08.04.1965
Neðri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

102. mál, jarðræktarlög

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Með þessu frv., sem hér er á dagskrá, eru jarðræktarframlögin hækkuð til samræmis við það, sem hæstv. ríkisstj. lofaði á s.l. sumri, þegar fyrir lá að ákveða verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða, en fulltrúar bænda í verðlagsnefnd og stjórn Stéttarsambands bænda mátu slíkt loforð þá sem nokkra viðurkenningu á því, að hlutur bænda þyrfti að batna. Frá sjónarmiði ríkisstj. hefur slíkt loforð á þeim tíma, þegar það var gefið, vafalaust ekki siður verið gefið með það í huga að halda hækkun landbúnaðarvaranna niðri að nokkru, svo að ríkisstj. ætti hægara með að halda í heiðri sínum hluta af júnísamkomulaginu svokallaða.

Með frv. er að mínum dómi stigið spor í rétta átt, en hefði þó þurft að hafa þar meiri stórhug og víðsýni gagnvart landbúnaðinum, og í leiðinni hefði gjarnan mátt minnast þess og reyna að bæta fyrir það, sem bændastéttin ein stétta í landinu tapaði, er vísitala á framlög til jarðabóta var afnumin með efnahagsmálalöggjöfinni 1960. Aðrar stéttir flestar a.m.k. náðu þó að verulegu leyti, a.m.k. að nokkru leyti, með uppsögn samninga því, sem þær töpuðu með afnámi vísitölunnar. En bændurnir urðu að búa við jarðræktarframlög hin sömu og 1959, þótt allur tilkostnaður við umbætur margfaldist í verði. Hið eina, sem fékkst, var hækkunin á aukaframlaginu til túnræktar fyrir þá, sem ekki höfðu komið túnrækt sinni upp fyrir ákveðna stærð, eins og kunnugt er, og var það að vísu veruleg bót fyrir hina smærri bændur, það skal ég játa. Við framsóknarmenn bárum hvað eftir annað fram till. um hækkun á framlagi til að stækka litlu túnin, enda átti flokkurinn frumkvæði að lagaákvæði um slíkt 1957, og þó að till. okkar framsóknarmanna um þetta væru felldar hér á Alþ., fyrst um hækkun upp að 15 ha. markinu og síðar upp að 25 ha. markinu, þá tók hæstv. ríkisstj. slíkar till. upp sjálf seinna og gerði að sínum, og er auðvitað gott um það að segja, þó að það hefði að mínum dómi verið henni til meiri sóma að fallast á slíkt strax, þó að það kæmi frá öðrum en henni sjálfri.

Við framsóknarmenn höfum bæði á Alþ. í fyrra og einnig núna á þessu þingi flutt frv. um hækkun jarðræktarframlaganna og sett þær till. fram í nýju formi, eins og kunnugt er, þannig að miða framlögin við hundraðshluta af kostnaðarverði framkvæmdanna. Þetta hefur ekki fengið hljómgrunn hjá hv. stjórnarflokkum. Í Ed. báru fulltrúar Framsfl. í landbn. fram brtt. við þetta frv., og voru þær í samræmi við efni þess frv., sem við nokkrir þm. fluttum hér snemma í vetur í þessari hv. d.

Þessar brtt. voru felldar í Ed., en samt hef ég leyft mér ásamt tveimur öðrum hv. þm., 5. þm. Vestf. og 5. þm. Norðurl. v., að flytja og leggja hér fram samhljóða brtt, við frv. eins og þær, sem framsóknarmenn í Ed. fluttu þar.

1. brtt. okkar er um það, að skrifstofu- og ferðakostnaður búnaðarsamtakanna greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af hlutaðeigandi búnaðarsambandi. Samkv. frv. er ekki gert ráð fyrir neinni greiðslu úr ríkissjóði til þeirra hluta, og búnaðarsamböndin verða ein að sjá um slíkt, þó að sá kostnaður verði óneitanlega að verulegum hluta til vegna framkvæmda búnaðarsambandanna við mælingar og úttekt jarðabóta og fleira, sem mér finnst og okkur flm. eðlilegast að ríkið taki þátt í, alveg eins og það á samkv. þessu frv. að borga fullan helming af launum héraðsráðunauta.

2. brtt., sem er við 10. gr. frv., er um það að hækka jarðræktarframlögin og að þau miðist við hundraðshluta af kostnaðarverði framkvæmdanna, eins og ég hef áður vikið að. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa brtt. Það er við 10. gr., að gr. orðist svo:

„Til framkvæmda þeirra í jarðrækt og húsabótum, sem taldar eru í þessari gr., skal greiða framlag úr ríkissjóði sem hér segir:

I. Framræsla vegna túna-, akur-, engja- og hagaræktar, vélgrafnir og handgrafnir opnir skurðir, svo og hvers konar lokuð ræsi: Framlag 85% kostnaðar.

II. a. Frumvinnsla lands vegna grænfóðursog kornræktar. b. Túnrækt á söndum. c. Túnrækt á valllendi, móum og melum. d. Túnrækt á þurrkuðu mýrlendi. e. Endurvinnsla túna vegna kals eða þýfis. f. Grjótnám: Framlag 25% kostnaðar.

III. Girðingar um ræktunarlönd: a. Sex strengja gaddavírsgirðing. b. Fimm strengja gaddavírsgirðing. c. Þriggja strengja gaddavírsgirðing á skurðbakka. d. Vírnetsgirðing með einum gaddavírsstreng: Framlag 25% kostnaðar.

IV. Þurrheyshlöður úr varanlegu efni: Framlag 15% kostnaðar.

V. Votheyshlöður úr varanlegu efni: Framlag 25% kostnaðar.

VI. Áburðargeymslur: a. Safnþrær, b. Áburðarhús, haugstæði og kjallarar: Framlag 25% kostnaðar.

VII. Súgþurrkunarkerfi með eða án blásara: Framlag 40% kostnaðar.

VIII. Garðávaxtageymslur steyptar með þaki úr varanlegu efni: Framlag 15% kostnaðar.

IX. Vatnsveitur til heimilis- og búsþarfa, vatnsupptaka, þar með talin borun fyrir vatni, vatnsgeymar og vatnsleiðsla frá vatnsupptökum að vegg íbúðarhúss: Framlag 1/3 kostnaðar.

Búnaðarfélag Íslands og Teiknistofa landbúnaðarins láta sérfræðinga sína meta árlega kostnað hverrar tegundar framkvæmda, sem upp eru taldar í grein þessari.“

Þetta ákvæði um stuðning við vatnsveitur til heimilisþarfa hefur ekki verið í jarðræktarl.

En við flm, teljum, að slíkt framlag væri mjög eðlilegt, því að fyrsta skilyrðið fyrir búrekstrarhæfni jarðar er auðvitað það, að þar sé vatnsból virkjað á þann hátt, sem nútíma búrekstur og lifnaðarhættir manna gera nauðsynlegt. Í vatnsveitul. er ákvæði um ríkisframlög til vatnsveitufélags eða sveitarfélags, en þau ákvæði ná ekki til vatnsveitna í sveitum, nema þar sem margir bæir geta verið saman um sömu vatnsveituna. Einstakir bæir koma þar ekki til greina, eins og kunnugt er, og ekki nær styrkur nema til stofnæðar að fyrstu greiningu, þó að margir bæir séu um sameiginlega vatnsveitu. En skilyrði til sameiginlegrar vatnsveitu fyrir marga bæi eða bólstaði eru mjög óvíða til staðar í sveitum vegna strjálbýlis.

Það reynist mjög dýrt og erfitt víða að ná góðri og öruggri vatnsveitu fyrir sveitabæi. Er það kostnaður, sem mörgum bónda reynist erfitt að borga, og ég veit ekki til þess, að það sé nokkurs staðar lán að fá til slikra framkvæmda. Búnaðarþingsnefndin, sem endurskoðaði jarðræktarl., tók upp í frv. sitt ákvæði um heimilisvatnsveitur, og teljum við flm. brtt. á þskj. 414, að slík ákvæði eigi fyllilega heima í jarðræktarl. og stuðningur við slíkar framkvæmdir mjög tímabær, ekki sízt með tilliti til stækkaðra búa og nýrra hreinlætis- og lífsvenja.

Með þessum brtt., sem ég hef nú hér lítillega vikið að og lesið, er, ef þær verða samþykktar, tekin upp sú stefna hvað framlögin snertir til umbóta í jarðrækt og byggingum bænda, að þau verði hluti af kostnaði við framkvæmdirnar. Það er ný stefna, sem við í Framsfl. höfum markað með þessum tillöguflutningi, og ég vænti þess, að það líði ekki mörg ár þangað til þessari stefnu verður komið í framkvæmd. Ég tel, að það sé nauðsynlegt gagnvart landbúnaðinum að efla stuðning við þessar framkvæmdir í sveitunum, jarðræktina, byggingarnar, sem tilheyra búrekstrinum, og t.d. vatnsveituframkvæmdir, því að það er vitanlega grundvöllur eða skilyrði fyrir því, að hægt sé að reka búskap, að þar sé nægt vatn fyrir hendi. Og þetta tel ég mjög þýðingarmikið, ekki einasta fyrir bændurna sjálfa, að þessi stuðningur verði aukinn, heldur líka fyrir þjóðfélagið í heild, sem hlýtur að eiga mikið undir því, að þau matvæli, sem landbúnaðurinn framleiðir, séu framleidd í landinu og ekki þurfi að fá þau annars staðar að.

Ég held nú, herra forseti, að ég hafi ekki ástæðu til að segja fleira að svo stöddu um þetta.