðust fyrir um það, hvort þeir gætu ekki orðið einhverrar aðstoðar aðnjótandi í sambandi við þetta skattgjald, og ef það væri ekki hægt, þá lögðu þeir til, að einhver tekjustofn yrði fundinn, sem gæti orðið þeim til styrktar. Ég hafði þá samband við samtök lamaðra og fatlaðra, en þau töldu ekki hægt að taka af því, sem þeim er í lögum ætlað, til styrktar blindum. Þess vegna var athugað, hvort einhverjir tekjustofnar aðrir fyndust, sem væru við þeirra hæfi, og var gert rúð fyrir, í samráði við þá blindu, að þar þyrfti að vera um 200—300 þús. kr. á ári. að ræða, ef það ætti að koma að þeim notum, sem þeir ætluðust til.

Í staðinn fyrir að fjölga þessum tekjustofnum, sem eru nú orðnir æðimargir, varð niðurstaðan sú að reyna heldur að hækka þetta gjald, sem nú er ætlað eingöngu til lamaðra og fatlaðra, um 50 aura á kg eða upp í 3.50 kr., og er gert ráð fyrir, að þannig megi ná þeirri upphæð, sem þeir blindu þurfa á að halda eða telja sig þurfa á að halda.

Það eru starfandi hér í bænum tvö félög til styrktar þessu fólki, sem vinna að því að greiða úr fyrir þessu fólki, það eru Blindravinafélagið og Blindrafélagið. Þessi félög bæði hafa unnið mikið gagn, verð ég að segja, og m.a. hefur nú fyrir stuttu verið komið upp sérstöku heimili fyrir blint fólk, þar sem það getur stundað atvinnu og átt betri aðbúð en annars væru möguleikar á. Ég held þess vegna, að þetta sé þarft verk og gott, að reyna að styrkja þessa viðleitni, og hvort menn borga 3 kr. eða 3.50 kr. af hverju sælgætiskg. sem keypt er, það ætla ég, að skipti tiltölulega litlu máli. Ég vil því vænta þess, að hv. deild taki þessu máli vinsamlega og greiði götu þess, og legg til, að frv. verði vísað að þessari umr. lokinni til hv. heilbr.- og félmn.