16.12.1964
Neðri deild: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

104. mál, landgræðsla

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem liggur hér fyrir til umr., er gamalkunnugt hér á þingi. Nokkur undanfarin ár höfum við hv. 3. þm. Norðurl. e. flutt frv. til l. um heftingu sandfoks og græðslu lands. Það frv. byggðist á starfi og niðurstöðum sandgræðslunefndar þeirrar, sem Hermann Jónasson, þáv. landbrh., skipaði árið 1957. Við flm. þess frv. áttum jafnan von á því, að hæstv. ríkisstj. flytti málið sjálf, en þar eð sú von brást ár eftir ár, þótti okkur rétt að flytja það jafnharðan, ef verða mætti, að það næðist að lokum samstaða á Alþingi um meginatriði þess. Við litum þannig á, að hér væri um svo gagnmerkt mál að ræða, að brýna nauðsyn bæri til að knýja það fram til úrslita. En frv. dagaði jafnan uppi.

Á undanförnum áratugum hefur verið unnið að því með góðum árangri að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs af völdum sandfoks og uppblásturs. Innan sandgræðslugirðinganna, sem munu vera um 60 talsins og þær dreifðar viða um land, er töluvert yfir 1000 ferkm lands. Hefur það verið grætt upp eða tekið til græðslu smám saman. Af þessu landi hefur því gróðurlendið tekið að stækka á ný. Og það þarf ekki um það að efast, að Sandgræðsla Íslands hefur þannig á undanförnum áratugum unnið hið mesta þjóðnytjastarf, um það eru víst flestir sammála. Nú er það talið af kunnugum, að í landinu utan sandgræðslugirðinganna séu nærfellt 4 þús. ferkm lands, þ.e.a.s. sandar og melar, sem eru þó lægri en 400 m yfir sjávarmáli, sem auðveldir séu nokkuð til græðslu, þannig að þeir geti komið að gagni sem beitilönd og að einhverju leyti til ræktunar, þar sem þannig stendur á. En þetta er þó ekki nema lítill hluti af auðnum landsins. Þar kunna einnig að vera til staðar nokkrir möguleikar að koma upp gróðri og auka hann, ef einhver er fyrir. Allir, sem um þessi mál hugsa, hljóta að vera um það einhuga, að hér verði að leggja til sóknar í því skyni að stækka og efla á alla lund gróðurríki landsins, og um það eru víst flestir sammála, að að því marki beri einnig að stefna með nýrri löggjöf, sem veitir nauðsynlegt svigrúm þeim starfsháttum, sem upp þarf að taka, auðveldi rannsóknir í ræktunar- og gróðurverndarmálum og byggi á aukinni vísindalegri þekkingu og þeirri tækni, sem hverju sinni kemur að sem beztum notum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir og flutt er af hæstv. ríkisstj., er, að því er mér sýnist, byggt að miklu leyti á till. sandgræðslunefndanna gömlu, enda þótt ýmsir góðir og gegnir menn hafi síðan haft málið til athugunar á vegum ríkisstj. Þær breytingar, sem á gamla frv. hafa verið gerðar, mun ég svo litillega hér á eftir drepa á. Ég vil taka fram, að ég fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur nú látið til skarar skríða og loks flutt frv. um þetta mikilsverða efni, svo sem henni auðvitað ber að gera og þótt fyrr hefði verið, svo þýðingarmikið sem málið er, og verður nú að ætla í þetta sinn, að nægileg samstaða náist um eðlilega afgreiðslu þess.

Þá vil ég geta nokkurra atriða í þessu frv., þar sem nokkur breyting hefur átt sér stað frá því, sem var í frv., sem við framsóknarmenn fluttum á undanförnum þingum. Mér hefur að vísu ekki unnizt tími til þess að bera fyllilega saman frv., og er því niðurstaða mín fengin við nokkuð skjóta yfirsýn, en að sjálfsögðu verður málið allt athugað vandlega í þn., en þar kann sjálfsagt ýmislegt fram að koma, sem þarfnast lagfæringar.

Frv. þetta er fyrst og fremst mun ýtarlegra um tvennt, annars vegar um gróðurvernd, þ.e.a.s. III. kafli frv., og þá aðallega að því er varðar gróðurverndarnefndir, sem gert er ráð fyrir, að starfa skuli í hverri sýslu, þar sem landgræðslustjóri álítur þess þörf. Það er ekki nema gott um það að segja og sjálfsagt til bóta. Þessar nefndir geta, ef vel og myndarlega er á haldið, látið gott af sér leiða. Þá eru annars vegar núkvæmari fyrirmæli um landgræðslufélög, þ.e.a.s. IV. kafli frv., aðallega hvernig skuli til þeirra stofnað, svo að löglegt sé, og minnir nokkuð á þær reglur, sem gilda um veiði- og fiskiræktarfélög, en um þann félagsskap er nokkur reynsla fengin. Er þessi kafli einn hinn fyrirferðarmesti í frv., og vil ég ekki gera lítið úr þeim ákvæðum. Slíkur félagsskapur getur komið fram æðimörgu til gagnsmuna í landgræðslumálunum, og í heild þykist ég mega fullyrða, að þessi kafli frv., IV. kaflinn, sé vel unninn. En starfsemi landgræðslufélaganna verður að sjálfsögðu að styrkja af opinberri hálfu, svo sem auðið er, bæði beint og óbeint, ag það er eitt höfuðatriði. Hvernig þeim stuðningi verður varið, kemur ekki, að því er mér sýnist, nægilega ljóst fram í frv.

Í frv. eru svo nokkur atriði, sem færð hafa verið úr skorðum eða felld niður frá því, sem áður hafði verið í sams konar frv., sem lögð voru á undanförnum árum fyrir þingið. Styrkur úr ríkissjóði fyrir landeigendur, sem koma upp girðingum á uppblásnum svæðum, sýnist mér vera lækkaður úr 3/4 hlutum kostnaðar af hálfu hins opinbera við framkvæmdir og í 2/3 hluta, og er þó aðeins heimilt að fara upp í 2/3 hluta kostnaðar við endurgreiðsluna. Þetta er að mínu álíti nokkuð vafasöm breyting og kannske ekki til bóta, en þn. mun væntanlega athuga þetta atriði nánar. Þá er gert ráð fyrir því, að landgræðslustarfseminni verði skipt í tvo meginþrætti, þar sem landgræðslustjóri fari með annan þáttinn, en fulltrúi hans með hinn; en þeir eiga báðir að hafa háskólamenntun í búfræðum, sem er að sjálfsögðu eðlilegt skilyrði. Mér finnst í fljótu bragði, að þessi skipting starfa með landgræðslustjóra og fulltrúa hans sé varla nægilega skýrt afmörkuð í frv. og geti e.t.v. valdið ágreiningi eða erfiðleikum í framkvæmd og athuga þurfi því, hvort eigi ekki að greina nánar frá um valdsvið þeirra og sjálfstæði í starfi. Ég vildi vænta þess, að þn. tæki þetta atriði einnig til nokkurrar yfirvegunar. En víst er um það, að hvor þátturinn um sig er ærið verkefni, og sérfræðings um hvorn þáttinn er fyllsta þörf að sjálfsögðu.

Þá er í þessu frv. sleppt sérstökum ákvæðum, sem voru í fyrra frv. um afrétti og græðslu þeirra. En mér sýnist, að ekki þurfi þetta þó að koma að sök, ef þannig verður á haldið og um framkvæmdir fer í anda þeirra ákvæða, sem lúta þó að þessu í frv. En kaflinn um afrétti og sérstaka áætlun um uppgræðslu lands þar hefur verið felldur niður frá því, sem í gamla frv. var, eða því, sem síðast var hér til meðferðar.

Þá finnst mér, að kaflinn í frv., sem fjallar um rannsóknir og er í þágu sandgræðslu og gróðurverndar, V. kafli frv., mætti vera ýtarlegri, en sá kaflinn er einna fyrirferðarminnstur og var svo að vísu áður í áliti sandgræðslunefndar. En hitt er allt annað mál, að þar er vikið að mikilvægum atriðum, sem með víðsýni og dugnaði af hálfu rannsóknarmanna og góðum stuðningi ríkisvaldsins í allri framkvæmd geta orðið landgræðslustarfinu til hins mesta gagns. En ekki tel ég, að það hefði sakað, að betur hefði þessi kafli verið útfærður í einstökum atriðum, eða það er mitt álít.

Þá er í frv. ekki um það ákveðið, hvar skuli vera bækistöðvar landgræðslunnar. Ég hefði a.m.k. persónulega kunnað því betur, að úr því væri í frv. að fullu skorið, að bækistöðvar landgræðslunnar skyldu vera að Gunnarsholti á Rangárvöllum, landgræðslustjóri ásamt fulltrúa og öðru starfsliði þar búsettur. Það er æðimargt, sem mælir með því, að svo yrði ákveðið, en út í rökstuðning fyrir því ætla ég ekki að fara að þessu sinni.

Þar sem þetta mál og allar framkvæmdir eru að miklu leyti fjárhagseðlis, er það að mínu álíti nokkur ljóður á frv., að ekki skuli vera þar getið um, með hverjum hætti afla eigi fjár af opinberri hálfu til aukinnar uppgræðslu og gróðurverndar, svo og kostnaðarsamra rannsóknarmála o.s.frv. Í frv. til fjárlaga 1965 hækkar nokkuð og það allverulega framlag til sandgræðslunnar frá því, sem var árið 1964. En mér sýnist, að sú hækkun nemi vart meiru en því, sem samsvarar dýrtíðaraukningu á tímabilinu, þannig að ekki sé í frv. til fjárl. 1965 gert ráð fyrir sérlega auknum aðgerðum í þeim efnum, sem þetta frumvarp fjallar um.

Í grg. fyrir frv. segir, og er það býsna eftirtektarvert, að þess hafi verið sérstaklega óskað, að sú nefnd, sem nú síðast hefur með málið farið á vegum ríkisstj., gerði ekki till. um sérstaka fjárútvegun til þeirra framkvæmda, sem frv. fjallar um. Verði að gera ráð fyrir, segir í grg., að rn. íhugi þá hlið málsins, ef þess er talin þörf.

Ég hef ætíð álítið, að fjáröflunin væri höfuðatriðið til nýrra og stórfelldra átaka í landgræðslumálunum. Að öðrum kosti mundi að mínu álíti allt sitja við sama eða líkt. Og á undanförnum árum, þegar þetta mál hefur borið á góma hér á Alþingi, hefur jafnan höfuðumræðuefnið verið það, með hverjum hætti afla skyldi fjár til aukinna framkvæmda í þessu skyni, þ.e.a.s. í landgræðslumálum, og um önnur atriði hafa menn verið nokkurn veginn sammála, en jafnan strandað á þessu skeri. Í frv. frá því í fyrra, sem framsóknarmenn fluttu, var gert ráð fyrir gjaldi lögðu á áfengi, 5 kr. á hvern lítra, sem talið var að mætti reikna með, að gerði um 5 millj. kr. á ári. Á þessa leið var þarna bent, ekki vegna þess, að það mætti ekki fara fleiri leiðir, heldur til þess að skiljast ekki svo við frv. þá, að ekki væri bent á leið til öflunar fjár í þessu skyni. En í þessu frv. er ekki bent á neina leið til fjáröflunar.

Hæstv. landbrh. gat þess í framsöguræðu sinni fyrir þessu máli áðan, að meiningin væri að afla fjár gegnum fjárl. og hækka þar fjárveitingar til þessara mála, sem með þyrfti hverju sinni, og vissulega er þetta leið, en á hana er bent í ræðu, en kemur ekki fram í frv. sjálfu neitt um það. Ég fyrir mitt leyti sé ekkert athugavert við það, þó að þessi mál, landgræðslumálin, fari inn á fjárlög og kostnaður þeirra vegna sé greiddur þar, svo sem með þarf. En ef ekki er lagt meira til af fjármunum í þessum efnum en verið hefur, þótt það beri ekki að vanþakka, sem veitt hefur verið, þá hygg ég, að allt það, sem liggur fyrir til aðgerða samkv. frv., verði ekki framkvæmt nægilega fljótt og kannske alls ekki framkvæmt. Hér þarf að framkvæma stórfelldar rannsóknir, bæði á beitarþoli og gróðureyðingu. Svo er heimild til þess í frv. að koma upp gróðrarstöð, þar sem fram fari rannsóknir á ýmiss konar jurtum, sem bezt mættu að gagni verða í hinu nýja gróðurríki, þegar farið er að rækta upp sandflákana. Þessi gróðrarstöð getur sjálfsagt orðið æðidýr í uppkomu. Þá þarf að greiða stórfelldar fjárhæðir í sambandi við sandgræðslugirðingar, bæði bæta þær, sem fyrir eru og farnar eru að úreldast og kannske komnar að falli sums staðar þær eldri, og bæta nýjum girðingum við. Það segir sig sjálft, að öllum þessum aukna kostnaði verður að mæta af myndarskap af hálfu ríkissjóðs, en það er hægt að gera með því að hækka fjárframlög til þessara mála á fjárl. hverju sinni. En það er í raun og veru meginkjarni málsins að afla nægilegs fjár til þeirra verkefna, sem leysa þarf á grundvelli þess frv., sem hér liggur fyrir, ef að lögum verður.

Ég skal svo ekki hafa orð mín fleiri að sinni. Ég vil að öðru leyti vona, að takast megi að koma þessu frv. fram á þessu þingi með myndaslegum hætti, og treysti því, að þn., sem fær málið til meðferðar að lokinni þessari umr., taki þannig á því, að svo megi verða.