16.03.1965
Efri deild: 55. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

102. mál, jarðræktarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. hefur gert grein fyrir þeim breytingum, sem landbn. flytur í heild við frv. til jarðræktarl., og skal ég ekki frekar um það fjölyrða, enda var þetta mál allmikið rætt við 1. umr. í vetur, og boðaði ég þá, að ég mundi ásamt fleirum flytja brtt. við þetta frv., enda þótt ég mundi fylgja frv., þótt mínar brtt. næðu ekki fram að ganga.

Það er nú svo, að þótt ýmis nýmæli hafi komizt inn í jarðræktarl. á undanförnum árum, er þó margt, sem þar mætti gjarnan koma inn og hefur meiri rétt á sér nú og í framtíðinni en verið hefur, eins og hv. 8. landsk. þm. drap réttilega á. Ég minntist á það hér í sambandi við annað frv., sem nýlega hefur verið afgreitt héðan úr d., það er frv, til búfjárræktarl., að ég teldi það réttlætismál, að búnaðarsambönd landsins fengju greiddan helming kostnaðar við ferðir og skrifstofuhald héraðsráðunauta. Þar sem svo er gert ráð fyrir í þessu frv. eins og búfjárræktarfrv., að ráðunautar hafi laun sín að 65 hundraðshlutum frá ríki og 35 hundraðshlutum frá búnaðarsamböndum, hef ég einnig við þetta frv. flutt sams konar till. og við búfjárræktarfrv., og færi ég sömu rök fyrir því og þá, að þar sem ríkið greiðir yfirleitt ferðakostnað sinna starfsmanna, sé ekki síður ástæða til, að ríkið greiði ferðakostnað ráðunauta a.m.k. að hálfu, þar sem ráðunautarnir eru að meiri hl. til starfsmenn hjá því opinbera en búnaðarsamböndum. Þetta er till. mín og hv. 4. þm. Austf., sem stendur ásamt mér að þeim till., sem eru á þskj. 331. Till. eru við II. kafla 1. eða 10. gr. frv., og skal ég færa nokkur rök fyrir þeim brtt., sem við flytjum á þskj. 331.

2. till. er um breytingu á framlagi vegna framræslu lands, en framræslan eða þurrkun lands er í flestum sveitum undirstaða allrar annarrar ræktunar. Þessi undirstöðuframkvæmd kostar yfirleitt mikið og kemur það seint til afnota, að það er ekki réttlátt, að hlutaðeigandi aðíli, sem að framkvæmdinni stendur, greiði hana nema að litlu leyti. Það eru þær kynslóðir, sem við landinu taka, sem njóta þessarar framkvæmdar, og því höfum við farið fram á það, að ríkið greiði 85% af kostnaði við framræslu í stað 65% nú.

Þá eru það brtt. okkar, sem miða að því, að ríkið greiði 25% í kostnaði við framkvæmdir, þ. e. jarðrækt, girðingar, votheyshlöður, áburðargeymslur, sem falla undir þessa liði. Þetta er að vísu nokkur hækkun frá því, sem verið hefur, en þó ekki það mikil, að það mundi ekki borga sig fyrir alla aðila í tvennu tilliti: Í fyrsta lagi mundi það ekki knýja á um eins hátt verðlag á landbúnaðarframleiðslu og ella væri, ef bændur verða að kosta þessar framkvæmdir að eins miklu leyti og veríð hefur og að eins miklu leyti eins og það frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir. Þess vegna er það, að við teljum, að þessi mál geti borgað sig fyrir alla aðila, ef til framkvæmda komi. Hv. 8. landsk. þm. gat þess, að Brtt. okkar um jarðrækt næði aðeins til þess lands, sem væri yfir 25 ha. Þetta er okkur fyllilega ljóst, vegna þess að við álítum, að eins og sakir standa sé réttur þeirra tryggður, sem rækta land, sem er undir 25 ha. nú, þar sem Landnám ríkisins greiðir samkv. stofnlánadeildarl. það, sem á vantar, að jarðræktarl. nái til, svo að hlutaðeigandi aðili fái greiddan helming kostnaðar við framkvæmdina. Því teljum við, að það megi ekki með öllu telja það réttlætanlegt, að túnstærð sé við þetta miðuð, heldur framlagið sé hækkað það mikið, þegar kemur yfir 25 ha., að hlutaðeigandi aðili fái ekki minna en 1/4 kostnaðar greiddan, enda þótt það sé nokkuð stór trappa frá því að fá helming.

Þá eru það þurrheyshlöður og garðræktargeymslur, sem við leggjum til að framlag hækki til upp í 15% af kostnaði, en þetta er nú samkv. l. aðeins örfá prósent. Þessar framkvæmdir eru allkostnaðarsamar, því að byggingarkostnaður hefur hækkað geysimikið með hverju árinu, sem hefur liðið, og jafnvel þó að við förum ekki nema eitt einasta ár aftur í tímann, hefur byggingarvísitalan stigið allmikið og byggingarkostnaður því orðinn ákaflega tilfinnanlegur.

Þá er það eitt atriði, sem ég hygg að við séum allir sammála um að beri að taka fram yfir annað, en það er súgþurrkun. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því a.m.k. næstu 5 árin, að ríkið greiði 1/3 kostnaðar við súgþurrkun og þar með talið súgþurrkunarkerfi, blásari og aflvélar, sem knýja blásarann. En sú breyting er hjá okkur á þessu, að ríkið greiði 2/5 hluta kostnaðar, og á það jafnt við súgþurrkunarkerfið sjálft, blásarann og þá aflvél, sem knýr blásarann, og þarna er nokkur stigsmunur á. En því aðeins notast ræktun landsins, að heyþurrkunin og heygeymslan sé svo örugg og góð, að gildi grassins haldi sér með öllum þeim eiginleikum, sem grasið færir búfénu yfir sumartímann, og þetta mundi verða til þess, að það yrði allmikill sparnaður í fóðurbætiskaupum almennt hjá bændum. En að því verðum við líka að stuðla.

Þá er það 10. liður þeirra brtt., sem við flytjum, og það eru breytingar, sem fela í sér það nýmæli, að inn í löggjöfina séu tekin framlög vegna vatnsveitna á sveitarheimilum. Með vaxandi þægindum á heimilum og aukinni framleiðslu og meiri kröfum varðandi hreinlæti allt en áður var er þetta mikið nauðsynjamál, vegna þess að fjöldi bænda verður árlega að leggja í mikinn kostnað til þess að afla sér nægjanlegs og góðs vatns fyrir heimili sitt. Hv. 8. landsk. þm. minntist á það, að til væri löggjöf, sem sett var 1947. Það er alveg rétt, að það er löggjöf frá 5. júní 1947 um vatnsveitur. En það er tvennt, sem ekki hefur fengizt enn þá breytt í þeirri löggjöf, enda þótt legið hafi fyrir brtt. hin síðari ár um að kveða ljósara á um þessa löggjöf en áður var og tryggja meira fjármagn samkv. þeirri löggjöf, til þess að hún næði til fleiri aðila en verið hefur. Þess vegna er það, að við höfum flutt brtt. við þetta frv. um það, að bændur almennt, einstakir bændur, njóti framlags frá því opinbera, þegar um vatnsveitur er að ræða, enda er margt, sem mælir með því, að þetta sé tekið upp í jarðræktarlög, og ekki sízt það, að ráðunautar Búnaðarfélags Íslands gera áætlanir og skipuleggja þessar framkvæmdir fyrir bændur, eins og aðrar þær framkvæmdir, sem bændur fá framlag til samkv. jarðræktarl., ég svo líka það, að ef þetta ákvæði er tekið inn í l. á þann hátt, sem við gerum ráð fyrir, verða allir jafnréttháir samkv. þeim l., sem ég hygg að þeir muni ekki vera samkv. núgildandi löggjöf um þessi efni, þar sem það hefur verið meira á valdi rn. að útdeila því fjármagni, sem verið hefur til umráða, heldur en þar hafi verið fastar reglur, sem hefur verið skylda að fara eftir. Ég vonast eftir því, þar sem hv. 8. landsk. þm. er mjög vinsamlegur í garð þess, að þetta ákvæði sé upp tekið í jarðaræktarl., að hann vinni að því bæði á þessu þingi og í framtíðinni við sinn flokk, sem telur sig mikinn bændaflokk, að þetta ákvæði komist inn í lögin. Ég veit, að hv. 8. landsk. þm. er þetta sjálfum mikið kappsmál, og ég vænti því mikils góðs af honum í þessum efnum.

Þá kem ég að einni meginbreytingu, sem hv. 4. þm. Austf. og ég viljum gera á greiðslufyrirkomulagi jarðræktarframlaganna. En það er það, eins og hv. þm. hafa veitt athygli út frá brtt. okkar, að þar er ekki miðað við einingu framkvæmdanna, heldur miðað við vissan hluta af kostnaði framkvæmdanna. Þetta gerum við til þess að tryggja það, að þegar dýrtíðin vex ört í landinu, fái bændurnir alltaf sinn vissa hluta, eins og löggjöfin gerir ráð fyrir, í framlag frá ríkinu. Reynsla okkar er nokkuð bitur í þessum efnum hin síðari ár, eins og kom greinilega í ljós, þegar vísitalan var fastsett árið 1960 og framlag samkv. jarðræktarl. hefur staðið í stað undanfarin ár og valdið bændum stórtjóni miðað við það, að eðlileg vísitala hefði gilt í þessum efnum, eða hitt, að alltaf hefði verið greitt sama hlutfall af kostnaði framkvæmdanna. Ég fagna því að sjálfsögðu, að upp í frv. hæstv. ríkisstj. er tekin vísitala á þessar framkvæmdir. Ég tel það mikla bót frá því, sem verið hefur. En reynslan hefur sýnt okkur, að það er hægt að óvirka þá vísitölu á skömmum tíma, og því er það, að hún mun ekki ná sama tilgangi í þessum efnum og það fyrirkomulag, sem við viljum hafa á þessum greiðslum, þar sem alltaf yrði skylda að greiða vissan hluta framkvæmdanna, því að það er þó aldrei hægt að gera óvirkt nema með breytingum á hlutaðeigandi löggjöf sjálfri, því verður ekki breytt með ákvæðum í öðrum lögum, sem hlutaðeigandi ríkisstj. kynni kannske að setja, eins og reyndin varð á með efnahagslöggjöfinni 1960.

Ég vænti því þess, að hv. alþm. sjái þá kosti, sem brtt. okkar hafa fram yfir þær brtt., sem eru í frv. sjálfu, og taki þær fram yfir frv. sjálft. Ég get fallizt á það, að hér sé um kostnaðarauka að ræða miðað við það, sem samkomulag varð um á s.l. hausti. En ég er ekki viss um, að þm. séu svo bundnir af þessu samkomulagi, að þeir geti ekki breytt þar um og bætt um í þeirri löggjöf, sem fyrir Alþ. liggur, ef það felur í sér réttlátar kröfur, því að það er enginn vafi á því, að enda þótt oft sé um það rætt, að íslenzkir bændur njóti margvíslegra framlaga frá því opinbera, hefur það skýrzt undanfarandi ár og undanfarandi missiri, að það skortir mikið á, að íslenzka ríkið sé jafnoki nágrannaþjóðanna í þeim efnum. Og því er það, að ég held, að þær till., sem hér eru, gangi á engan hátt lengra, en á flestan hátt skemmra en það, sem gildir í hliðstæðri löggjöf hjá nágrannaþjóðum okkar. Og mér finnst, að það sé viðmiðunin hjá okkur, að við stöndum ekki lakar að landbúnaði okkar eigin þjóðar en aðrar þjóðir gera hjá sér, og ég vænti því þess, að hv. alþm. samþykki þær brtt., sem fyrir liggja á þskj. 331.

Ég ætla ekki nema að gefnu tilefni að ræða meira um þessi mál. Ég fagna hverri breytingu, sem til bóta er á þessari löggjöf, og mun ég fylgja þeim, enda þótt ég telji, að þar beri að stíga myndarlegra spor en gert er með því frv., sem lagt er fyrir á þskj. 151.